17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Ég hefði viljað víkja að nokkuð líku atriði varðandi húsmæðraskólann á Hallormsstað og því, sem hv. þm. Dal. ræddi um. Ég sé, að í þessu frv. er vel gengið frá fyrirmælum um stofnun og samtök um rekstur þeirra húsmæðraskóla sem stofnaðir verða framvegis. Hitt hugsa ég, að sé miklu meira á huldu eftir þessu frv., hvernig eigi að fara með suma af þessum húsmæðraskólum, sem nú eru til. Hv. þm. benti á skólann á Staðarfelli. En ég vil í því sambandi nefna Hallormsstaðaskólann. Stofnendur hans teljast Búnaðarsamband Austurlands og Samband austfirzkra kvenfélaga. Það er engin sýsla talin stofnandi þessa skóla, og í raun og veru hafa sýslusjóðirnir tiltölulega lítið lagt til hans, þó að vísu ofurlítið í byrjun.

Nú er það, að þegar mál ganga með miklum hraða hér í þ., eins og mál ganga nú, þá átta menn sig síður á því, sem þarf að athuga, þegar l. eru samin. Þetta frv. er að vísu búið að liggja nógu lengi hér til sýnis fyrir hv. þm., en það vill oft verða svo, að það er fyrst farið að athuga eitt og annað, þegar n. hefur haft það til meðferðar og skilað áliti og jafnvel borið fram við frv. brtt. Og eins mun það vera um þetta frv., að sumir hv. þm. hafa fyrst farið að athuga það nú, þegar sýnt er, hvað n. leggur til. Helzt verður manni þá að leita upplýsinga hjá frsm., og vildi ég spyrja hann, hvernig hann lítur á þetta mál með Hallormsstaðaskóla, eins og ég sagði áðan, hefur engin sýsla stofnað hann og ekki styrkt hann nema að litlu leyti. Það má líka segja, að Múlasýslurnar noti hann mest og hafi líka rétt honum mesta hjálparhönd, það má vera, að kaupstaðirnir hafi eitthvað gert það líka. Hver verður nú eigandi skólans á Hallormsstað og tekur að sér að reka hann, og hvaða sýsla eða bæjarfélag eiga að velja stj. hans? Eru það Múlasýslurnar einar, eða eru það 3 sýslur, sem eru á búnaðarsambandssvæði Austurlands, sem eiga að standa að þessum skóla? Eða er það eitthvert bæjarfélag? Ég verð að segja það, að það er óljóst fyrir mér, hvernig þetta verður í framkvæmdinni. Mér virðist þetta geta orðið allt að því, að það verði Múlasýslurnar einar, eða þá, að það verði þær báðar og Austur-Skaftafellssýsla og bæði bæjarfélögin.

Þá vil ég benda á annað atriði, sem nú er komið inn í 5. gr., það er c-liður. Sá liður var, að ég ætla, settur í þetta frv. hér í gær við 2. umr. Það er sá þáttur í starfi skólan., sem ræðir um val kennara. Það hefur verið mikið deilt um þetta atriði í sambandi við önnur frv., og því hefur verið haldið fram, að í þeim frv. væri þetta eins og verið hefur. En því verður ekki haldið fram í sambandi við þetta frv., að það sé eins og það hefur verið, því að eftir l. um húsmæðrafræðslu frá 1938 valdi skólaráð forstöðukonu skólans og það svo í samráði við forstöðukonuna kennara. En hér er breyt., sem mér þykir því óeðlilegri sem ég tel, að ríkið leggi hlutfallslega minna til rekstrar þessara skóla en það lagði til skólanna samkv. l. um húsmæðraskólana, sem sett voru 1938. Hins vegar get ég sagt það, að mér finnst þetta ekki muna eins miklu og sumum öðrum, því að jafnvel þó að skólaráð réði nú úrslitum um þetta, þá er þó hitt svo, að ráðh. tilnefnir formann skólaráðs, svo sem sjálfsagt er.

Það var þá sérstaklega 9. gr., sem ég vildi minnast á, þar sem ákveðið er um framlög ríkisins til kennara húsmæðraskólanna. Sá skóli, sem ég þekki bezt, húsmæðraskólinn á Hallormsstað, hefur um 30 nemendur. Og eftir þessu frv. launar ríkið ekki nema, að því er mér skilst, forstöðukonu og einn kennara. Nú fullyrði ég, að það er ekki hægt að reka 30 kvenna skóla með forstöðukonu og einum kennara. Ég hugsa, að þó að kennaralaunin séu há, þá fáist ekki dugandi konur til að sinna því starfi, því að þær mundu líta þannig á málið, að kennslan yrði ekki nema kák.

Mér sýnist hins vegar, að frv. leggi of þungar kvaðir á héruðin í sambandi við rekstur þeirra skóla, meðan þeir eru ekki stærri. Það er á það að líta, að það er ekki hægt að hafa hlutfallslega kennslukrafta við 30 kvenna skóla eins og t. d. við 60 kvenna skóla. Það mun dálítið þægilegra að skipta verkum, þó að nemendur séu fleiri í hlutfalli við kennara, þannig að það séu hlutfallslega færri kennarar eftir því, sem nemendum fjölgar. Um Hallormsstaðaskólann er það líka að segja, að hann hefur verið tveggja ára skóli, og heimilað er í þessum l., að skólar megi vera tveggja ára skólar. Og ég veit, að þessi skóli lagði mjög mikið kapp á að fá þessa heimild, vegna þess að þeir, sem að honum standa, standa í þeirri trú, að konur fái miklu meiri og betri menntun með því að vera tvo vetur í skólanum. Og ég geri ráð fyrir því, að þar, sem skólar starfa í tveimur deildum, verði hægara að hafa betri kennslukrafta en þar, sem skólinn starfar aðeins í einni deild.

Ég hef hér fyrir framan mig rekstrarreikning húsmæðraskólans á Hallormsstað fyrir árið 1944. Heildarrekstur skólans það ár hefur numið um 67 þús. kr. og nákvæmlega helmingurinn af þeirri upphæð fer í laun kennslukvenna, eða 33500 kr. Þá voru við skólann forstöðukona, tveir fastir kennarar, eins og verið hefur frá byrjun, og auk þess aukakennarar. Þó töldu kennarar, — og ég held, að það hafi verið rétt, — að vinnan væri mikil. Og ég efast ekki um, að vinna þeirra hafi verið 36 stundir á viku, og ég hygg, að það hafi frekar verið nær 50 stundir á viku, sem kennslukonurnar urðu að vera við kennslu. Aðrir útgjaldaliðir skólans námu hálfu af heildarkostnaðinum, og voru þar langþyngstir á metunum tveir liðir, sem sé viðhaldið og upphitun. Ég hef hér líka hjá mér bréf, sem skólan. Hallormsstaðaskóla skrifaði á s. l. sumri atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu út af tilmælum ráðuneytisins um till. viðvíkjandi fjárframlagi til skólans fyrir árið 1946. Ég sé á því bréfi, að skólaráðið kemst að þeirri niðurstöðu, að líklegast sé, að rekstrarkostnaður skólans fyrir árið 1945 muni nema 110 þús. kr. Og svo kemur þessi mikla breyt., sem launal. valda, og er þar þó tekið tillit til þess, að launal. gildi ekki á árinu 1945 nema fyrir ¾ hluta ársins. Og ég geri ráð fyrir því, að þegar þau hafa tekið fullt gildi, þá verði rekstrarkostnaðurinn við þennan skóla a. m. k. 120 þús. kr. Ef ríkið launar tvo kennara, má gera ráð fyrir, að laun þeirra verði nálega 40 þús. kr., og er þeir hafa starfað í nokkur ár, annar eða báðir, verða laun þeirra dálítið hærri. — Nú mun ríkið samkv. þessu frv. ekki leggja fram meira en þetta, vegna þess að nemendafjöldi skólans er nákvæmlega í samræmi við það, sem ætlað er tveimur kennurum. Sé það hins vegar rétt, að útgjöldin öll muni nema um 120 þús. kr., koma 80 þús. kr. til skipta á milli ríkis og þeirra aðila, sem að skólanum standa. Og mig grunar, að þessi útgjöld fyrir t. d. sýslufélagið muni vægast sagt þykja þung. Það má náttúrlega segja, að það megi búast við einhverjum öðrum tekjum, t. d. skilst mér, að það eigi nú að taka húsaleigu af nemendum og gæti húsið verið leigt út fyrir greiðasölu eða þess háttar einhvern tíma á sumrin. Og reynsla síðari ára hefur verið sú, að tekjur af húsinu hafa orðið 6–8 þús. kr. að frádregnum beinum kostnaði. En ef tekið er tillit til þess, hve þessi notkun á húsinu eykur viðhaldið, verður þessi hagnaður nokkru minni og kannske enginn, þegar öll kurl koma til grafar. Með því að ég óttast, að þessi útgjöld muni reynast of þung, hef ég farið þá einu leið, sem ég hygg, að hægt sé að fara, og hef ég leyft mér að koma hér með skriflega brtt., sem bætir nokkuð úr þessu, ef hún yrði samþ. Hún er við 9. gr., að á eftir 1. málsgr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: Í heimavistarskólum, sem hafa færri nemendur en 36, og í skólum, er starfa í 2 ársdeildum, er þó heimilt að miða tölu fastra kennara við það, að 10–12 nemendur komi á hvern kennara. — Ég er sem sé með þessu að reyna að opna leiðina til þess, að hver skóli hafi möguleika til þess að hafa 2 kennara, sem ríkið launaði. Ég vil koma með þessa brtt. vegna þess, að ég álít, að fullkominn skóli komist aldrei af með minna. Leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.