13.12.1945
Efri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

139. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það verður víst ekki um það deilt, að ef þetta frv. á þskj. 310 verður að l., þá muni Ísland verða í fremstu röð um almannatryggingar. Segi ég þetta ekki til þess að harma það, síður en svo, og skal ég ekki fara frekar út í það.

Ég geri ráð fyrir, að það hafi farið fyrir ýmsum eins og mér, að þeir hafi ekki haft tíma til að kynna sér allan þennan lagabálk, sem ekki er útbýtt hér fyrr en 8. des., þegar komið er langt fram á þing, og því ekki þess að vænta, að við séum eins vel inni í þessu máli og hv. frsm., sem hefur þetta sumpart að lífsstarfi og hefur kynnt sér málið frá öllum hliðum. Við fljótlegan yfirlestur finnst mér þó, að eitt sé mjög athyglisvert í þessu máli. Mér finnst meginatriðið vera, að hér sé um tilfærslu að ræða frá einhverjum öðrum aðila. Á Íslandi hefur ríkt sú venja frá fyrstu tíð, að hér hefur enginn maður verið látinn líða, þó að fátækur væri. Annaðhvort hafa þessir menn verið teknir til framfærslu af því opinbera eða af skylduliði, sem kann að hafa kostað eins mikið fé og annars hefði farið í tryggingarkostnað þann, sem hér um ræðir, og þeir þá að sjálfsögðu lausir við þær skyldur, sem hvíla á framfærslukostnaðinum, sem hér er um að ræða. Mér finnst ekki liggja nógu skýrt fyrir, hve mikill hagur þetta væri fyrir sveitarsjóðina eða sparnaður fyrir fátækraframfærsluna, að þessi l. væru samþ. Ég hefði óskað, að eitthvað hefði legið fyrir nánar um þetta, áður en þetta frv. kæmi beint til afgreiðslu þessarar d., og í sambandi við það vildi ég mega benda á, hvort heilbr.- og félmn. teldi nú ekki ástæðu til að senda þetta frv. til umsagnar sveitarstjórna á landinu. Mér finnst, að hér séu töluverðar skyldur lagðar á sveitarfélög almennt og þau ein geti því sagt til um það, hvort þetta yrði þeim að einhverju leyti til sparnaðar, sem kæmi t. d. fram í lægri framfærslueyri, hvort þau fá eins mikið fé til baka og þau verða að greiða með gjöldum til tryggingarsjóðs með þessum l.

Ég býst ekki við, að frsm. ætlist til, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þ., þar sem það kemur ekki fram fyrr en svo seint. Ég tel einnig slæmt, að jafnstórt mál og þetta fái flausturslega afgreiðslu, og er þess vegna ágætt, að frv. er komið fram, svo að hægt sé að átta sig á því og unnt að fá upplýsingar frá sveitarstjórnum á landinu. Ég mundi telja það mikils virði, að umsagnir lægju fyrir um þessi atriði.

Mér finnst ég sakna þess, að ekki eru teknir. hér inn allir þegnar þjóðfélagsins og komið á atvinnulífeyri embættismanna, þannig að ríkið þurfi þá ekki á eftir að standa undir aukagjöldum embættismanna, eins og nú er gert. Má vera, að það sé gert hér, en ég hef ekki orðið þess var. Ég teldi það mikils virði og beina afleiðingu af því, sem hv. þm. sagði, að allir þegnar þjóðfélagsins ættu að koma undir þetta mál.

Í öðru lagi vildi ég benda á, hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta erfðal. Mér skilst, að það sé miklu minni þörf fyrir menn að tryggja sig, hvort heldur er með einstökum tryggingum, einkum með líftryggingum, eða auðsöfnun, sem mest stafar af því, að menn vilja ekki liggja á annarra manna framfærslu, og þá kemur það mjög til athugunar, hvort ekki beri að taka alla erfðafjárskatta, sem renna í ríkissjóð, inn í þennan sjóð og breyta þannig erfðal., að mikill hluti renni inn í þennan sjóð. Allt er þetta ekki annað en tilfærsla í þjóðfélaginu, og ef menn hafa trú á því, að þetta sé þjóðfélagsmál, sem á að byggja upp, ætti að athuga, hvort ekki megi tengja þessi mál saman.

Ég vil einnig gera þá fyrirspurn til hv. frsm., hvort hann teldi ekki, að þessi löggjöf, ef samþ. yrði, mundi gerbreyta launakjörum manna almennt í landinu. Mjög mikið af launakjörum manna er byggt á því, að þeir hafi ekki einasta viðunandi lífeyri meðan þeir vinna, heldur og þótt þeir séu sjúkir eða verði ellihrumir. En með því að hafa tryggingu fyrir sjúkradögum og tryggingu fyrir nokkrum tekjum í ellinni, held ég, að það gæti haft þau áhrif, að samræma mætti til lækkunar laun við aðra atvinnuvegi; bæði embættismanna og sjómanna, því að mér skilst, að hér sé um kjarabætur að ræða, og ég hygg, að þegar málið er þannig athugað, geti maður komizt að niðurstöðu um það, að sjálfur kostnaðurinn sé ekki eins ægilegur og lítur út fyrir við fyrstu sjón, vegna þess að það hefur ekki verið tekið eins til athugunar, hvað spara mætti á öðrum sviðum.

Ég vildi aðeins láta þessar aths. koma fram við 1. umr. og legg á það áherzlu, að þetta frv. sé sent til umsagnar öllum sveitarstjórnum á landinu, því að þær eru ekki litlir aðilar í þessu máli.