17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Það er áreiðanlega tilgangur frv., að „hraðfrystihúsaeigenda“ komi í stað „fiskeigenda“, og vænti ég þess, að brtt. verði samþ. — Varðandi ummæli hv. þm. V. Húnv., að hér væri lagt út á sérstaka braut, vildi ég segja, að ég hefði ekki léð þessu máli fylgi, ef eigi hefði legið fyrir frjálst samkomulag. Meginefnið er, að hraðfrystihúsaeigendur hafa komið auga á hag sinn í því að aðhyllast till. stj., en hún og þeir gera þau kaup með sér, að eigendur húsanna fallast á, að 2½ eyrir pr. enskt pund sé lagður í ríkissjóð, gegn því hins vegar, að ríkisstj. ábyrgist, að verðið sé greitt, þótt fiskurinn verði seldur gegn gjaldfresti á erlendum markaði. Á bak við þetta felst svo, að hæpnar horfur eru á því, að takast megi að selja hraðfrysta fiskinn. Allverulegar líkur benda til, að ná megi nú góðu verði. Vonir standa til, að ná megi allmiklu hærra verði, ef ríkið tekur a. m. k. málamyndaábyrgð á sölu fisksins. Ef leggja á þjóðarfé í hættu til að ná góðu verði, þá má þess vera von, að fleiri njóti góðs af, og var rætt um þetta við útvegsmenn. Spurningu var varpað fram um það, hvort menn ættu eigi að njóta góðs af fyrir utan þennan 2½ eyri. Hraðfrystihúsaeigendur töldu sér það sanngjarnt. Engum hafði til hugar komið, þegar ákvörðunin um blautfiskinn var tekin, að fáanlegt yrði verð það, sem nú standa vonir til, að ná megi. Þegar hafa verið seld 5000 tonn af hraðfrystum fiski til Frakklands með kr. 1.20 pr. enskt pund. Svo standa yfir samningar um sölu á 500–1000 tonnum af fiski til Ítalíu, og á einnig að selja til annarra landa. En sumir samningar eru háðir því, að svo verði sem í frv. greinir. Á hinn bóginn mun undir ýmsum kringumstæðum stranda á því, að ríkið geti haft afskrift. Ákvæðum frv. er þannig háttað, að hvorki koma til greina skattgreiðslur né deiling, nema hærra verð fáist en kr. 1.10 pr. enskt pund. Með þessu háa verði er ætlazt til, að frystihúsin verði ekki fyrir neinu tapi.

Ég hafði gert ráð fyrir, að skýringar þessar kæmu fram í umræðunum. Hér er um frjálst samkomulag að ræða í aðalatriðum, og vildi ég umfram allt, að það lægi fyrir.