06.03.1946
Neðri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Páll Þorsteinsson:

Eins og frsm. n. sagði, þá hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að brtt., sem lögð er fram á þskj. 502. Brtt. er á sama veg og brtt. á frv. um gagnfræðanám. Þegar það var til umr., gerði ég grein fyrir þessari afstöðu minni og sé því ekki ástæðu til að endurtaka það hér. Ég vil aðeins taka það fram, út af orðum, sem féllu hjá hv. frsm. um fyrri brtt., að að mínum dómi felst aðeins það í henni, að skólan. eigi að velja mann úr hópi umsækjenda í skólana. Skólan. eru eftir sem áður bundnar af þeim umsóknum, sem berast, og í frv. að öðru leyti, 13. gr., er gert ráð fyrir, að kennarar fái skipun fyrir embætti þegar þeir hafa starfað í 2 ár, en ekki fyrr, og þótt brtt. mín væri samþ., þá stendur það óhaggað eftir sem áður, að sá kennari, sem skólanefnd mundi velja úr hópi umsækjenda í upphafi, gæti fengið skipun fræðslumálastjórnar þegar hann hefði gegnt starfinu í 2 ár, eins og til er tekið í 13. gr. frv.