17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Jónas Jónsson:

Ég skil ekki í því, hvernig mín tiltölulega milda ræða um þá ágætu persónu, Bör Börson, gat sett hv. þm. Barð. í svo órólegt skap. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég hef mætur á Bör, sérstaklega þegar hann er settur í hærra ljós, eins og margir okkar nýríku menn eru, og í því ljósi hugsa ég hann lifi hér. Bör er merkileg persóna og hans tími er einkennilegt tímabil, en það þarf ekki að fara í hringabrynju, þó að um það sé talað. Ég skil ekki í því, að hv. þm. Barð., sem er svo mikill verzlunarmaður, skuli ekki vita, hvernig gekk með stjórnarsamninginn. Það liggur fyrir, að Alþfl. kúgaði tryggingarnar inn á Sjálfstfl. með því að segja: Ef hinir flokkarnir taka þetta mál eins og verið hefur, þá verður engin stjórnarsamvinna. Hv. þm. spriklaði í fyrra eins og lax í neti út af launamálunum, af því að þessi hv. þm. sá, að þetta var vitleysa. Það hefur kannske hjálpað honum, að það voru nógu margir stjórnarstuðningsmenn, þess vegna gat hv. þm. sýnt sína náttúrlegu eiginleika með því að finna að þessu. Ég get sagt honum, að einu sinni þegar þessir samningar stóðu yfir, þá sagði ég við einn af þeim, sem stóðu að þessum samningum : Eruð þið búnir að ganga inn í stjórnarsamvinnuna? Hann svaraði: „Við höfum skotið minkinn.“ Það var skemmtilegt, að Alþfl. skyldi fá aðstöðu til að heimta sitt, en þrír menn sátu hjá, og hefðu þrír menn greitt atkv. á móti, hefði hv. þm. Barð. setið hjá með engar tryggingar og þessir tugir milljóna hefðu lent á öðrum stað en annars. — En nú skulum við hugsa okkur, að það komi aftur fátæktin, sem ég veit, að hv. þm. Barð. hefur einhvern tíma séð á Bíldudal eða annars staðar, þegar borgarstjórinn í Reykjavík fór land úr landi með hið bezta mál og fékk ekkert lán, þrátt fyrir það að Framsfl. væri búinn að ganga inn á ríkisábyrgð. Svona var ástatt þá. Og ég get sagt hv. þm. það, að þegar borgarstjórinn kom heim, þá hefði verið hægt að halda ræðu eins og hv. þm. hefur nú gert. Það var hægt að lýsa því, hvernig hann hafði farið í góðri trú og haldið, að það þyrfti ekki nema Reykjavík. Það hefði verið hægt að níðast á honum. En þetta var ekki þessum manni að kenna, heldur kom það af því, að land okkar var fátækt. Þess vegna vil ég segja við hv. þm. Barð., að það þýðir ekki fyrir hann að vera með neinn snúð hér um þessa hluti, það væri hægt að benda honum á mörg slík dæmi. Ég var skammaður eins og frekast var hægt fyrir það að lögleiða hér lítinn gagnfræðaskóla fyrir 20 árum, en í þessum skóla eru nokkur hundruð unglingar nú. En nú er verið að bíða eftir atkvgr. um það að lögleiða, að helmingur af Reykjavíkurbörnunum verði tekinn í menntaskólann, og þetta er Bör Börson. Hann er í öllum flokkum, en það er ákaflega mikið af honum í kringum hv. þm. Barð., og þess vegna eru kommúnistar nú í svo léttu skapi.