17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég vil út af brtt. hv. þm. Dal. vitna í ummæli í nál. og fyrirvara minn um till, í þessa átt. Ég tel mér ekki fært annað en verða með þessari till. Ég hefði talið æskilegt, að sérstakar reglur yrðu settar um orlof kennara, og ég tel, að erfitt sé fyrir ráðh. að standa í því að ákveða þetta.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. S.-M. hélt fram, að afgreiðsla þessa máls sé óþingleg, þá get ég ekki fallizt á það. Það er venja að flýta málum í þinglok, og þetta mál er búið að vera lengi á döfinni og hefur verið vandlega athugað, eins og ég tók fram í gær um þau frv., sem þá voru til umr. Hins vegar skal ég játa, að þetta frv hefur hlotið minni athugun í n. en æskilegt hefði verið. — Þá vil ég taka það fram, að ég get ekki fylgt brtt. frá hv. 1. þm. S.-M., og ég tel, að það sé misskilningur hjá hv. þm., að með þessu frv. sé nokkuð breytt frá því, sem var. Ég hygg, að það séu héraðsskólarnir, sem hann og hv. þm. S.-Þ. hafa í huga, en þeir eru byggðir upp á allt annan hátt.