21.02.1946
Neðri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson) :

Ég geri ekki ráð fyrir, að frekari umr. um málið milli hv. þm. A.-Sk. og mín hafi neina afgerandi þýðingu. Það, sem hér liggur fyrir, er ljóst. Fyrst og fremst sú till. hv. þm. að láta veitingarvaldið um skólastjóra og kennara við þessa skóla vera í höndum skólanefndanna, þó að samþykki fræðslumálastjórnar þurfi að vísu um ráðningu þeirra. Röksemdir hv. þm. í þessu sambandi eru þær, að þessir menn séu starfsmenn fólksins, og því sé eðlilegt, að fólkið ráði um það, hverjir þar verði til embættanna kjörnir. Það má segja þetta sama um alla embættismenn. Þetta sama gildir um lækna, sýslumenn og yfirleitt hvaða embættismenn, sem er, að þeir eru fyrir fólkið. En þó er það meginregla, að veitingarvaldið um embætti þeirra er í höndum ríkisstj. Enda er það sannast mála, að bæði ráðh. og fræðslumálastjóri eru starfsmenn fólksins, ekki síður en þessir embættismenn, sem hv. þm. A.-Sk. ræðir um. Hv. þm. nefndi í þessu sambandi prestana og að þeir væru kjörnir með kosningu, þar sem fólkið heima í héraði gæti alveg ráðið, hver fyrir kjöri yrði. Það er rétt. En hitt er líka rétt, að það er ákaflega, mikil óánægja meðal margra með það fyrirkomulag, ekki sízt þeirra, sem eiga að njóta þessara embættismanna. Það koma sífellt umkvartanir frá fólkinu um þetta fyrirkomulag. Ég held, að það sé gild regla, gagnvart þeim mönnum, sem eru starfsmenn ríkisins og taka laun að öllu leyti úr ríkissjóði, að þegar þeim er veitt starf, þá sé veitingarvaldið í höndum ríkisstj. sjálfrar. Og þegar um skólamenn er að ræða, þá er þeim, sem þeirra starfs eiga að njóta, gefin aðstaða til þess að hafa tillögurétt um það, hverjum séu veitt embættin. Þetta er eðlileg regla, og ekki ástæða til að taka upp annan hátt viðkomandi skólum gagnfræðastigsins en gildir um æðri skóla.

Þá hélt hv. þm. A.-Sk. langa ræðu út af eignarréttinum á skólahúsunum og sagði, að ekki væri hætta á ferðum, þó að skólahús þessi væru seld eða þau brynnu eða færust með öðrum hætti, ef þau væru í eign sveitarfélaga, skildist mér, því að tryggingarféð yrði greitt, en hins vegar ef ríkissjóður ætti eitthvað í þeim, þá væri öðru máli að gegna, því að ekki væri hægt fyrir menn að ganga í ríkissjóðinn „lausum höndum“ og taka tryggingarféð, þegar mönnum sýndist. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði skilyrðislaust helming stofnkostnaðar heimangönguskóla og þrjá fjórðu stofnkostnaðar heimavistarskóla. Það er að vísu rétt, að það er á valdi Alþ., hve miklu fé er varið til þessa á hverjum tíma. En eftir till. hv. þm. A.-Sk. væri það svo, að ef skólahús væri t. d. selt, þá rynni allt andvirðið í sveitarsjóð, en það sýnist mér óeðlilegt.

Þá hélt hv. þm. A.-Sk. langa ræðu um bæjarbókasöfn og sundlaugar, sem koma þessu máli, sem verið er að ræða, ekkert við. Því að það liggur ekki fyrir, að við í menntmn. gerum till. um þá hluti. En það er meginmunur á þessu tvennu og skólunum. Skólarnir eru ekki aðeins reistir, heldur einnig reknir fyrir fé frá báðum aðilum og reknir að meiri hluta fyrir fé ríkissjóðs, bæði með því að greiða öll laun úr ríkissjóði og hluta af rekstrarkostnaði. Slíkt er ekki tilfellið um sundlaugarnar og bæjarbókasöfnin. Þar er um styrk að ræða frá ríkinu til þess að koma þessu á fót, stundum einnig um smástyrk til rekstrar. En það er ekki um sameiginlegan rekstur að ræða hjá ríki annars vegar og bæjar- og sveitarfélögum eða öðrum félögum hins vegar viðkomandi sundlaugum og bókasöfnum. Ég veit, að hv. þm. hafa gert sér ljóst, hvað hér liggur fyrir, og þeir munu sennilega fá tíma til þess að átta sig betur á málinu, áður en atkvgr. fer fram um það, því að mér sýnist, að hún muni ekki fara fram á þessum fundi.