08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

16. mál, fjárlög 1946

Kristinn Andrésson:

Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. á þskj. 322. Önnur er varðandi útgáfu orðabókar Guðbrands Vigfússonar. Það hefur fengizt tilboð um endurprentun á þessari merku orðabók og jafnframt að selja hér undir kostnaðarverði af þessari útgáfu. Eins og hv. þm. vita, er orðabók Guðbrands Vigfússonar bezta orðabók, sem út hefur komið hér, en hún hefur verið ófáanleg um langan tíma. Það er ekki eingöngu þetta tækifæri, sem boðizt hefur, heldur hefur Sir William Craigie, einn frægasti orðabókahöfundur og vel að sér í íslenzku, bæði fornri og nýrri, boðizt til þess að skrifa viðbót og leiðréttingar við orðabókina, og útgáfufyrirtækið hefur boðið, að þetta verði tekið með, gegn því skilyrði, að Sir William Craigie fái þóknun fyrir starf sitt héðan að heiman. Ég álít sleppt góðu tækifæri, ef Alþ. vill ekki verða við þessari beiðni. Sá, sem er milligöngumaður um þetta, er Snæbjörn Jónsson, sem mun nú þegar hafa snúið sér til menntmrh. og fengið góðar undirtektir. Ég vil mælast til, að fjvn. taki þetta til athugunar.

Hin till., sem ég hef leyft mér að bera fram, er sú, að ekkju Sigurðar Thorlacius verði veitt 2000 kr. árslaun. Þessi merki maður dó á síðast liðnu sumri, eins og kunnugt er. Háttv. fjvn, mun hafa haft þetta mál til meðferðar og virzt fjárhagur ekkjunnar svo góður, að ekki væri ástæða til að samþ. þessa till. eða taka hana í 18. gr. Ég hef komizt að raun um, að fjvn. hefur ekki fengið réttar upplýsingar. Ekkjan hefur styrk úr lífeyrissjóði og bæjarsjóði, en sú upphæð er ekki rétt, — reiknuð með ókeypis húsnæði, en það er rangt, því að hún hefur ekki þessi hlunnindi. Þegar maður hennar dó, hafði hún ekki lengur húsnæði, heldur varð að festa kaup á húsi fyrir 115 þús. kr. og standa undir lánum af því. Tekjur hennar munu vera 3–5 þús. kr. lægri en fjvn. hafði til hliðsjónar, og auk þess verður hún að greiða 1/3 af tekjunum í húsaleigu. Þetta er því mjög erfitt. Og enn fremur eru tekjur þær, sem hún fær úr lífeyrissjóði, bundnar við nöfn barnanna til 16 ára aldurs. Sonur hennar er nú að hefja nám í Menntaskólanum og er 15 ára. Á næsta ári fellur því úr það lífeyrissjóðsgjald, sem bundið er við nafn hans. Öllum hv. þm. er kunnugt, að Sigurður Thorlacius var einn af fremstu mönnum þjóðar vorrar. og á því fyllilega skilið, að vel sé gert við ekkju hans og börn.