24.04.1946
Neðri deild: 119. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

30. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Ég vil leiðrétta þá villu, sem slæðzt hefur inn í 61. gr., þar sem stendur „gagnfræðaráð“, en á að vera: fræðsluráð. — Ég mun ekki eyða tíma í að rökræða frekar þessi mál við þm. A.-Sk. Við höfum rætt þetta svo mikið áður, og geri ég ekki ráð fyrir, að okkur takist að sannfæra hvor annan frekar en verið hefur.

Varðandi eignir skólahúsa og það, sem þeim tilheyrir, þá er þarna um að ræða framlög bæði frá ríki og bæjar- eða sveitarfélögum, og er því eðlilegt og rétt, að báðir þessir aðilar eigi þetta. Varðandi óánægju um þetta atriði, sem þm. var að tala um, þá veit ég vart, hvað hann á við. Kennarafundurinn, sem athugaði þessi frv., áður en þau voru lögð fyrir þingið, gerði enga aths. við þessa gr.

Ég vil svo ekki tefja málið með því að hafa þetta lengra, en vænti, að d. samþ. frv. óbreytt eins og það nú liggur fyrir og meiri hl. menntmn. d. leggur til.