23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

139. mál, almannatryggingar

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég vildi út af orðum, sem féllu hér hjá hv. 11. landsk. þm. um samning, sem hefði farið fram í þessu máli, gefa þær upplýsingar, að það, sem hv. 11. landsk. sagði um þetta, er algerlega rangt og mun vera á ókunnugleika byggt. Þetta mál hefur fengið mestalla afgreiðslu sína í félmn. Ed. og raunar á sameiginlegum fundi félmn. beggja d. Og eftir að n. höfðu farið yfir frv. einu sinni, óskaði form. félmn. Ed. eftir því, að flokkarnir létu afstöðu sína í ljós til frv. Framsfl. gaf ekki nein svör um þetta, Sjálfstfl. sagði hins vegar, að það þyrfti að gera þær breyt. á frv. að lækka útgjöld ríkissjóðs í sem svaraði 7–8 millj. kr. En Sósfl. lýsti því yfir, að hann mundi bera fram nokkrar hækkunartillögur, en mundi fylgja frv., þótt þær yrðu felldar. Um fylgi Sjálfstfl. er kunnugt, að það byggðist á því, að dregið yrði úr útgjöldum trygginganna um 4 millj. kr. Þess vegna er það ekki rétt, að Sósfl. hafi ekki tekið þátt í samningum. Að vísu geri ég ráð fyrir, að hv. 11. landsk. sé þetta ekki fullkunnugt. En hæstv. forsrh., forseti efri deildar og formaður heilbr.- og félmn. sátu heila nótt og áttu viðræður um þetta, og mun hæstv. forsrh. geta borið um, að þetta er rétt. Mér finnst leiðinlegt fyrir hv. 11. landsk., sem annars er grandvar maður, að hann skuli hafa farið hér með þau ósannindi, að Alþfl. hafi samið við Sjálfstfl. um að lækka hlunnindi trygginganna með því móti, að Alþfl. fengi einræði um stjórn trygginganna. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. menntmrh. muni staðfesta það, að samið var um útgjaldakaflann áður en gengið var frá kaflanum um stjórn trygginganna. — Það er rétt, að Sósfl. lét þess jafnan getið, að hann mundi flytja brtt., en tók samt þátt í samningum.