13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

139. mál, almannatryggingar

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég vildi mega þakka meiri hl. félmn. fyrir þá miklu vinnu og áhuga, sem hún hefur lagt í þetta frv. Mér er kunnugt um það, að þetta frv. hefur fengið meiri undirbúning bæði utan þings og innan en flest önnur mál, sem afgr. hafa verið hér á Alþ. bæði fyrr og síðar. Það fram gengur af sögu málsins, að það hafa verið settir af fyrrv. félmrh., Jóhanni Sæmundssyni, sérstakir menn til þess að athuga tryggingalöggjöf, og sá undirbúningur hafði farið fram að nokkru leyti áður en grundvöllur var lagður að núv. stjórnarmyndun. Þessum undirbúningi var svo haldið áfram og hefur raunar verið haldið áfram nú um nokkurt skeið. Og þegar núv. stjórn hafði tekið við völdum, voru þeir skipaðir til þess að halda áfram þessum undirbúningi, þeir Jóhann Sæmundsson og Jón Blöndal. Þeir hættu báðir við þau störf, sem þeir áttu að rækja daglega, og gáfu sig eingöngu að undirbúningi þessa máls. Síðan tók við mþn., sem hefur haft þetta mál með höndum í marga mánuði, og í henni áttu sæti fulltrúar frá öllum flokkum á Alþ., þ. á m. Framsfl. Og ég þarf ekki að rekja það fyrir þm. og nægir að vísa til þess, sem einstakir nm. í þessari mþn. taka fram á bls. 39 í grg. frv. þess, sem hér liggur fyrir, þar sem það er alveg fjarri því, að fulltrúi Framsfl. geri neina yfirlýsingu um, að mál þetta sé ekki nægilega undirbúið. Hann hefur aðeins tvo fyrirvara, annan með fulltrúa Sósfl., Hauk Þorleifssyni, þar sem hann telur, að æskilegt hefði verið að innheimta nokkurn hluta persónuiðgjalda sem hundraðsgjald af tekjum. En seinni fyrirvari hans er í því fólginn, að hann telur réttmætt, að atvinnurekendaiðgjöld falli niður eða verði a. m. k. stórlega lækkuð þegar svo stendur á, að börn og fósturbörn yfir 16 ára aldri vinna hjá foreldrum sínum. Aðra fyrirvara um afgreiðslu þessa máls hafði fulltrúi Framsfl. í milliþn. alls ekki, og fer því fjarri, að hann hafi látið nokkuð í ljós um það, að hann teldi þetta mál ekki nógu vel undirbúið. Enda er það svo, að eftir það að þessi mþn. lauk störfum sínum og félmrh. hafði falið 3 læknum, Guðmundi Thoroddsen, Magnúsi Ágústssyni héraðslækni og Snorra Hallgrímssyni, að athuga sérstaklega till. um heilsugæzlu, eftir það tók félmn. Ed. að nokkru leyti með félmn. Nd. við athugun þessa frv. — Ég fullyrði alveg óhikað, að þetta mál hafi fengið meiri undirbúning utan þinga og innan en venjulegt er um nokkur þingmál, enda er þetta eitthvert hið stærsta mál, sem lagt hefur verið fyrir Alþ. Það er þess vegna fjarri öllum sanni, þegar hv. þm. Str. telur, að mál þetta hafi ekki verið nægilega undirbúið. Það má vel vera, að enn sé ýmislegt í frv., sem betur mætti athuga, og kemur það þá í ljós, þegar farið er að praktisera lögin. En hins vegar er hér um svo stórt mál að ræða, að engin ástæða er til, með þeim undirbúningi, sem þegar er fenginn, að fresta framkvæmd þess. Ég er að öllu leyti sammála hv. 4. landsk. um það, að æskilegra hefði verið að auka heldur við hlunnindi þessa frv. frá því, sem það var lagt fyrir þ., heldur en að draga úr því. En hitt veit ég, að um þetta mál fer eins og um öll þau mál, sem njóta almenningshylli, að það verður bætt við tryggingarnar á næstunni frekar en dregið úr þeim. Og mér er ánægja að heyra yfirlýsingu frá hv. þm. Barð. um það, að það, sem sýndi sig, að þyrfti að laga, muni vera hægt að laga síðar. — Nú hefur áður verið stigið allstórt spor í þessum tryggingamálum, og það var með setningu alþýðutryggingal. frá 1937. Ég fullyrði, að þó að það mál að vísu væri allvel undirbúið, þá er þetta mál enn þá miklu betur undirbúið en frv. um alþýðutryggingar frá 1937, og þar að auki er það reist á sterkari grundvelli, þar sem að þessari löggjöf standa 3 stjórnmálaflokkar, sem hafa ólíkt sterkari aðstöðu á Alþ. en þeir flokkar tveir, sem settu alþýðutryggingalöggjöfina 1937, — að ég held, með eins atkv. meiri hl. á Alþ. Það eru þess vegna enn betri vonir, sem eru tengdar við framgang þessa frv. og enn meiri líkur til að þetta frv. nái skjótt almennri hylli þjóðarinnar en alþýðutryggingal., sem sett voru 1937.

Nú hefur verið lýst yfir því af hv. þm. Barð., að það hafi verið eftir kröfum Sjálfstfl., að dregið var úr framlögum ríkisins, sem nema mundi 4 millj. kr. frá því, sem upphaflega var ákveðið í frv., og þá einnig úr hlunnindum þeim, sem frv. er ætlað að veita. Það er þess vegna þýðingarlaust, ekki sízt þar sem búið er að lýsa yfir andstöðu Framsfl. gegn þessu frv., að Alþfl. sé með neina yfirboðstill. í þessu máli, eða aðrar en þær, sem samkomulag hefur fengizt um við Sjálfstfl. Ég get betur sætt mig við þá hlunnindarýrnun, sem gerð hefur verið á frv., þó að ég sé ekki ánægður með hana, eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hv. þm. Barð., sem ég veit, að gefur vonir um það, að frekar verði bætt við þau hlunnindi, sem ákveðin eru í þessum l., heldur en að úr þeim verði dregið.

Það væri að ýmsu leyti freistandi að fara að ræða einstök atriði, sem hv. þm. Str. drap á. En ég vil sleppa því, vegna þess að ég veit, að þessar viðbárur hafa verið ræddar í hv. félmn. og öllum hv. þdm. eru þau atriði vel kunn. Enn fremur er það ætlunin að reyna að ljúka þessari umr. og atkvgr. og koma málinu til 3. umr., ef unnt væri, í kvöld eða nótt, og skal ég þess vegna stytta mál mitt. En ég vil segja það við hv. þm. Str., að mér virðist þau rök, sem hann hefur fært fram gegn þessu frv., vera nákvæmlega sömu rökin og voru færð fram gegn frv. um alþýðutryggingarnar, sem sett voru 1937, af andstæðingum þess frv. í þá daga. Og mér er nær að halda, að hv. þm. Str. hafi lesið upp úr Alþt. frá þeim dögum, til þess að finna orðum sínum stað fyrir þeirri rökst. dagskrá, sem hann flytur nú í þessari hv. d. — Hv. þm. Str. gat þess, að atkv. sitt með eða móti frv. færi eftir því, hvort þessu frv. yrði breytt hér í grundvallaratriðum. Það má vera, að einhverjar breyt. verði enn gerðar á frv. En hitt get ég fullvissað hv. þm. Str. um, að því verður ekki breytt í grundvallaratriðum. Með setning l., sem byggjast á þessum grundvallaratriðum, verður gengið lengra en áður hefur verið gengið í því, að þjóðfélagið ræki skyldur sínar til þess að sjá sjúkum og hrumum og örkumla fólki fyrir framfærslu. Þessar skyldur hafa að vísu um tugi ára og lengur verið viðurkenndar í íslenzkri löggjöf. Og ég verð að segja það afturfararkipp hjá hv. þm. Str., að hann skuli harma það, að á velmegunartímum sé gengið lengra í þessu en áður hefur tíðkazt. Það er í rauninni eins konar sjónarmið ríka mannsins, sem verður því nízkari sem hann eignast meiri peninga, sem virðist ráða skoðun hv. þm. Str.

Það er algerlega ósatt hjá hv. þm. Str., að um þetta mál hafi verið samið á einni kvöldstund. Það hefur raunar tekið allan þingtímann að komast að samkomulagi um þetta mál. Ég var dálítið hissa að heyra yfirlýsingu hv. þm. Str. um það, að hann væri ekki enn þá búinn að ákveða, hvort hann væri með eða móti þessu frv. Því að vissulega byggir hann ekki rökst. dagskrána á því, að þetta frv. verði afgr. Hún hnígur að því að setja fótinn fyrir þetta frv., þannig að afstaða hans sýnist vera alveg mörkuð með hans rökst. dagskrá, ef hann yfir höfuð meinar nokkuð með henni.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég vil aðeins ítreka þakkir mínar til meiri hl. félmn. fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefur lagt í þetta frv., og vænti þess, að starf þessara manna verði þjóð okkar til góðs í framtíðinni.