25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

30. mál, gagnfræðanám

Jónas Jónsson:

Ég varð ekki var við, að hv. 6. þm. Reykv. svaraði spurningu minni, hvort Reykjavíkurbær mundi fús fyrir sitt leyti til að byggja alla þá skóla, sem hér er gert ráð fyrir, í viðbót við það, sem nú er verið að byggja. Og ef ég má ónáða hv. borgarstjóra, þá langar mig líka til að spyrja hann, hvort hann hugsi sér að fullnægja þessum 1. með því að byggja yfir Ingimarsskólann. Vegna þeirra, sem ekki eru málunum kunnugir, þá vil ég benda á, að Reykjavík, sem er ríkasta bæjarfélag á landinu, hefur ekki séð sér fært að byggja yfir Ingimarsskólann. Það þýðir ekkert að tala við mann eins og hæstv. ráðh., sem hugsar bara um veitingu embætta og ber ekki skyn á þessa hluti. Ég undrast, að ráðh. skuli ekki hafa talað við Sigurð Guðmundsson og Bjarna á Laugarvatni og fengið þá til að fara í nefndina. Ég nefni þessa menn af því, að þeir hafa gert stóra hluti, en þá valdi ráðh. ekki. Um þessa menn, sem í n. voru skipaðir, er það að segja, að þeir eru að vísu góðir, en það liggur ekkert eftir þá í skólamálum. Og ef við athugum svo þessa nefnd, sem um þetta fjallar, þá er í henni aðeins einn fær maður. Í henni eru 2 kommúnistar, Sigfús Sigurhjartarson, sem nú langar óleyfilega til að vera við þessar umr., og Aðalbjörg Sigurðardóttir. Þessi frú hefur nú verið í öllum stjórnmálaflokkum landsins, en einna stytzt í kommúnistaflokknum. Og sýnir það bezt smekk ráðh., fyrst að skipa berserk úr kommúnistafl. og síðan Aðalbjörgu Sigurðardóttur, sem er fræg fyrir hringlandahátt sinn og algert getuleysi í þessum málum. Og ég ætla að benda ráðh. á, að hann getur fengið vitneskju um það, hvernig form. nefndarinnar er, prófessorinn við guðfræðideild háskólans, af fyrirlestri, sem hann hélt um Davíð konung. Vísindamennskan í hv. n. er í samræmi við þessa meðferð á Davíð konungi.

Hæstv. ráðh. segir, að hann hafi kvatt saman kennara, og margir fundir og nefndir hafi lýst blessun sinni yfir þessu máli. En ég tel það alls ekkert þakkarvert, þótt menn, sem hafa verið hækkaðir í launum úr 2 þús. kr. upp í 19 þús. kr., geri hæstv. ráðh. þann greiða að vera samþykkir þessu máli. Einn héraðsskólakennari sagði við mig, þegar við ræddum um þetta mál: „Ég verð ekki kennari eftir að búið er að hækka skólaskyldualdurinn eins og ráðgert er.“ Þetta var dómur manns, sem lengi hefur fengizt við kennslu og veit, hvað hann segir. — Þetta mál hefur ekki verið rætt af fólkinu, eins og átt hefði að vera, heldur eru teknir illa launaðir menn til að gutla við þetta í frístundum sínum og fá 10 þús. kr. fyrir vikið. Síðan eru kallaðir saman kennarar, sem fengið hafa tugþúsunda kr. launahækkun, og þeir látnir samþ. allt saman. Þetta sýnir, að það er ekki fólkið, sem óskar eftir þessu eða hefur rætt það og undirbúið, heldur er þetta knúið fram af aðilum, sem höfðu fjárhagslega aðstöðu til að hafa sitt fram. Mál eins og þetta hefði átt að ræða vel og rækilega af fólkinu, og án slíks undirbúnings er óhæfa að setja lög sem þessi. Enda mun hæstv. menntmrh. fá þá sorglegu reynslu, þegar til framkvæmda kemur, að þetta verða eingöngu pappírslög. Það mun fara svo, þegar á að fara að þrælka börnin nauðug allan þennan tíma, þá mun rísa upp margur Þóroddur, sem ekki vill hlýða þessum skammarlegu l.

Ég ætla að víkja að því aftur, sem ég gat um við umr. um fyrra málið, að í sveitum hefur því ekki verið fylgt fram, að börnin væru í skóla til 14 ára aldurs. Þess vegna er breytingin enn þá meiri þar. Afleiðingin af þessu fyrirkomulagi yrði sú, að um helmingur allra barna gæti krafizt þess að fá stúdentsmenntun. Það skal halda próf og segja við annan helming barnanna að því loknu: „Þið eigið að stúdera.“ Við hinn helminginn á að segja: „Þið skuluð vera dónar.“ — Það á að færa þá bölvun, sem legið hefur eins og mara á börnum hér í Reykjavík, yfir öll börn á landinu. Hér hafa börnin verið þrælkuð miskunnarlaust til að ná fína prófinu upp í Menntaskólann. Auðvitað geri ég ekki ráð fyrir, að neitt verði úr þessu, en heimskan, sem það er sprottið af, er hin sama fyrir því.

Allir unglingar, sem ekki nenna að vinna, geta á þennan hátt orðið stúdentar og þá fyllt flokk hæstv. menntmrh., enda mun sá vera tilgangurinn. Ef maður svo fer að athuga þessa óskiljanlegu þvælu, þá er allt í einum graut, miðskólar, gagnfræðaskólar o. s. frv. Allt saman ber þetta merki lítilla gáfna og enn þá minni reynslu. Nú er hér í bænum staddur skólameistarinn frá Akureyri og mun vera að fá fé til skólabyggingar. Ég vænti, að hann muni spyrja, til hvers það sé að setja á sig svo og svo marga unglinga og fá sér ekki fé til að gera það, sem gera þarf til að halda uppi viðkomandi skóla. Þá þykir mér fróðlegt að heyra, hvað borgarstjórinn hér í Reykjavík hefur að segja af sinni reynslu í skólamálum, og vænti ég, að hæstv. ráðh. hafi einnig gott af að heyra nokkuð þar um. Hér í Reykjavík situr í sama farinu með menntaskólann og fyrir 15 árum, þegar ég hafði með þessi mál að gera. Ég er sammála hv. þm. Barð. um það, að þeir, sem vilja framgang þessara mála, ættu að beita sér fyrir því, að öllum þessum frv. verði steypt í eina heild. En ég og þeir, sem hafa sömu skoðun, munu beita sér fyrir því, að þau fari öll í sömu gröf.