23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

139. mál, almannatryggingar

Sigurður Thoroddsen:

Út af ummælum hæstv. dómsmrh. skal ég taka það fram, að þær heimildir, sem ég hef fyrir því, að Alþfl. og Sjálfstfl. hafi samið sín á milli um þetta mál, eru á þá leið að ég hef undanfarna daga setið á fundi, þar sem málið hefur verið til umr., og þar hefur fulltrúi Alþfl. iðulega sagt: Það er búið að semja um þetta. — Og þegar ég mótmælti því, sagði hv. 3. landsk., að hann hefði samið um þetta við hæstv. forsrh., sem síðan hefði átt að tala við hæstv. menntmrh. Enn fremur sagði hv. 4. þm. Reykv. á fundi í gær, að búið væri að semja um þetta, og tel ég, að með þessu sé hæstv. dómsmrh. svarað.