17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Gísli Jónsson. Herra forseti. Ég neyðist til þess að reyna á þolinmæði hæstv. forseta út af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um óskylt mál. Hann er að verða nátttröll í stjórnmálunum. Hann hefur flutt hér harða deilu á mál, sem ekki snertir það, sem er hér til umr., ræðu, sem er eins langt fyrir utan mannlífið og hann er nú. Sannleikurinn er sá, að þetta er eitthvert allra merkasta málið, sem fram hefur komið á Alþ., og, eins og einn flokksbróðir hans sagði, skapar nýja og betri veröld. Ég held, að hann á gamals aldri ætti að ganga í skóla hjá þessum flokksbróður sínum. Ég hef haft tækifæri til að kynna mér þetta mál miklu meira en flestir hv. þm. hér og stend óbundinn af þeim samningum, sem við það voru. Ég mundi hvenær sem væri með augun opin rétta upp hendina með þeim ákvæðum án nokkurra samninga, af því að ég trúi því, að þetta sé farsælasta og bezta mál, sem nokkurn tíma hefur verið afgr. á Alþ. Það er ekki von, að staurblindir menn geti séð sólina, eins og kom fram hjá þessum hv. þm. Mig undrar, að maður, sem er jafnglöggur og vel gefinn, skuli verða svona blindur af ofstæki eins og kom fram út af þessu máli. Og ef hann fær einhvern tíma dóm, þá fær hann harðan dóm fyrir, hvernig hann hefur nú snúizt gegn þessu langmerkasta máli, sem hefur komið fram á Alþ.

Ég vil einnig benda honum á, sem hefur verið menntmrh., að það er langbezta útgerðin á Íslandi að geta menntað þjóðina. Það hefur sýnt sig á undanförnum áratugum, að þess vegna hefur íslenzka þjóðin komið fram málum sínum út á við, að hún hefur verið hlutfallslega betur menntuð en nokkur önnur þjóð í heiminum. Þess vegna er óhætt að fylgja menntamálafrv. Hitt er annað mál, að þar má deila um einstök atriði. Það þarf ekki að vera nein ásökun á gimstein, þó að þurfi að slípa hann, og það er einmitt verið að gera með menntamálafrv., slípa af þeim agnúana. En hann vill kannske það sama með þau og langmerkasta málið, grafa þau niður í skítinn. Þannig er hann að enda sína pólitísku braut á Íslandi.

Hann hélt því fram, að það væri samið um öll þessi mál fyrirfram. Ég hef orðið var við annað, sem er sorglegra. Langflest ummælin frá framsóknarmönnum um þessi mál hafa stafað af því, þegar þeir hafa mótmælt þeim, hvort þau væru í samningunum eða ekki. Hafi þau verið í stjórnarsamningunum, þá hefur verið sjálfsagt að ganga á móti þeim með oddi og egg, og fyrir það ættu þeir að blygðast sín, því að það sýnir meiri þrælslund en nokkuð annað að geta ekki viðurkennt nokkurt atriði eða neitt gott mál hjá andstæðingi.

Hv. þm. talaði með háði um þá nýríku. En ég held, að þeir nýríku menn á Íslandi hafi notað auðinn til að lyfta þjóðinni upp úr þeim skít, sem hún var í, síðan Framsfl. átti að stjórna landinu og gerði árum saman, og það eru engin sorgartíðindi, þó að einhver umbót verði þar á. Hann vill hafa gömlu aðferðina, sem dró niður í skítinn og gerir það að verkum, að hann getur ekki hugsað hærra en eins og það var hjá Framsfl., þar sem enginn gat hugsað rökrétt eða öðruvísi en eftir fyrirskipun. En menn, sem hafa staðið fyrir slíkum flokkum, verða að pólitískum nátttröllum í hinum nýja tíma, og það sýnir bezt ræða hv. þm. S.-Þ.