06.03.1946
Neðri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (3119)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég tel þetta frv. miður úr garði gert en hin skólafrv., sem nú hafa fram komið hér á Alþ. Ég get þó sagt, að ég tel flestar brtt. frá menntmn. d. til bóta.

Ég mun ekki gagnrýna frv. í heild á þessu stigi málsins, en vil þó drepa á þrjú atriði, sem ég óska sérstaklega að n. taki til athugunar milli 2. og 3. umr. — Eitt atriðið er um skipun skólan. Þessir skólar verða reknir af bæjar- eða sveitarfélögum, með styrk frá ríkissjóði. Það virðist því eðlilegt, að sveitarfélögin eða bæjarfélögin hafi að minnsta kosti meiri hluta í skólanefnd. Í þessu frv. er aðeins gert ráð fyrir, að sveitar- eða bæjarfélögin kjósi tvo menn af fimm. Ég tel því rétt, að þessu verði breytt og fylgt þeirri meginreglu, að sveitarstjórn kjósi meiri hluta í skólanefnd. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að 2 menn séu kosnir af kvenfélagasambandi hlutaðeigandi bæjar- eða sýslufélags. Það er alls ekki víst, að það sé starfandi kvenfélagasamband á þessu svæði, þótt þar séu kvenfélög. Mér virðist eðlilega, að slíkt samband eða félag, ef ekki er samband, kjósi einn fulltrúa í skólan., en sveitar- eða bæjarstjórn þriðja fulltrúa og að n. geti orðið fullskipuð, þótt ekki sé kvenfélagasamband starfandi.

Í 7. gr., þar sem ræðir um stofnkostnað íbúða, er ætlunin, að hann sé talinn með stofnkostnaði skólanna. Þetta finnst mér nokkuð víðtækt og væri alveg nýtt fyrirkomulag, ef ríkissjóður tæki að sér sem stofnkostnað við skóla íbúðir kennara og starfsfólks, að minnsta kosti við þá skóla, sem ekki eru heimavistarskólar. Þetta þarf því nánari athugunar við.

Þriðja atriðið, sem ég vildi benda á, er í 11. gr., þar sem rætt er um, að nemendur greiði húsaleigu. Ef húsmæðraskóli er heimangönguskóli, hvers vegna eiga nemendur í þeim frekar að greiða húsaleigu en í öðrum heimangönguskólum? Ég rak mig á þessi atriði við fljótan yfirlestur á frv., en það er eitthvað fleira, sem benda mætti á við nánari athugun.