21.02.1946
Neðri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

30. mál, gagnfræðanám

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og fram er tekið í nál. um þetta mál og ég gat um við 2. umr. málsins, þá hef ég leyft mér að bera fram brtt., sem ekki gat orðið samkomulag um í menntmn. Þessar brtt. eru prentaðar upp á þskj. 435, vegna þess að greinatala frv. breyttist nokkuð við 2. umr. málsins, en er nú með réttum tilvitnunum og í réttu formi á þskj. því, sem verið var að útbýta á þessum fundi.

Fyrsta brtt. er við 10. gr., eins og hún er nú orðuð í frv., eftir 2. umr. í þessari deild. Þessi breyt. er tekin orðrétt úr l. um héraðsskóla og felur í sér að halda þeirri stefnu óbreyttri, sem þar er ákveðin. Önnur brtt. er um eignarrétt á gagnfræðaskólum. Eins og þetta er orðað nú í frv., þá er gert ráð fyrir, að skólarnir verði eftirleiðis sameign ríkisins og þeirra félaga, sem leggja fram stofnkostnað skólanna, og er þessi gr. hugsuð og samin af mþn. í skólamálum. En með því er lagt út á nýja braut, sem ég get ekki fellt mig við að fylgja. Ef við lítum á, hvernig því er nú háttað um eignarrétt þeirra skóla, sem starfa í landinu, er hann með ýmsum hætti. Menntaskólinn og sérfræðingaskólar margir, t. d. kennaraskólinn, eru alveg byggðir og kostaðir af ríkinu, og engum blandast hugur um, að þeir eru eign ríkisins, enda þannig fært inn á ríkisreikningana. Ef við lítum á barnaskólana aftur á móti, þá er það svo, að í fræðslulögunum, sem enn þá gilda, eru engin sérstök ákvæði um það, hverjir eigi barnaskólahúsin í skólahverfunum. En við getum litið til annarra heimilda til að sannfærast um það. Ef við lítum í ríkisreikninginn, þá sjáum við það, að eignir menntaskólanna og sérfræðingaskólanna, sem ríkið kostar að öllu leyti, eru vitanlega færðar þar sem eignir ríkisins, en á ríkisreikningnum er hvergi að finna fært sem eign hjá ríkinu hluta af eignum barnaskólanna, sem þó ætti að vera, ef ríkið ætti einhvern hluta þeirra, því að á undanförnum árum hefur ríkið lagt fram miklar fjárhæðir til byggingar barnaskóla í sveitum landsins.

Þá skulum við víkja að gagnfræðaskólum og héraðsskólum. Í l. um héraðsskóla, sem eru og verða gagnfræðaskólar fyrir sveitirnar, er beinlínis ákveðið, að þeir séu sjálfseignarstofnanir eða eignir héraða þeirra, sem reisa þá, og fjárframlög ríkisins skoðast þá sem styrkur til þeirra á sama hátt og framlög til barnaskóla í landinu. Vitanlega bera að líta sömu augum á eignarrétt gagnfræðaskóla í kaupstöðum. Þeir eru eign þeirra bæjarfélaga, þar sem skólarnir standa, og þegar við höfum gengið úr skugga um þetta grundvallaratriði, hvernig háttað er um eignarrétt skóla þeirra, sem nú starfa, komum við að því, hvort þetta ákvæði, eins og það er fellt inn í frv. nú, fái staðizt ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Ég er raunar ekki sérfræðingur á lögfræðisviðinu fremur en öðrum sviðum, en mín skoðun er sú, að það sé ekki hægt með einfaldri löggjöf að taka þannig eignarrétt frá ýmsum aðilum í landinu, hreppsfélögum, bæjarfélögum o. s. frv., og færa þær með einni lagagrein yfir til ríkisins. Ég held, að það sé ekki í samræmi við þær skoðanir, sem ríkt hafa um þessi mál á Alþingi, né í samræmi við afgreiðslu Alþingis á ýmsum málum svipaðs eðlis. Eins og allir hv. þm. vita, mælir stjskr. svo fyrir, að eignarrétturinn sé friðhelgur. Þó veitir hún heimild til að taka eignarnámi ýmsar eignir með þeim skilyrðum, að sérstök l. séu um það sett og fullar bætur komi fyrir, ef það varðar almenningsheill, að þessar ráðstafanir séu gerðar. Ég fæ nú ekki séð, að það snerti almenningsheill út af fyrir sig, hverjir teljast eiga gagnfræðaskólana í landinu. Þeir sinna ákveðnum störfum fyrir þá, sem þá sækja, gegna ákveðnu hlutverki í þjóðfélaginu og gera það á sama hátt og jafnvel, hvort sem skólana eiga bæjar- og sýslufélög eða ríkið. Ég held, að það brjóti líka þá venju, sem fylgt hefur verið um svipuð mál og þessi á Alþingi, ef á með einni lagagrein að ákveða eignarrétt á mörgum stofnunum í senn víðs vegar úti um land. Það er mín skoðun, að það samrýmist ekki ákvæðum stjskr. og gildandi venju í löggjöfinni að taka þetta þeim tökum, sem gert er ráð fyrir í þessari frvgr. Mér er hins vegar ljóst, að það er á færi Alþ. að ákveða nýja skipan þessara mála framvegis, nýja skipan um eignarrétt þeirra stofnana, sem eftir er að byggja upp. [Fundarhlé.]

Þegar ég frestaði ræðu minni, hafði ég gert grein fyrir því, hvernig eignarumráðum yfir skólum gagnfræðastigsins væri háttað og ég teldi ekki gott ákvæðið í 61. gr. frv., og ber ég því fram brtt. við hana. Ég álít, að ekki geti samrýmzt stjskr. að breyta þessu með lagaboði. Ég veit, að Alþ. getur sett nýjar reglur og ný ákvæði um þær byggingar og skólahús, sem eftir er að reisa. En ég vil binda fast, að haldið sé sömu skipan um þetta atriði og verið hefur. Ég tel það eðlilegra, og með því fengist samræmi milli hinna nýja bygginga og þeirra, er fyrir eru. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að koma á meira samræmi en verið hefur, og er ég í sjálfu sér fylgjandi því að verulegu leyti. En ég held því fram, þar eð barnaskólarnir eru nú víðast hvar eign hreppsfélaganna og ekki er gert ráð fyrir hróflun á því, að þá sé till. mín sízt til þess að auka ósamræmið. Ég segi því, að eðlilegt sé, að hinar stærri félagsheildir, sýslu- og bæjarfélög, eigi hér hlut að máli, hafi umráð yfir gagnfræða- og héraðsskólunum.

Um 3. brtt. þarf ekki að ræða sérstaklega. Skýrir hún sig sjálf, og er eðlileg afleiðing, hlýtur að fylgja öðru. — Ég mun svo ekki mæla fleiri orð um þetta að sinni og læt því ræðu minni lokið.