16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur nú haldið nokkra fundi í þessu máli eftir 2. umr. og komið sér saman um að flytja brtt. þær, sem hermir á þskj. 867. Þó skal fram tekið, að 7. brtt., um 10. gr., hefur meiri hl. n. ekki orðið sammála um, og flytur einn þeirra, hv. 4. landsk., sérstaka brtt. á þskj. 861 við gr. Að öðru leyti eru nm. fjórir sammála um að mæla með þeim breyt., sem á þskj. hermir, og mæla einnig með, að frv. verði samþ. með þeim breyt. Frá hv. minni hl. hafa komið brtt. á þskj. 842, sem ég mun geyma mér að víkja að þar til síðar.

Ég vil þá stuttlega gera grein fyrir brtt. meiri hl. n. á þskj 867. Eins og fram var tekið við 2. umr., lágu ýmsar brtt. fyrir um breyt. á I. kafla. En meiri hl. n. varð þó sammála um að bera eigi fram brtt. fyrr en við 3. umr. og sjá, hvort ná mætti samkomulagi um atriði, sem ágreiningur var um. Þessar till., sem hér um ræðir, eru árangur af því starfi.

1. brtt. er við 3. gr., og er lagt til, að 2. málsgr. falli niður. Sú gr. þarf ekki skýringar við. Við lítum svo á, að um þetta fari að sjálfsögðu eftir því, sem ákveðið er hverju sinni um verkaskiptingu milli ráðh. og samkv. forsetabréfi, sem hefur verið gefið út.

Við 5. gr. er gerð sú breyt., að bætt sé inn í við 1. málsl., að forstjóri Tryggingastofnunarinnar skuli starfa í samráði við formann tryggingaráðs.

Þá leggur n. til, að 6. gr. sé orðuð upp eins og segir á þskj., og er lagt til, að tryggingaráð, skipað 5 mönnum, skuli fara með þau störf, sem því eru falin með lögum þessum. í frv. er gert ráð fyrir, að tryggingaráð sé skipað 8 mönnum, og séu 4 þeirra kosnir af Alþ. með hlutfallskosningu, en 3 skipaðir af ráðherra. Hér er aftur á móti gert ráð fyrir 5 mönnum, sem allir skuli kosnir hlutfallskosningu af Sþ., en ráðh. tilnefnir svo formanninn. Þessu til viðbótar er svo skipuð sérstök n. sérfróðra manna, sem á að vera tryggingaráði til aðstoðar um læknisfræðileg atriði og skipuð með þeim hætti, sem í frv. er gert ráð fyrir. Meiri hl. n. taldi rétt að greina alveg þarna á milli, heilsugæzludeildar ráðsins og sérfróðra manna tryggingaráðs að öðru leyti. — Þá er í brtt. nokkur grg. um það, hver skuli vera verkefni þessarar n. sérfróðra manna. Eru það læknisfræðileg atriði, og eins og í till. segir, eiga þeir að vera tryggingaráði til aðstoðar og ráðuneytis um læknisfræðileg atriði og framkvæmd heilsugæzlu samkv. III. kafla. Þótti þetta ekki nægilega glöggt í frv., að þeir skyldu engin áhrif hafa á heilsugæzlu og fjárhagsmál stofnunarinnar, en með þessari aðgreiningu er ætlazt til, að þetta sé undirstrikað. Skipun sérfræðingan. er hin sama samkv. brtt. og samkv. frv., því að landlæknir er sjálfkjörinn og einn maður tilnefndur af læknafélögum sameiginlega og einn af læknadeild háskólans.

7. gr. er orðuð upp, eins og í till. hermir. Er þar ekki um verulegan efnismun að ræða, aðeins greint nánar, hver vera skuli verkefni tryggingaráðs, og er þar fram tekið, að tryggingaráð skuli jafnan leita álits sérfræðingan., áður en úrskurðað er um atriði, sem varða heilsugæzlu eða læknisfræðileg atriði, er áhrif hafa á bótagreiðslur.

Í 5. brtt. er lagt til, að ný gr. komi á eftir? gr., 8. gr., sem greini sérstaklega frá því, hver séu verkefni formanns tryggingaráðs umfram það að taka þátt í almennum störfum tryggingaráðs. Er hér gert ráð fyrir, að aðstaða formanns tryggingaráðs gagnvart tryggingaráði sé nokkuð svipuð og t. d. aðstaða stjórnarformanns gagnvart stjórn og framkvæmd hlutafélaga, sem sé að fylgjast með daglegri starfsemi stofnunarinnar og kynna sér alla afgreiðslu mála. Ef um er að ræða bótagreiðslur, sem ekki eru fastákveðnar, en inntar af hendi samkv. heimildarákvæðum, er skylt að leggja þau atriði fyrir formann tryggingaráðs. Þá á formaður einnig að vinna að undirbúningi fjárhagsáætlunar stofnunarinnar og öllum meiri háttar samningsgerðum. En eins og áður er sagt, á hann að leita þar aðstoðar sérfræðinganefndarinnar.

6. brtt. skýrir sig sjálf, er aðeins orðabreyt. Þá er 10. gr. Samkv. till. n. er gert ráð fyrir, að tryggingan., sem kjósa á eftir þessum l., skuli kosnar hlutbundinni kosningu að fullu. En samkv, frv. er gert ráð fyrir, að einn skipi félmrh. að fenginni till. Tryggingastofnunarinnar. Samkv. því, sem sagt er um verkefni n., er ætlazt til, að þær verði eins konar trúnaðarstofnanir fyrir héruðin og fólkið, sem þar býr, gagnvart Tryggingastofnuninni og gæti réttar þeirra manna, sem þar eiga að vinna. Ég skal játa, að með tilliti til þessa er eðlilegt, að n. séu skipaðar þann veg sem í brtt. hermir, þó að ég vilji ekki leyna því, að ég hefði talið betra, að form. n. hefði verið skipaður af ríkisstj., eins og er í frv., því að með því móti hefði verið auðvelt að byggja fyrir ósamræmi í störfum víðs vegar um land.

Hins vegar viðurkenni ég það sjónarmið, sem liggur á bak við brtt., og get fallizt á það. — 2. brtt. við þessa sömu gr. er á þá leið, að í stað þeirra fyrirmæla í gr. frv., að Tryggingastofnunin hafi skrifstofu í hverju umdæmi, er látið nægja, að við ákvörðun umdæma skuli höfð hliðsjón af skipun læknishéraða og lögsagnarumdæma og enn fremur, að Tryggingastofnunin hafi skrifstofur eða umboðsmenn á þeim stöðum, sem bezt henta og þörf krefur. Með þessu er ekki ráðið, hvernig umdæmum skuli hagað.

Brtt. 861 gerir ráð fyrir skipun n. með sama hætti og í frv. er gert ráð fyrir, þ. e. a. s. fjórir menn kosnir, en hinn fimmti skipaður af ráðh. En meginefni þeirrar brtt. er það, að ákveðið skuli í l., að þessar n. skuli starfrækja skrifstofur fyrir Tryggingastofnunina út um landið og fara með framkvæmd þeirra mála, sem Tryggingastofnunin hefur með höndum, hver í sínu héraði. En meiri hl. n. taldi það ekki samrýmast þeim störfum, sem n. að öðru leyti er ætlað, að þær færu að koma upp slíkum embættismannastofnunum, og hefur því ekki getað fallizt á þessa till., þó að hún sé með því, að slíkar nefndaskipanir séu gerðar eins og lagt er til í brtt. 861.

Þá er næst 8. brtt., að 11. gr. falli niður, en hún mælir svo fyrir, að tryggingaráð skuli boða, í samráði við ráðh., til fulltrúaþings eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Hef ég þá lokið við að gera grein fyrir brtt. við I. kafla l.

Næsta brtt. er svo við 40. gr., 9. brtt., og í sambandi við hana eru einnig 10.–11. brtt., við 42.–43. gr., og enn fremur 12. brtt. við 44. gr. Þessar 4 brtt. lúta allar að sama efni og mun ég segja nokkur orð um þær allar sameiginlega.

Við 2. umr. var mjög rætt um það, að mjög erfitt væri og óeðlilegt að greina svo á milli sem gert er ráð fyrir í frv. að því er snertir biðtíma þeirra, sem eiga heima í nálægð við læknissetur, og svo hinna, sem eru fjarri læknissetrinu. Í brtt. h. við 2. umr. var gert ráð fyrir, að mörkin yrðu dregin í 10 km. fjarlægð frá læknissetri, þannig að þeir, sem innan þeirra takmarka væru, hefðu skemmri biðtíma eða viku biðtíma, ef þeir væru veikir í 10 daga, en þeir, sem utan við þá línu væru, hefðu 4 vikna biðtíma. Ég tók þá greinilega fram, að eina ástæðan til þess, að þessi munur væri á gerður, væri sú, að nauðsynlegu aðhaldi af læknisins hálfu væri örðugt að beita þegar um væri að ræða fólk, sem ætti heima svo fjarri lækninum, að verulegur kostnaður væri að því að sækja hann. En að sjálfsögðu er nauðsynlegt í sambandi við sjúkraflutninga að hafa eftirlit með því, að um raunverulegan sjúkleika sé að ræða. Ég taldi þá, að örðugt mundi að gera sér hugmynd um það, hversu það mundi raska áætluðum kostnaði um sjúkradagpeninga, ef frá þessu yrði horfið. Nú hefur það orðið ofan á hjá meiri hl. n. að leggja til, að frá þessari skiptingu verði horfið og að biðtíminn verði látinn vera hinn sami um land allt án tillits til þess, hvort menn búa nálægt eða fjarri lækni. Þó er þetta mismunandi eftir því, hvort um atvinnurekendur eða launþega er að ræða. En það var okkar sjónarmið, að slíkt yrði ekki gert án þess að gera eitt af tvennu, lækka dagpeningana eða lengja biðtímann, og varð það úr hjá n. að fara báðar þessar leiðir, og var það gert út frá þeirri skoðun, að breyt. yrði minna tilfinnanleg á þann hátt. Gert er ráð fyrir, að sjúkradagpeningar lækki í 6 kr. á dag fyrir giftan mann, en í 5 kr. á dag fyrir ógiftan á fyrsta verðlagssvæði, — 5 kr. á dag fyrir gifta og 4 kr. fyrir ógifta á öðru verðlagssvæði. — Þetta er efni 9. brtt., við 40, gr., en að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að sú gr. haldist óbreytt.

Þá er brtt. við 42. gr. Samkv. frv. hafa launþegar 10 daga biðtíma, en fá sjúkradagpeninga frá og með 8. degi, ef þeir eru veikir lengur en 10 daga. Þessu leggur n. til, að verði breytt þannig, að þeir fái dagpeninga 3 dögum seinna en í frv. er gert ráð fyrir, eða eftir 11 veikindadaga, en biðtíminn verði 14 dagar. Frv. gerir ráð fyrir, að biðtími atvinnurekenda sé 4 vikur, þannig að þeir fái dagpeninga frá og með fimmtu viku. N. leggur til, að þessi biðtími verði lengdur um eina viku, þannig að biðtíminn verði frá og með sjöttu viku. Þó gildir sú aths., að tryggingaráði sé heimilt að stytta biðtíma atvinnurekenda, ef þeir liggja á sjúkrahúsi og atvinnurekstur þeirra stöðvast. — Þá hef ég skýrt brtt. við 42. gr. frv.

Brtt. við 43. gr. er afleiðing af þessari breyt. á biðtímanum og hið sama er að segja um 12. brtt. við 44. gr., að fyrir „vika er liðin“ komi : 10 dagar eru liðnir, — og b. 2. málsl. fellur niður er einnig afleiðing af henni.

Þá er 13. brtt. við 53. gr., sem lýtur að slysadagpeningum. Samkv. frv. eru slysadagpeningar hinir sömu og sjúkradagpeningar, eða kr. 7,50 á dag fyrir gifta, en kr. 5,00 á dag fyrir ógifta. Úr því að þessu var raskað þegar um sjúkdóma er að ræða, þótti n. ástæðulaust að gera þær breyt. á núgildandi ákvæðum um slysadagpeninga, sem frv. hefur gert ráð fyrir. En samkv. 'gildandi l. eru slysadagpeningar kr. 7,50 án tillits til þess, hvort um gifta menn eða ógifta er að ræða. Leggur því meiri hl. til, að þetta falli í sama horf og nú er í l., að slysadagpeningar verði jafnir, hvort sem um gifta eða ógifta karla er að ræða.

Þá er 14. brtt. við 78. gr., um skipun heilsugæzlu. Sú breyt. á skipun n. er aðeins til samræmis við þá breyt., sem gerð er á skipun n. samkv. 10. gr., og þarf ekki skýringar við.

Þá er 15.–16. brtt. við 94.–95. gr. Samkv. frv. er gert ráð fyrir 125 þús. kr. framlagi árlega úr tryggingasjóði til læknisvitjana- og sjúkraflutningasjóða. Um leið og fallið er frá mismunandi biðtíma, er ekki ástæða til að leggja kapp á, að sérsjóðir séu myndaðir. Er því lagt til, að þessi upphæð lækki um 25 þús. kr., en almenni sjóðurinn, sem um getur í 95. gr., hækki um sömu upphæð.

Þá er 17.–18. brtt. við 114.–116. gr. Við 2. umr. voru samþ. ýmsar brtt., sem hafa áhrif á fjárhagsafkomu Tryggingastofnunarinnar, — að því er talið er um 4 millj. kr. til lækkunar. Þá var sú lækkun öll færð á áætlað framlag ríkissjóðs, að það væri lækkað um 4 millj. kr. Ég gat þess þá, að það væri til athugunar hjá n. að skipta lækkuninni hlutfallslega á milli sveitarfélaga og ríkissjóðs, heldur en að allt væri fært á annan aðilann. Er hér því lagt til, að framlag sveitarfélaga lækki um ½ millj. kr., en framlag ríkissjóðs hækki að sama skapi.

Þá er 19. brtt. við 127. gr., sem lýtur að tryggingaskírteinum og afhending þeirra, og hygg ég óþarft að skýra það. Þó er um eitt nýmæli að ræða, sem felst í 2. málsgr. 19. brtt. við 127. gr. Þar segir svo: „Í fyrsta sinn, sem tryggingaskírteini er afhent, sbr. 2. mgr., skulu allir iðgjaldsgreiðendur, sbr. 105. gr., greiða sérstakt skírteinagjald, er nemi kr. 40,00 fyrir karla 21 árs og eldri og kr. 25,00 fyrir konur og karla innan 21 árs. Gjald þetta greiðist beint til Tryggingastofnunarinnar eða umboðsmanna hennar.“ Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir því, að tryggingaskírteini verði afhent í fyrsta skipti í haust, þó að menn greiði ekki til trygginganna fyrr en í janúar 1947, og nm. voru á einu máli um, að það væri óviðunandi, að menn kæmu með réttindaskírteini án þess að hafa greitt sem svaraði inntökugjaldi í venjulegt félag. Það varð því ofan á að leggja, til, að þessi háttur yrði á hafður. Þetta hefur enga fjárhagslega þýðingu, en samsvarar þó eins mánaðar iðgjaldi, og er sá þáttur í greiðslunum, sem hinir tryggðu vítalaust geta tryggt sér.

20. brtt., við 128. gr., skýrir sig sjálf: — Þá eru brtt. þær við 142. gr., sem teknar voru aftur við 2. umr. og lúta að gildistöku l. Breyt. frá því, sem gert var ráð fyrir við 2. umr., eru þær einar, að gert er ráð fyrir því, að kaflinn um greiðslu sjúkradagpeninga komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1947, eða hálfu ári seinna en aðrar bótagreiðslur. Sú till. er í samræmi við þær breyt., sem lúta að greiðslu sjúkradagpeninga. Þótti ekki af veita fyrir Tryggingastofnunina að fá þennan tímafrest til að undirbúa það skipulag, sem koma þarf á í sambandi við dagpeningagreiðslur o. s. frv. Aðrar brtt., sem lágu fyrir við 2. umr., þarf ekki að skýra.

Þá er 22. brtt., við ákvæði til bráðabirgða, a-liður, sem tekin var aftur við 2. umr., og ætla ég, að ég hafi skýrt hana þá. — Loks er svo nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem lýtur að kosningu tryggingaráðs, og er gert ráð fyrir, að kosning þess fari í fyrsta sinn fram áður en þessu Alþ. lýkur.

Önnur þau atriði, sem varða undirbúning og framkvæmd þessara l., hygg ég, að ekki þurfi að skýra frekar. Get ég því látið þessa framsögu nægja af minni hálfu, og mun ég ekki gera brtt. 842 að umtalsefni, að því er varðar sjúkrabætur, fyrr en ég heyri, hvernig tillögumenn taka undir þær brtt., sem meiri hl. n. hefur flutt. En varðandi brtt. við 107. gr., iðgjaldagreiðslur, vildi ég mega spyrjast fyrir um það, hvort hv. minni hl. hefur athugað, hvort það prósentugjald, einn af hundraði, sem gert er ráð fyrir, að hér verði lagt á, muni samsvara þeirri lækkun, sem gerð er á iðgjöldunum. Ég hygg, að það sé hæpið, að þess megi vænta. Annars vil ég vísa til þess, sem ég sagði um brtt. sama efnis, er borin var fram við 2. umr: Hygg ég, að þau ummæli, er ég þá viðhafði, eigi einnig við um þessa brtt.