13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

139. mál, almannatryggingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það hefur orðið hér nokkur ágreiningur út af því, sem kallað er ekkjubætur, en ég tel rétt að nefna mæðralaun. Hv. þm. Barð. hefur mælt á móti þessu og færði það fram sem rök, að það kæmi hart niður á þessum mæðrum, ef þær fengju þennan styrk og misstu hann svo þegar börnin næðu 16 ára aldri eða ef þau dæju. Að minni hyggju eru þetta miklu fremur rök með mínu máli en hans, þar sem þetta sýnir, að hv. þm. Barð. viðurkennir þörf þessara mæðra fyrir umrædd laun. — Þá færði hann það fram sem mótrök, að ef einstæðar mæður nytu slíks styrks, mundi það auka tölu óskilgetinna barna. Ég held, að þetta séu ekki veigamikil rök. Ég ætla, að fjárhagsástæður skipti ekki miklu máli í slíkum tilfellum. — Sömuleiðis taldi hv. þm. Barð., að þessi mæðralaun mundu valda atvinnuvegunum erfiðleikum, þar sem þessar mæður mundu ekki þurfa að stunda aðra atvinnu. Ég tel, að þetta sé á miklum misskilningi byggt. Hér er ekki um svo mikla upphæð að ræða, að komið geti til mála, að nokkur kona geti lifað eingöngu á því. Hæstv. félmrh. tjáði sig samþykkan þeirri hugsun, sem fælist í till. mínum, en af fjárhagsástæðum væri þetta ekki hægt, og eftir því sem hv. frsm, hefði upplýst, væri ekki unnt að spara á öðrum sviðum trygginganna. Um þetta voru skiptar skoðanir í n. Ég lét í ljós það álit, að ég vildi heldur fella niður fjölskyldubæturnar og fleiri leiðir gætu einnig komið til greina, sem ég taldi frekar færar en skera niður þessar ekkjubætur, þótt vitanlega hvergi sé gott af að taka.

Ég skal svo ekki eyða tímanum til að ræða einstök atriði eða brtt., en ég vil undirstrika það, senn ég sagði áðan, að enda þótt brtt. mínar nái ekki fram að ganga, mun ég standa að framgangi málsins í heild í því trausti, að síðar gefist tækifæri til að bæta það, sem nú er ófullkomið.