25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

30. mál, gagnfræðanám

Jónas Jónsson:

Ég álít það hefði frekar verið ástæða fyrir hæstv. ráðh. að tala um ýmislegt annað í þessu frv. en það litla atriði, sem hann vildi gera að stóru atriði. Með þessu frv. er gert ráð fyrir mjög verulegri breyt. á. skólakerfi landsins. Ég vildi leyfa mér, fyrst við höfum þá ánægju að hafa hæstv. ráðh. hér í þessum sal, að óska eftir útskýringu á því, hvernig hann hefur hugsað sér framkvæmd þessara l., ef það kemur til hans kasta að framkvæma þau. Þar sem nú stendur til að innleiða skólaskyldu á aldrinum 13–15 ára og gera hana helzt mögulega til 17 ára, þá geri ég ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. kennslumrh. hafi gert sér að einhverju ljóst, hvað af því muni leiða. Fyrst vildi ég fá að vita frá hæstv. ríkisstj., hvað þetta mundi kosta mikið í byggingum. Og hvernig ætlar hæstv. stjórn að koma upp öllum þessum skólum á þeim tíma, sem til er settur? Og hvað mun þetta kosta ríkissjóð í auknum gjöldum vegna launa nýrra kennslukrafta samkv. núgildandi launalögum? Ég vil í þessu sambandi benda á það, að ég rakst um daginn á héraðsskólakennara, sem hafði grasnyt og 2000 kr. laun, nú hefur hann 19.000 kr. úr ríkissjóði. (BBen: Og heldur grasnytinni?). Stjórnin hefur ekki tekið hana af honum enn þá. Þetta er táknrænt dæmi um það, hvað þetta muni kosta. Ég þykist enn fremur vita, að hæstv. ráðh. hafi talað um það við bæjarvöldin í Reykjavík, sem munu þurfa að byggja mikið, ef skólaskyldan verður framlengd úr 13–17 ára. Það er táknrænt fyrir hinn fyrirhugaða Ingimarsskóla, þótt það verði fögur bygging á að líta, þá vantar í hana allt það, sem í henni þarf að vera. Þar er ekkert verkstæðispláss. Ungir piltar og ungar stúlkur geta ekki fengið að vinna þar verkleg störf. Ég vildi leyfa mér að beina spurningum til borgarstjórans í Reykjavík, sem nýlega hefur verið kosinn til þess starfs til 4 ára. Telur hann, að Reykjavíkurbær geti tekið á sig á næstu 4 árum þann þunga, sem af þessu frv. leiðir, ef samþ. verður, bæði launalega og byggingarlega? — Þá vil ég enn fremur spyrja hæstv. kennslumrh., hvaðan honum kemur kjarkur til þess að taka við frv., sem gerir ráð fyrir að eyðileggja 7–8 skóla, sem fólkið í landinu á, héraðsskólana. Þetta er búið að gera fjárhagslega með setningu launal., eins og t. d. húsmæðraskólana. Þeir hafa enga peninga til svo mikið sem gera við hús eða þak, sem lekur. Allt, sem þessum skólum áskotnast, fer upp í laun til kennara, sem eru ákaflega vel settir, en húsin eru illa sett. Loks langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hvernig hann hugsar sér að framkvæma þessi l. t. d. þar, sem öll börn í sveitum skulu vera í skóla milli 7–13 ára og samkv. þessum till. eiga að bætast a. m. k. við 2 skylduár. Er það áform hæstv. ríkisstj. að eyða sveitunum með því að taka fólkið þaðan? Og ætlar hæstv. ráðh. að láta taka unglingana með valdi og setja þá í skólana? Því það verður hæstv. ráðh. að gera sér ljóst, að þegar að því kemur, að fólkið í sveitunum, hefur ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að óhlýðnast l. eða flosna upp, getur að því komið, að það velji fyrri kostinn, alveg eins og flokksbræður hæstv. ráðh. á Siglufirði, sem tóku þátt í grjótkasti í sambandi við Dettifoss. Þeir voru dæmdir til hegningar, en þeir neituðu að fara. Og þjóðfélagið var svo veikt, að það gat ekki tekið þá og látið þá sæta hegningu. Nú er ég ekki að segja það, að það hefði hjálpað nokkuð, þótt Þóroddur hefði verið við kartöflurækt austur á Litla-Hrauni, en l. sögðu, að hann ætti að vera þar. — Og ég vil spyrja: Er hæstv. ráðh. fær um að taka börnin frá heimilunum og fara með þau í skólana?

Nú, svo vildi ég gjarnan heyra skoðun hæstv. ráðh. á því, hvort hann hafi ekki veitt því eftirtekt, að fólkið í sveitunum, sem hefur byggt skólana að Laugum, Reykjatanga, Reykjanesi, Núpi, Reykholti og Laugarvatni og er að byggja í Varmahlíð og á fleiri stöðum, hefur lagt mikið á sig til þess að koma þessum skólum upp. Og það hefur gert það í ákveðnum tilgangi. Það hefur viljað hafa þá fyrir unglinga á aldrinum 17–18–20 ára. Með þessu frv. er ætlazt til, að í þeim stundi nám börn 13 ára. Skólunum er í raun og veru stolið frá fólkinu af fávísri n. og af ekki allt of vitrum ráðh., ef frv. nær fram að ganga. Svo kemur skólanefnd skipuð af handahófi. Einn aðalmaðurinn, Einar Arnórsson, hefur aldrei komið nálægt skólamálum nema kennt fullorðnum mönnum í háskólanum. Þessir nm. eru allir launað fólk, auk þess sem það stingur á sig 10 þús. kr. fyrir þessi nefndarstörf. Þetta fólk segir bara : Við erum búin að gera það, sem gera þarf. Við erum búin að rífa niður það skólakerfi, sem nú er, umtalslaust. Það er enginn spurður af þeim, sem byggt hafa upp þessa skóla. — Ég ætla að bíða, þar til hæstv. ráðh. kemur inn aftur. (Forseti: Ráðh. er frjálst að ganga út). Ráðherra flýr úr deildinni, flóttinn er brostinn.

Ég ætla þá að snúa mér að borgarstjóranum á meðan, ef ráðh. skyldi koma aftur, því að stundum stöðvast menn á flóttanum. Það eru nýafstaðnar bæjarstjórnarkosningar. Þar er hægt að líta á atkvæðatölur hvers flokks. Kommúnistar hafa fengið um 7 þús. atkv., en hins vegar eiga þeir tvo menn í flestum skólanefndum í bænum. Í því hefur ráðh. komið upp um sig. Markmið hans er að beita ofbeldi og koma sínum mönnum í skólanefndirnar, eins og víðar, og svæla undir sig völd. Ráðh. hefur því verið mjög grunnhygginn í þessu máli og meira að segja oft verið vitrari. Það er rétt að vera á verði, það hefur sýnt sig, hvert er markmiðið, og það er ekki heppilegt, að einn flokkur leggi undir sig stöðurnar. Fólkið, sem borgar skattana og með því heldur skólunum uppi, á að fá að ráða þessu, það á ekki að ræna skólunum frá þjóðinni með þvingunarlögum. Og það er víst, að skólanefndirnar geta ráðið betur en ráðh. — Fyrst ráðh. hefur stanzað á flóttanum, ætla ég ekki að tala lengur, en gefa ráðh. tækifæri til að bæta málstað sinn, ef hann þá getur það.