17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég skal ekki tefja lengi með þetta. Það er aðeins það, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði um undirbúning málsins. (IngP: Um meðferð málsins í þinginu. ) Ég vil einnig endurtaka það, sem ég sagði, að þetta er það, sem er ákaflega algengt. Þegar samvinnun. fjallar um mál, þá kemur vilji beggja n. fram í breyt., sem gerðar eru. Og er þetta alveg eðlilegt. Það er eðlilegt, að við höfum ekki eins ástæðu til að gagnrýna frv., þegar það kemur frá Nd. og hún er búin að fjalla um það. Og það að hraða málinu á síðustu stundu er algeng regla, ekki að vísu góð regla, en mjög algeng og því ekki óeðlileg, ef vitnað er í venjur. Hins vegar er ekki eins góð meðferð á málinu og skyldi, en ég tel það samt ekki svo hættulegt, að það stofni nokkru í voða.

Ég skal svo ræða það með nokkrum orðum, hvort mér finnst það heppilegra, að ríkið veiti þessi embætti eða skólanefndirnar. Ég ætla að svara báðum þessum hv. þm. í einu. Mér finnst þeir taki málið frá öðru sjónarmiði en ég. Hv. þm. Barð. sagði, að ég tæki þetta eins og „forretningu“, færi bara eftir peningunum og hver legði þá til. Það er nokkurt atriði. Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að skólarnir væru fyrir fólkið og það hefði mestan hag af því, hverjir veldust þangað, og því væri rétt, að fólkið réði því. Það, sem hér er um að ræða, er að tryggja það, að til skólanna veljist hinir beztu kennarar og stjórnendur. En þeirra verk er að „móta sálir barnanna“, eins og það var orðað hér áðan. Og það skiptir mestu máli fyrir fólkið, að kennararnir og skólastjórarnir vinni þetta verk vel. Ég tel þetta betur tryggt, ef fræðslumálastjórnin ein hefði valdið, fyrst á ábyrgð ráðh., sem svo síðan er ábyrgur fyrir Alþ. Í öðru lagi er fræðslumálastjórnin, sem náttúrlega er valin af betri endanum, færari og reyndari í þessum málum en dreifðar skólanefndir um allt land. Og það er a. m. k. einn kostur við það að fela fræðslumálastj. meira vald: Þá er þó samræmi í þessu um allt land. (IngP: Gegnir þá ekki sama máli um biskupinn líka?) Hvernig stendur á því, að fyrst skuli ekki vera sett launal. og síðan skuli öðrum aðilum, dreifðum um landið, falið að veita embættin, ef það er svo mikill gróði fyrir fólkið? T. d. er bæjarfógetinn á Akureyri skipaður af forseta og ráðh. Og hvers eiga menn að gjalda, að bæjarfógetar, sýslumenn, læknar og yfirleitt embættismenn skuli ekki vera skipaðir af fólkinu sjálfu og ekki af fulltrúum fólksins? Hið rétta í þessu er, að þeir eru einmitt skipaðir af hinum virkilegu fulltrúum fólksins. Hér virðist mér vera um grundvallarmisskilning að ræða. Það er eins og þessir hv. þm. álíti, að Alþ. og ríkisstj. séu engir fulltrúar fólksins og geti því skipað menn til bölvunar til að „móta sálir barnanna“. Alþ. felur ríkisstj. að gera þetta vegna þess, að þeir menn, sem í henni eru, eru ábyrgir, — menn, sem hægt er að halda að. Þeir eru kosnir um hverjar kosningar. En hinir þessir mörgu aðilar eru með ýmsu móti. Hv. þm. kom svo að prestskosningunum. Hv. þm. fann, að þarna var um eina undantekningu að ræða. Um tíma hefur það verið þannig, að gerð hefur verið tilraun til að láta söfnuðina fá íhlutunarrétt um val prestsins, ef söfnuðurinn er sammála. Þetta gildir aðeins, ef söfnuðurinn er mjög sammála, annars er ráðh., sem skipar prestinn, frjáls. Og ég vil segja hv. þm. það, að réði ég hér um, mundi ég taka þetta vald af á augnablikinu. Það hefur reynzt svo illa að mörgu leyti, að ekki er tími til þess að lýsa því. Presturinn, sem á öllum öðrum embættismönnum frekar að vera starfsmaður, þjónn og vinur allra í söfnuðinum, hann byrjar að ganga í gegnum harðvítuga kosningabaráttu með öllum þeim fjandskap og illindum, sem því fylgir. Þegar hann kemur svo í héraðið, hefur hann oft hálfan söfnuðinn upp á móti sér sem andstæðinga. Ég var einu sinni kosinn prestur, og var þá staddur í annarri heimsálfu. Og hvers varð ég fyrst var, þegar ég kom í prestakallið? Það var, að söfnuðurinn var svo klofinn í fjandsamlega parta, að það líktist engu, búið að stofna fríkirkju til þess að forða mönnum frá þessum voðamanni o. s. frv. Þetta er ákaflega notalegt eða hitt þó heldur. Og þetta var eina undantekningin, sem hv. þm. gat bent á. Ég hef borið fram frv. til að afnema þetta. Og ég hef barizt fyrir þessu á prestastefnum í mörg ár. Ég er sannfærður um, að það er miklu betra, að fulltrúar þjóðarinnar, sem hafa völdin, veiti embættin, eftir tillögu t. d. biskups í þessu tilfelli. — Ég ætla svo ekki að ræða meira um þetta. Ég vil leggja áherzlu á það, að með því að fræðslumálastjórnin hefur veitingarvaldið, þá vil ég telja það tryggara, að skólastjórar og kennarar séu betur valdir fyrir fólkið, því að ég treysti þeim aðila betur til að velja rétt. Að lokum vil ég segja það, að reynslan er sú, eftir því sem fræðslumálastjóri hefur sagt mér, að 80–90% af stöðunum er veitt eftir till. skólanefnda. Hitt er svo annað mál, að endanlega valdið liggur hjá ráðh. Ég veit svo ekki, hvaða ráðstöfun það er, sem ekki sætir gagnrýni. Og við því er ekkert að segja, þótt það sé gagnrýnt, sem aðili gerir samkv. sínu valdi. Og ég gæti hugsað mér, að skólanefnd, sem í sætu bræður og venzlamenn, væri ekki alveg hlutlaus, þegar veita á embætti. Ég held það sé fjarri því, að þetta vald skólanefnda tryggi það, að til skólanna fáist einmitt þeir stjórnendur og kennarar, sem eru fyrir fólkið. Ég veit, að till. hv. 1. þm. S.-M. er miðlunartill., en þó get ég ekki fylgt henni.