16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Páll Hermannsson:

Þótt þetta frv. sé búið að liggja fyrir Alþ., þá ber þessa umr. að fyrr en vænta mátti.

Ég hef ýmislegt við þetta frv. að athuga, en hef ekki komið því í verk að bera fram brtt. Það má vera, að þetta frv. sé vel athugað, en ég óttast þó, að svo sé ekki að öllu leyti, t. d. er skökk ívitnun í 8. gr. Annars er það einkum eitt atriði, sem ég tel athugavert, en það er ákvæði í 9. gr., um að tölu fastra kennara skuli miða við 12–16 nemendur. Þetta yrði í framkvæmdinni þannig, að í skóla með 30 nemendum yrði aðeins forstöðukonan og einn kennari. Ég veit, að það er dýrt að launa kennara fyrir færri nemendur, en vegna þess að í þessum skólum er mikið verklegt nám, er ekki hægt að koma því við, að sami kennari hafi mjög marga nemendur. Á húsmæðraskólanum á Hallormsstað hefur þetta verið þannig, að þar hafa verið tvær fastar kennslukonur auk forstöðukonunnar.

Þá þykir mér undarlegt ákvæði í 13. gr., um að kennurum við húsmæðraskóla skuli skylt að kenna 36 stundir á viku, en í gagnfræðaskólunum er ekki gert ráð fyrir nema 30 stunda kennslu, og kom fram till. um að lækka það niður í 27. — Í 16. gr. þykir mér vanta nauðsynlegar námsgreinar, svo sem leikfimi og söng. Þetta eru hvort tveggja hollar námsgreinar, ekki síður fyrir stúlkur en pilta. Ég þykist sjá, að aðallega er ætlazt til þess, að húsmæðraskólarnir séu eins vetrar skólar, og mun þá aðallega vera gert ráð fyrir verklegu námi. En þótt nú skólaskyldan sé hækkuð upp í 15 ára aldur, er ég hræddur um, að full þörf geti verið á bóklegri fræðslu til viðbótar, og ber þá að sama brunni og áður, að ýmsir munu telja, að ekki veiti af tveggja vetra skólum. — Þá virðist mér, að ekki sé betur séð fyrir rekstrarfé skólanna með þessu frv. en með l. frá 1938.

Þetta eru nú hugleiðingar, sem ég vildi láta koma fram til athugunar fyrir n.