13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég mun reyna að lengja ekki umræður, en leitast við að svara hv. 6. þm. Reykv. hvað viðkemur því, eins og hv. þm. sagði, að það væru skiptar reglur í framfærslul. og þessu frv. Nm. hafa orðið sammála um að reyna að skapa aðhald í þessum efnum í sveitunum, sökum þess að fjölgun manna, sem njóta trygginganna, verður mest í sveitunum og mun meiri en í kaupstöðum, þar sem tryggingar hafa verið fyrir, og er því rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að meiri hl. af útgjöldum varðandi tryggingarnar lendir á kaupstöðunum, og það er auðvitað vegna hærra skattaframtals. Hv. þm. sagði, að æskilegt væri að reikna dæmi til þess að átta menn á þessu. Ef heildarhækkun vegna trygginganna verður nokkru hærri en gert er ráð fyrir, þá má ekki byggja um of á þessum tölum, heldur er bezt að endurskoða þetta að fenginni reynslu.

Hvað við kemur barnsmeðlögum, þá treysti n. sér ekki til að gera þá breyt., sem hv. þm. lagði til og hélt fram. — Um 111. gr. frv. er erfitt að segja, hvað mikið fellur á sveitarfélögin samkv. þeirri gr., og sveitarfélögunum er nú tryggð aðstoð og ákvæði framfærslul. stórlega bætt. Og það er rétt að hafa öryggið í huga, og það er ekki svo lítið brot, sem af er létt sveitarfélögunum.

Um starfsmenn framfærslumála Reykjavíkurbæjar og starf þeirra er mér varla unnt að svara að svo stöddu, en mér finnst ekki nema sanngjarnt að mæta sanngjörnum óskum í þá átt, að þeir hafi möguleika á að ganga fyrir með atvinnu við Tryggingastofnunina. Frekar ætla ég ekki að svara þessum hv. þm.

Næst sný ég mér að meðnm. mínum, og ég vil þakka hv. þm. Barð. fyrir, að hann bætti úr fyrir það, sem vantaði í minni ræðu varðandi ýmis atriði. Og ég vil staðfesta ummæli hans um það, að það varð samkomulag um að mætast á miðri leið.

Hvað viðkemur ræðu hv. þm. Str., þar sem hann minntist á ákveðin mörk, þá eru þau þó alltaf, en stundum eru þau æði þröng: T. d. eru mörkin svo mjó milli Oslóar og Akker, að það fer eftir því, hvort maðurinn sefur í sínu rúmi eða konunnar, hvort hann er í Akker eða Oslo.

Við hv. 4. landsk. þm. vildi ég segja það eitt, í sambandi við það, sem hann sagði út af breyt. á ákvæði frv. um ekknalífeyri, að ég er honum sammála í þessu efni, en ég hef aðeins beygt mig fyrir þeirri nauðsyn að tryggja framgang frv., og þess vegna hef ég fallizt á, að sú breyt. yrði gerð, sem lagt er til í brtt. n. Hins vegar verð ég að segja það, úr því að minnzt er á afstöðu n., að mér virðist frá mínu sjónarmiði ekki frekar hægt að skera niður einhvern annan lið en þennan, og virðist mér till. hans um hækkun á öðrum liðum bera þess glöggt vitni, að hann hafi ekki talið auðvelt að lækka þar. — Hv. þm. Barð. tók það fram, að ef till. um hækkun á bótaupphæð, sem hann ber fram, yrði samþ., þá þyrfti að gera ráðstafanir til þess að afla fjár þar á móti. Hv. þm. hafði ekki rétt eftir mér ummæli, sem ég viðhafði í sambandi við upphæð, sem ég kalla grundvallarupphæð fyrir bótunum, 1200 kr. Ég sagði ekki, að með því væri gengið inn á það, að kjör þessa fólks ættu að vera rýrari en kjör þeirra, sem lægstar hafa tekjurnar, sem mér skildist hv. þm. meina. Hitt sagði ég, að það væri visst mark, sem af sjálfu sér væri sett í slíkar tryggingar sem þessar, og það er það, að það væri ekki fjárhagslega ákjósanlegra eða eftirsóknarverðara að vera styrkþegi en að vinna sjálfur fyrir sér. Og það er augljóst, að ef slíkt væri, þá væri ekki mögulegt að halda uppi neinum tryggingum, og yrði þá að fara aðra leið til þess að sjá fyrir þeim, sem trygginganna eiga að njóta. Um bótaupphæðina má alltaf deila, og skal ég ekki leggja út á þann hála ís, því að það verður að sjálfsögðu matsatriði á hverjum tíma, hverjir þar skuli helzt koma til greina. Þess vegna vildi ég gera grein fyrir því, sem þessar till. byggjast á hjá mþn., sem þetta verk vann. í fyrstu, og meiri hl. n. gat ekki komizt hjá að taka til greina. Hins vegar er okkur í meiri hl. það ljóst, að í þessu efni er ekki hægt að benda á eina upphæð og segja, að það sé sú rétta upphæð, og leggjum við því áherzlu á bráðabirgðaákvæðið, að framfærslukostnaður verði rannsakaður og þá þessi upphæð endurskoðuð að þeirri rannsókn lokinni. Meira treystir n. sér ekki til að segja, og enginn má halda, að með þessu sé verið að slá því föstu, að þessi upphæð sé sú eina rétta. Það er aðeins sagt, á hvaða forsendum eigi að byggja.

Ég vildi þá að lokum víkja með fáum orðum að minni hl. og þá sérstaklega að þeim röksemdum, sem hann bar fram fyrir því, að ekki bæri að samþ. frv. nú, heldur fresta því um óákveðinn tíma. Hv. þm. sagði réttilega, að það yrði óhjákvæmilegt að gera hliðstæðar ráðstafanir til að fyrirbyggja atvinnuleysi. Hv. þm. má vera það ljóst, ef hann les nál., sem fylgir frv., að áherzla er lögð á það, að jafnframt þessari löggjöf verði að gera ráðstafanir til að hindra atvinnuleysi.

Um ótta hv. þm. um, að tryggingarnar verði misnotaðar, þá skal það játað, að ef til atvinnuleysis kæmi, yrði þetta erfitt viðfangs: En því fer alls fjarri, að hér sé á reynslu að byggja, og verður að styðjast við fastar venjur og strangt eftirlit með því, að þetta verði ekki misnotað. Ég vil benda hv. þm. á, að hann hefur ekki lesið frv. og grg., sem því fylgir, sem skyldi, því að í sambandi við þau ákvæði, sem hann óttast mest, eru gerðar ráðstafanir til að fyrirbyggja, að nokkuð geti misfarizt.

Ein stærsta breyt. er sú, að eins og nú er, þá er heimilislæknum goldið að fullu, en samkv frv. er gert ráð fyrir að borga ¾ af slíkri læknishjálp, svo að hver einstaklingur þarf þá bara að borga ¼ hluta. Ég er að vísu heldur á móti þessu, en hef þó látið undan með það nú. — Þá sagði hv. þm., að n. hefði átt að athuga þetta nánar, og þá sérstaklega fjárhagsgrundvöllinn, en um þetta liggur fyrir nákvæm skýrsla yfir fjárhag þjóðarinnar síðastliðin 3 ár. Það skal viðurkennt, að þetta ár voru tekjurnar háar, en hafa ekki lækkað, og er ekki óeðlilegt að verja 12–14% af þjóðartekjunum, til þessara mála, og ef versnar í ári, er þeim mun brýnni nauðsyn að tryggja þetta meðan gott er í ári. — Ég hygg, að áætlunin sé svo vel undirbúin sem unnt er, en þó er ekki hægt að gera svo nákvæma skýrslu fram í tímann, að þar megi ekki sjá annmarka á. Og það má reikna með því, að það fjölgi frekar í hópi eldra fólksins, og veldur það auknum útgjöldum, svo að örðugt er að byggja þetta upp endanlega. Og eins má öllum vera ljóst, að ef drepsótt gengur yfir, þá raskar það.

Ég veit ekki, hvort ég á að ræða þann kafla ræðu hv. þm., þegar hann talaði um, að með þessu frv. væri verið að setja snöru um háls allra góðra sjálfstæðismanna, og vildi með því opna augu þeirra fyrir hættunni. Ég held, að hv. þm. vaxi þetta í augum og að hér sé allt opið fyrir og engin brögð í tafli. — Ég tel nauðsyn að koma á áætlunarbúskap, og það verður gert að einhverju leyti, en það, sem hér um ræðir, gerir það ekki óhjákvæmilegt, frv. um það liggur ekki hér fyrir. Hv. þm. hræðir mig ekki með spádómum sínum.

Þá kem ég að þungamiðjunni í ræðu hv. þm. og ástæðunni fyrir því, að hann lagðist gegn frv., en það er, að ef þetta yrði lögfest, þá væri lögfest svo mikið misræmi og rangsleitni innan þjóðfélagsins, að óviðunandi væri. Þeir, sem greiddu atkv. með þessu frv., mundu missa kjördæmi sín, og hann vildi ekki leggja sig í hættu. — Þá minntist hv. þm. einnig á, að í frv. væri gert ráð fyrir, að þeir, sem búa hjá lækni, fái dagpeninga, ef þeir eru veikir í 10 daga, en þeir, sem fjær búa, verði að bíða í 4 vikur eftir dagpeningum, en þó gildi það ekki, ef þeir fara á sjúkrahús, þá gilti hið sama. Ég hef nú áður gert grein fyrir, hvernig þetta er. Báðir hafa jafnan rétt til sjúkrabóta í 26 vikur, hvort sem þeir byrja fyrr eða seinna að fá dagpeninga. Til hvors tveggja hefur verið tekið tillit með iðgjaldagreiðslur, og til að afstýra þessari gífurlegu rangsleitni hefur hv. þm. mannað sig upp í það að leggjast gegn frv. og leggja til, að því verði vísað frá.

Hv. þm. Str. vill láta þau fyrirmæli, sem nú eru í l., haldast. Og hver eru svo þessi fyrirmæli? Lítum fyrst á ellilaunin. Þá geta þeir, sem búa í sveitum, fengið helminginn af 800 kr. á ári, á meðan þeir í Rvík fá helminginn af 100 kr. Þetta vill hann frekar en að þeir, sem í sveitum eru, fái fullar 900 kr. Hann vill heldur staðfesta, að þeir, sem í sveitum eru, fái 400 kr., meðan þeir í Rvík fá 600 kr., en að þeir í sveitunum fái 900 kr. og hafi lægri iðgjöld, á meðan þeir, sem búa í Rvík, fá 1200 kr. Hann vill heldur láta svo vera, að sjúkir menn í sveitum fái enga dagpeninga en þeir bíði í 4 vikur. Hann telur hag þeirra betur borgið, ef ekkjur þeirra fá engan lífeyri, ef menn þeirra falla frá. Þetta er undarlegt mat á réttu og röngu, og hef ég ekki fyrr rekizt á slíkt hjá reyndum dómara. Til að afstýra þessari rangsleitni, sem er að hans dómi, að menn í sveitum bíði 3 vikum lengur eftir dagpeningum, þá vill hann vinna til að láta þetta ósamræmi haldast. Ég held, að hv. þm. ætti að skoða hug sinn betur, og vildi ég óska, áður en frv. þetta verður afgr., að hann hafi breytt um hug, og tel, að hann hafi þegar hafið undirbúning undir, að svo mætti verða, og ber að fagna því.