16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

205. mál, beitumál

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af sjútvn. Nd., en er fyrst samið af mþn. og fór frá henni óbreytt gegnum Nd. — Aðaltilgangur frv. er að sjá um, að ávallt sé til nægileg beita með eðlilegu verði í öllum verstöðvum. Skipa á þriggja manna nefnd til að sjá um þetta og á Fiskifélag Íslands að aðstoða með skýrslugerðum. Ef óttazt er um beituskort, er n. heimilt með samþykki ráðh. að frysta síld til beitu. Svo er n. heimilt að kaupa hús og annað til beitugeymslu. Á ríkissjóður að ábyrgjast 500 þús. kr. til starfsins og 200 þús. kr. í rekstrarfé fyrir nefndina.

Það er, eins og ég sagði, aðaltilgangur þessa frv. að tryggja það, að bátaútvegurinn stöðvist ekki vegna beituskorts. Annað meginatriðið er að koma á beitumati, og skipar lögreglustjóri viðkomandi matsmenn. Það á að tryggja, að ekki sé fryst skemmd síld.

Í þriðja lagi er ákvæði um, að beitunefnd sé heimilt að setja hámarksverð á beitu. Það hefur komið fyrir í beituskorti, að þeir, sem hafa af einhverjum ástæðum átt beitu, hafa selt hana óheyrilegu verði. Enn fremur er gert ráð fyrir, að setja megi hámarksfrystigjald.

Ég tel svo ekki ástæðu til að ræða frekar um einstök atriði þessa frv. — Í sjútvn. hefur ekki orðið samkomulag um afgreiðslu frv. Form. n., hv. þm. Barð., hefur tekið afstöðu gegn frv. og gefur hann út sérnál. og leggur til, að frv. verði fellt. Á fundi n., er þetta var rætt, var einn nm. fjarverandi, en 2 af 3 áskildu sér rétt til að koma með brtt.