17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég skal ekki ræða um prestskosningalögin. Það liggur ekki fyrir. En ég vil leyfa mér að minnast aðeins á þau. Þar er ólag á, sem hv. þm. kann kannske betra ráð til að bæta úr en ég. Það er ákaflega langt frá hugsjóninni það fyrirkomulag, sem nú er. Ef hv. þm. finnst þetta rétt, þá er hann um það. En um það ætla ég ekki að ræða. Mér finnst það undarlegt, þegar verið er að segja, að þetta lagafrv. sé búið til, til þess að veita völdin í hendur núv. menntmrh. Mig skal því ekki furða, þótt þessi hv. þm. tali um lítinn undirbúning þessa máls. Frv. er samið af mþn., sem var skipuð áður en núv. ríkisstj. tók við. Og þessi n. starfaði svo algerlega óháð núv. menntmrh. Ekki einu atriði hefur verið breytt í þá átt að veita meira vald í hendur hæstv. ráðh. heldur en þessi hlutlausa n. lagði til. Ég verð að segja það, að ef á að finna að þessari mþn., þá er það helzt það, að í hana voru valdir óþarflega einhliða skólamenn. Í hana vantaði lögfræðing eða fulltrúa ríkisvaldsins almennt. En núv. hæstv. menntmrh., sem reyndar engin ástæða en til að vera að verja hér, er algerlega saklaus af þessu. N. var skipuð áður en nokkrum manni datt í hug, að hann eða hans flokkur fengi íhlutun um stjórn landsins. Undirbúningur mþn., sem starfar vel um langan tíma, hefur verið talinn sæmilegur undirbúningur mála, og svo starf í gegnum langan þingtíma. Undirbúningurinn er góður. En ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, ef svo stæði ekki á, að kosningar standa fyrir dyrum, að dregið væri að afgr. málið endanlega fyrr en á næsta þingi. En ég tel það óhyggilegt að láta svo stóran lagabálk liggja óafgr., af því að þessi átök eru framundan, og því skuli þingið afgr. málið nú. Svo ber að gæta þess, að á hverju þingi stendur það opið að breyta þessum l., ef þurfa þykir.

Það er mikils virði, að þessi mál geti verið í sem beztu lagi, og er það hagur fyrir ríkisvaldið og gæti hentað bezt, að skólamálin séu undir einni yfirstjórn líkt og læknamálin. Ég tel það tryggingu fyrir góðum starfskröftum, en ekki til þess að vera á móti fólkinu í héruðum landsins. Samt geta stundum orðið mistök, því verður ekki neitað. Hv. þm. sagði, að oft væri breytt um ríkisstjórnir, en það er þó ekki nema lýðræði, segi ég. Er það ekkert óeðlilegra í skólamálum en öðru, og vilji þjóðin fá radikal flokk, þá kýs hún svo. Þá kemur fram þjóðarlýðræðið, þótt einn flokkur sé í minni hluta nokkra stund. En ég játa, að einstaka skólanefndir gætu ráðið kennara betur en fræðslumálastjórnin, og þær gætu þá mælt með sérstökum mönnum. Sú er meginreglan.