25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

30. mál, gagnfræðanám

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég vil taka það fram út af ræðu hv. 6. þm. Reykv., að það er sjálfsagt að taka til greina þær aths., sem hann hafði fram að færa, og reyna að komast að samkomulagi um einstök ágreiningsatriði. Viðvíkjandi ákvæðum 10. gr. frv., þá álít ég, að hér sé ekki um breyt. að ræða frá því, sem var. Það er einungis sú breyt., að í stað fræðsluráðs áður kemur nú skólanefnd, og er það beina áframhald fyrri ákvæða, í samræmi við þær breyt., sem verða á verksviði þessara nefnda. Hitt er svo annað mál, að ef hv. þm. er óánægður með þetta og vill ekki láta ríkisvaldið hafa svo mikið vald, þá má ræða um það. En ég held, að það sé ekki hægt að halda því fram, að hér sé um ákvæði að ræða, sem ekki er beint áframhald af þeim ákvæðum, sem nú eru í l. snertandi barnaskóla.

Það er nú alveg óþarft að svara frekar ræðum hv. þm. S.-Þ. Það voru held ég tvö atriði, sem hv. þm. hélt sig við í sinni ræðu, þ. e. a. s., sem beinlínis snertu þetta mál, og þó annað, sem ekki snerti þetta mál sérstaklega, heldur skólaskylduna, sem fjallað er um í frv. um skólakerfi og fræðsluskyldu, og það hefur nú verið sannað, að hv. þm. fór með alveg staðlausa stafi um bæði þessi atriði. Hitt atriðið var um héraðsskólana og afstöðu skólastjóra héraðsskólanna til þeirra breyt., sem gerðar verða á héraðsskólunum með þessum l. — Um fyrra atriðið er það að segja, að skólaskylda í sveitum breytist ekki með þessum l., nema að svo miklu leyti sem sveitarfélögin (skólanefnd) ákveða sjálf í samráði við fræðslumálastjórn, eins og frv. er nú. Allar þessar löngu ræður, sem hv. þm. hefur haldið um þennan voða og um allar þær ráðstafanir, sem þyrfti að gera til þess að taka börnin með valdi frá foreldrunum, og eyðileggingu á heimilislífinu og þar fram eftir götunum, eru því ekki annað en staðlausir stafir út í bláinn.

En að því er snertir hitt atriðið, afstöðu héraðsskólanna og afstöðu skólastjórnanna þar, þá hefur verið sannað á hann, að þar hefur hann einnig farið með staðlausa stafi. Skólastjórarnir hafa verið kallaðir á fund og hafa rætt frv. mjög ýtarlega, fundargerðir lesnar upp og samþ. af öllum, sem þar voru mættir. Þessi fundur skólastjóranna hefur einróma mælt með þessum frv. og skorar eindregið á Alþingi að samþ. þau. Á þessum skólastjórafundi voru mættir þessir menn: Benedikt Tómasson, Bjarni Bjarnason, Guðmundur Gíslason, Hermann Hjartarson, Ingimar Jónsson, Jóhann Jóhannsson, Oddur Sigurjónsson, Ragnheiður Jónsdóttir, Þorsteinn M. Jónsson, Þorsteinn Víglundsson, Þórarinn Þórarinsson, Þórir Steinþórsson, Þóroddur Guðmundsson, Hannibal Valdimarsson. (BBen: Fallegur er endirinn.) Já, það er fallegur hópur þetta. Þessir menn ræddu málið mjög ýtarlega og komu með fjölda brtt., sem allar voru ýtarlega ræddar og teknar til greina og athugaðar af n., að svo miklu leyti sem um þær varð samkomulag, og ég held, að flestar hafi verið teknar til greina. Allir þessir menn, sem hafa verið nefndir, voru sammála um að skora á Alþingi að samþ. þau frv., sem hér liggja fyrir, og þar á meðal þetta mál, sem hér er til umr.