16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég játa, að málið hefur ekki fengið langan undirbúning í menntmn. þessarar d., en það bætir úr, að við sátum á allmörgum fundum með menntmn. Nd., svo að nm. hafa kynnt sér málið vel. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem eru í nál. Ein brtt. fjallar um það að færa í fyrra horf atriði, sem var í frv.

Það hefur tíðkazt, að skólanefndir geri till. um, hvaða kennara eða skólastjóra skuli veittar lausar stöður, en síðan hefur kennslumálaráðh. veitt stöðuna. Í Nd, var þessu breytt þannig, að skólanefndunum er fengið í hendur meira vald. N. taldi rétt að færa þetta í fyrra horf, þar sem hér er um að ræða ríkisstofnanir, að mestu reknar fyrir ríkisfé og stofnkostnaður allur frá ríkinu. Hins vegar þótti n. rétt að heimila skólanefndum að ráða kennara um stundarsakir.

2. brtt. n. er einnig um að færa til fyrra horfs atriði, sem breytt var í Nd. varðandi stofnkostnað skólanna. N. þótti það óeðlilegt, að ákveðið skyldi, að skólarnir skuli verða eign sveitarfélaga, þar sem ríkið leggur mest fé fram til þeirra. Það virðist að öllu leyti eðlilegra, að skólarnir verði sameign þeirra aðila. — 3. brtt. n. er einnig varðandi þetta sama atriði, og skal ég ekki fjölyrða þar um, en okkur þótti rétt að færa þetta í fyrra horf.

Ég mun svo láta þessi orð nægja sem grg. fyrir þessum brtt., en vænti, að málið fái fljóta afgreiðslu í þessari hv. d.