23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

139. mál, almannatryggingar

Sigurður Thoroddsen:

Ekki er um það deilt, að þetta er eitt af þýðingarmestu málum, sem fyrir þinginu liggja. Með frv. eins og það var lagt fyrir, var gengið lengra í félagslegu öryggi landsmanna en áður hefur verið. Að vísu er langt frá því, að hér sé að ræða um fullkomið félagslegt öryggi, en þó var stigið stórt spor í rétta átt. Helzt mátti finna það að frv., að lífeyrir og bætur voru yfirleitt ætlaðar of lágar, og frv. náði ekki nema að mjög litlu leyti sem trygging gegn atvinnuleysi, þó að með atvinnustofnuninni væri vísir til atvinnuleysistrygginga.

Eins og kunnugt er, fóru heilbrigðisnefndir beggja deilda yfir frv. í sameiningu. Eftir fyrsta yfirlestur þeirra verður allverulegur ágreiningur. Okkur sósíalistum þótti lífeyririnn of lágur, iðgjaldagreiðslur sem nefskattur óheppilegar, ekki nógu vel séð fyrir einstæðum mæðrum. Og önnur atriði þóttu okkur varhugaverð. Það var ekki gengið út frá lífeyri til einstaklinga, sem hafa 1/5 af tekjum verkamanna. En með frv. voru þær tekjur áætlaðar of lágar, því að verkamaður með fimm manna fjölskyldu hefur ekki hærri tekjur en aðeins þurftarlaun, svo að sízt mátti skerða þar. Um einstæðar mæður er þess að geta, að fyrir þeim er ekki séð í frv., en þó heimilt fyrir tryggingarsjóð að hygla þeim eitthvað eftir að rannsókn á ástæðum þeirra hefur farið fram. Og það gefur að skilja, hvernig slíkt er framkvæmt.

Annað þótti okkur líka varhugavert, að með 10. gr., sem nú er 11. gr., var Tryggingastofnuninni gefið víðtækt vald til að stofna skrifstofur í kaupstöðum og ráða menn til að stjórna þeim. Hér er ekki gert ráð fyrir breyt. á yfirstjórn trygginganna. Og þegar litið er á starf hinnar flokkspólitísku Tryggingastofnunar í Reykjavík, er ekki von, að okkur þætti árennilegt að fylgja þessari brtt., þar sem er verið að gefa stjórnmálaflokki undir fótinn að setja upp flokkspólitískt „apparat“ með tryggingar að yfirvarpi. Þetta var afstaða okkar sósíalista við fyrsta yfirlestur frv. með heilbrigðisnefndum beggja d. sameiginlega. Alþfl.-menn vildu láta samþ. frv. mikið til óbreytt. Sjálfstæðismönnum þótti útgjöldin of há. En Framsfl. taldi málið ekki tímabært og vildi vísa því frá. Þar sem nú er vitað, að hér ræðir um mál, sem var á stefnuskrá stj., og innan hennar var ákveðið, að málið næði framgangi, hefði helzt mátt ætla, að stjórnarliðið settist á rökstóla og reyndi að leysa málið í sameiningu. Þessu var ekki til að dreifa. Það var setið á málinu í n. og ekki starfað að því um lengri tíma. Hins vegar er nú vitað, að þennan tíma sátu Alþfl.-menn og sjálfstæðismenn á rökstólum og sömdu um málið. Þriðja flokknum, okkur sósíalistum, var haldið utan við þessa samninga og vorum ekki látnir vita um gang málsins fyrr en samið hafði verið. Þá var okkur gefinn kostur á að kynnast samningnum og við máttum vera með. Var þá slíkur samningur til að bæta kjör þeirra, sem trygginganna eiga að njóta? Eða var hugsað til einstæðra mæðra? Eða var rýrð aðstaða Alþfl. til þess að setja upp pólitískt „flokksapparat“? Nei, ekkert af þessu var gert. Það kemur í ljós, að gengið er til móts við Sjálfstfl. um að lækka útgjöldin. Það er felld niður rúmlega 2 millj. króna atvinnustofnun, sem átti að verða vísir að atvinnutryggingum. Jarðarfararstyrkurinn er felldur niður, sem mundi nema um 0,6 millj. Lækkaður var stórlega lífeyrir til ekkna, sem mun nema 1,7 millj. Og einstæðum mæðrum er gleymt, eins og þær væru ekki til. En setja má upp skrifstofur og velja menn eftir eigin geðþótta. Þetta var árangurinn af starfsemi þessara tveggja stjórnmálaflokka, sem við máttum samþ. eftir á. Því hefur verið haldið fram, að við værum aðili að þessum samningi. En það er svo fjarri því, að við réðum þar engu. En þegar þessi samningur var lagður á borðið, gátum við fallizt á, að ef um nokkurn niðurskurð skyldi vera að ræða, skyldi hann þó helzt koma niður á framlaginu til atvinnustofnunarinnar, sem hvort sem er hefði að litlu haldi komið. Og því fremur sem séð var fyrir öryrkjum þeim, sem atvinnustofnunin átti að sjá fyrir. Jarðarfararstyrkinn gátum við eftir atvikum fellt okkur við að leggja niður, því að skipulagið við að koma mönnum í gröfina er nú í því ófremdarástandi, sem öllum er kunnugt. En það er það eina af þessu samkomulagi, sem samþ. er af okkar hálfu, enda bera till. þær, sem flokksbræður mínir fluttu í Ed., þess vott, að ekki er um samkomulag að ræða við hina flokkana. Brtt. mínar eru að mestu shlj. því, sem flutt var í Ed.

Ég get ekki látið hjá líða að benda á, hve óheppilega hefur tekizt til um þetta samkomulag milli þessara 2 flokka, að svo skyldi farið með þann lið, sem ég gat um áðan, til ekknanna. Sá liður átti að rétta hag þeirra, sem einna erfiðasta eiga aðstöðu, ekkna með börn á framfæri. Það er segin saga, að ekkja, sem þarf fyrir börnum að sjá, er bundin í báða skó og á erfitt með að afla sér viðurværis. Því að þótt frv. geri ráð fyrir framlagi til barnanna, er það engan veginn nóg þeim til framdráttar. En megnið af tíma móðurinnar hlýtur að fara í það að sjá um börnin. Auðvitað gegnir sama um einstæðar mæður, og hefði legið nær að auka við frv., svo að þær hefðu notið sömu kjara og ekkjur með börn á framfæri.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, hversu óheppileg væri meðferð Ed. á málinu, og að slíkt hefði strax vakið andúð. Ég benti á, að Alþ, hefði þegar borizt mótmæli frá ýmsum félagssamtökum, bæði hér í Reykjavík og frá mörgum konum af öllum stjórnmálaflokkum. Og nú áðan lét hæstv. forseti þess getið, að lögð væru bréf þessu viðvíkjandi fram í lestrarsal. En í n. virtist öllum, að mér einum undanteknum, réttast að halda frv. í því formi, sem Ed. setti það í. Hver eru þá rök þessara manna fyrir þessari lækkun og fyrir því að vera á móti hækkunartill., sem við sósíalistar flytjum? Eins og hv. frsm. drap á, munu þau útgjöld, sem verða í sambandi við framkvæmd þessara l., nema 72 millj. kr. Okkar till. til hækkunar munu hafa numið 8,8 millj. Með því að fella niður jarðarfararstyrkinn lækka útgjöldin um 2,8 millj. kr., og með því að fella niður eða lækka ekkjulífeyrinn lækkar þetta enn um 1,7 millj. kr. Nú segja þessir menn: Við höfum samið upp á það, að útgjöldin lækki um 4 millj. kr., og það fæst með þessum niðurskurði. Úr þessu er ekki að aka, um þetta hefur verið samið, a. m. k. er ekki úr því að aka, svo fremi að Tryggingastofnunin fái að hafa skrifstofur úti um landið. En hér er þó aðeins um áætlanir að ræða, — áætlanir, sem að sjálfsögðu eru gerðar eftir beztu vitund og beztu getu, en það er kunnugt, að áætlanir geta brugðizt til beggja vona, þær geta verið of háar og of lágar, og það er allajafna ekki sett út á það, þó að áætlanir séu of háar, því að það er góð venja að áætla varlega, þannig að útgjöldin verði heldur of hátt áætluð en of lágt. Ég þykist vita, að hér sé varlega áætlað, því að þeir menn, sem þessa áætlun hafa gert, hafa sjálfsagt haft rekstur Tryggingastofnunarinnar í huga og ekki teflt á tæpasta vað. Hækkunartill., sem við sósíalistar flytjum um 8,8 millj., er þá 13% af upphæðinni. En jafnvel þó að þeir einskorði sig við þessar 68 millj., finnst mér niðurskurðurinn á bótunum til ekknanna um 1,7 millj. vera það lítill hluti af heildarupphæðinni, að það sé ekki til þess að hengja hatt sinn á, og það er ofar mínum skilningi, að einmitt þessi liður skuli skorinn niður. Ég flyt hér brtt., sem er samhljóða brtt., sem flokksbróðir minn, Steingrímur Aðalsteinsson, flutti í Ed. Ég hef minnzt á þær flestar, óbeint a. m. k., þó á ég eftir að minnast á brtt. um iðgjaldagreiðslur, en mun ekki fara mörgum orðum um það. Við höfum gert ráð fyrir, í okkar till., að nefskatturinn lækkaði, en að tekna verði aflað með hundraðshlutaálagningu á tekjur manna. En atkv. verða að skera úr um þetta.