16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég skil vel, að menn þurfi að stytta mál sitt eins og hægt er.

Hér er um að ræða brýnar ráðstafanir með það fyrir augum að reyna að koma í veg fyrir, að fiskútflutningurinn stöðvist. Munu allir sammála um það. Heimild ríkisstj. er miðuð við leigu á allt að 20 skipum, og er vitað, að um 30 skip eru í þessum fiskflutningum yfirleitt. En af þessum 30 skipum eru nokkur skip, sem eru á leigu hjá sjómönnum sjálfum og útgerðarmönnum eða samlögum þeirra og líka hjá bátafélögum, sem enn halda uppi fiskflutningum á eigin ábyrgð í bili, þó að aðrir, sem hafa verið í þeim, hafi stöðvað flutningana. Ég verð að vænta þess, þegar þessi ráðstöfun ríkisstj. kemst í framkvæmd, að þá þyki það eðlilegt, að tekið verði tillit til þessara samlaga og bátafélaga, sem hafa rekstur með höndum, og ríkisstj. geri sams konar ráðstafanir gagnvart þeim og hinum öðrum skipum, m. ö. o., ég get ekki hugsað mér það, að tilgangurinn sé sá að leigja eingöngu og standa straum af útflutningi þeirra skipa, sem nú hefur verið lagt upp, en láta hin bera þunga dagsins sjálf, sem kæmi út með tapi fyrir þau, heldur muni ríkisstj. jafnvel fyrst og fremst taka ábyrgð á áhættu þeirra, sem enn halda uppi fiskflutningum á þann hátt, er nú er lýst.

Þá vildi ég stuttlega minnast á það, að full þörf er á að hækka það hámark, sem tiltekið er í frv. varðandi saltfiskinn, og þá er ætlazt til að hækka verðið samkv. tili. atvmrh. Það vill svo til, að nú er einmitt aflahrota í sumum veiðistöðvum hér nálægt og mjög mikill afli, sem fer í salt þessa dagana, og held ég því, að það skemmsta, sem hægt er að ganga í þessu efni, sé að samþ. till. á þskj. 536, frá hv. þm. Borgf.

Svo vildi ég taka undir það, sem hér hefur komið fram, að e. t. v. er höfuðundirrót þess, að grípa verður til þessara ráðstafana, sú stefna, sem virðist vera ráðandi hjá þeim, sem sigla með fiskinn, að vilja á engan hátt slaka til með sín kjör. Og þá fer að verða mjög vafasamt, hve lengi hægt er að sætta sig við það, að slík gjöld séu skattfrjáls. En eins og sakir standa, verður ekki annað ráðið en það, sem er, ef ekki á að gjalda allt of mikið afhroð af þessum ástæðum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Það er margt, sem kemur til greina í þessu sambandi. En ég vil að lokum undirstrika það, sem hefur komið fram frá öðrum, að engin töf má verða á því að koma þessu í framkvæmd, sem hér er stefnt að. Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. ætlar að gera til þess að halda fiskflutningunum við líði, verður að framkvæma hið skjótasta, og má engin bið á því verða.