24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og vænta mátti, hafa nokkrar umr. orðið um þetta frv. síðan ég flutti framsöguræðuna um málið. Ég verð að minnast á nokkuð, sem fram hefur komið í umr., þó að þar verði stiklað á stóru, enda hafa í ræðum fleiri en eins hv. þm. komið fram aths. um sama atriðið. Og þó að ég minnist á þennan hv. þm. eða annan, þá er óbeint svarað því, sem aðrir hv. þm. kunna að hafa sagt í líka átt.

Ég vil þá fyrst víkja nokkuð að ræðu hv. 11. landsk. Um hana verð ég fyrst að segja það, að tiltölulega lítill tími af ræðu hans gekk til þess að ræða brtt., er hann flytur á þskj. 900. En verulegur hluti af ræðu hans var alls konar dylgjur og áróður í garð Alþfl., sem leitt hafa til nokkurra umr. innbyrðis milli þriggja hæstv. ráðh. En mér þykir rétt að koma strax að þessu atriði, af því líka það snertir þær brtt., sem fluttar eru af honum og hv. 2. þm. N. M. við 11. gr. frv.

Hv. 11. landsk, lagði hvað eftir annað orð að því, að Alþfl. hefði haft mestan áhuga á því að halda óbreyttum fyrsta kafla frv., sem hann taldi vera á þá leið, að einokuð væri stjórn almannatrygginganna, bæði höfuðstöð þeirra hér í Rvík og einnig staðir úti um landið, undir Alþýðuflokksmenn, sem þar störfuðu, og gaf í skyn, að Alþfl. hefði gert kaupsamning við Sjálfstfl. um að skera niður framlag úr ríkissjóði meðal annars til ekkna og munaðarleysingja til þess eins að geta haldið einokunaraðstöðu sinni yfir stjórn tryggingamálanna. Ljótt væri, ef satt væri. En það hefur þegar komið fram í umr. milli ráðh., að hér er um hreinar aðdróttanir að ræða. Fulltrúar Sósfl. hafa að því staðið að hinda svo fyrir endann á fjárframlögum ríkissjóðs til almannatrygginganna, að nauðsyn var að skera einhvers staðar niður af því, sem upprunalega var ákveðið í frv.

Það kom greinilega í ljós í umr. hinna þriggja hæstv. ráðh., að aðalumr. um lausn þessa máls höfðu fyrst farið fram milli Alþfl. og Sjálfstfl., og vil ég alls ekki neita, að svo hafi verið, þó að málið hafi verið rætt á sameiginlegum fundi félmn. beggja d., þar sem allir flokkar áttu fulltrúa mætta á fundi. En Sjálfstfl. setti það skilyrði, eins og upplýst hefur verið af hæstv. fjmrh., að dregið yrði úr fjárgreiðslum ríkissjóðs. Upphaflega krafan var um 7–8 millj. kr., en seinna sætzt á um 4 millj. kr. En það hefur verið hlutverk Alþfl. fyrr og síðar að berjast fyrir tryggingarmálunum á Íslandi og leita samninga við alla flokka til þess að koma tryggingarmálunum í gegn á Alþ., upphaflega við Framsfl. 1936, og voru það oft stífir og strangir samningar, og þurfti Alþfl. þá líka að slá af kröfum, sínum einmitt til þess að koma málinu í gegn. En það tókst samt sem áður árið 1936 að leggja grundvöll að þeirri merkilegu löggjöf, sem nú er verið að byggja ofan á með þessu frv. — Það er einkenni alls þingræðis, ef enginn einn flokkur hefur hreinan meiri hl. á löggjafarþingi þjóðarinnar, að semja verður á milli flokka, sem hafa talsvert ólíkar skoðanir, til þess að koma málefnum fram. Það getur enginn einn minni flokkanna öllu ráðið, heldur verður hann að taka tillit til hinna flokkanna, til þess að bjarga í gegn meginkjarna af sínum áhugamálum. Það var gert 1936, og það verður einnig gert nú 1946. Alþfl. hefur í bæði skiptin, 1936 og 1946, haft aðstöðu til að berjast fyrir nýjum tryggingarmálum og semja, í fyrra skiptið við Framsfl. og í síðara skiptið við Sjálfstfl. Afleiðingin hefur orðið sú, að Alþfl. hefur orðið að slá af því, sem hann frekast vildi vera láta. Þegar svo var komið málum, að sýnilegt þótti, að ekki væri hægt að fá Sjálfstfl. til þess að vinna að almannatryggingal. nema með því, að skorið yrði niður framlag úr ríkissjóði um 4 millj. kr. frá því, sem fyrst var farið fram á, þá var athugað, hvar væri minnst tilfinnanlegt að skera niður, og var þá fyrst borið niður á Atvinnustofnun ríkisins, næst var svo jarðarfararstyrkurinn, og loks var breytt um og dregið nokkuð, úr styrk til mæðra með börnum þeirra, þegar þetta hafði verið rætt ýtarlega, þannig að kunnugt var fulltrúum Sósfl., hvað fór á milli Alþfl. og Sjálfstfl. Og eftir því, sem ég bezt veit, og komið hefur fram í ræðum hinna þriggja ráðh., þá þótti Sósfl., alveg eins og Alþfl., slæmt að þurfa að skera niður það, sem upphaflega var áætlað af fjárframlögum úr ríkissjóði. En þeir sáu, að ekki mundi hægt að koma fram málinu nema með samvinnu við Sjálfstfl. Þeir munu hafa látið svo, að þeir gætu vel við þetta unað og tekið til athugunar, hvað hægt væri að skera niður. Hins vegar var, eins og hæstv. forsrh. lýsti yfir hér á Alþ. í gær, ekki hægt annað að skilja á framkomu Sósfl. en þeir byggjust við að koma með brtt. um niðurskurð á öðrum liðum frv., til þess að geta haldið óskertum styrknum til barnsmæðra.

Það varð samkomulag milli meiri hl. félmn. Ed. Alþ. um að takmarka það, sem áður var ótakmarkað í 118. gr. frv., um fjárframlög úr ríkissjóði til trygginganna. Upphaflega gr. hljóðaði þannig: „Ríkissjóður greiðir tryggingasjóði það, sem á vantar, að aðrar tekjur hans nægi til þess að inna af höndum árlegar greiðslur. Skal taka á hver fjárlög áætlunarupphæð í framangreindu skyni.“ Það var augljóst, að Sjálfstfl. vildi ekki við það una, að þessi endi væri óbundinn, að það væri óbundið, hve mikið fé væri veitt til trygginganna. Mþn., sem samdi frv., áætlaði, að fjárveiting ríkisins yrði 24 millj. kr. og fjárframlag sveitarfélaga 15,3 millj. Það varð niðurstaðan í Ed., með samhljóða till. fulltrúa Alþfl., Sjálfstfl. og Sósfl., að flytja brtt. um að binda fjárframlögin úr ríkissjóði eftir 118. gr. upphaflega við 7 millj. kr. eða 7½ millj., þegar lækka átti tillagið frá sveitarfélögunum um ½ millj. Sósfl. hafði staðið að þessu með Alþfl. og Sjálfstfl., að binda endann hvað snertir fjárframlög úr ríkissjóði við ákveðna upphæð, sem veitt væri á fjárl. Þetta hefur orðið að samkomulagi og þýðir ekki fyrir hv. 11. landsk. eða nokkurn annan að þræta fyrir það. Það liggja fyrir skjöl í þ., sem sanna það.

Þá kem ég að hinu atriðinu, og skildu nú leiðir Alþfl. og Sósfl. um, hvað skera skyldi niður til að ná því takmarki, sem sett var í till. þessara þriggja flokka. Og það hafði mátt búast við því, að leiðir gætu skilið á einn eða annan hátt. Sósfl. heldur sig að því að afnema Atvinnustofnun ríkisins og styrki til jarðarfara. En hins vegar skyldi Sósfl. koma með till. um annan niðurskurð, sem samsvaraði niðurskurði, sem Alþfl. vildi ganga inn á um niðurskurð til barnsmæðra. En hvað gerir Sósfl.? Hann heldur áfram, þegar búið er að „binda endann“ frá ríkissjóði, og kemur með stórkostlegar fjárhækkunartill. frá því, sem upphaflega var í frv., og færir þannig úr skorðum sjálfrátt eða ósjálfrátt það samkomulag, sem hann hafði gert við aðra flokka. Þegar búið var að ná samkomulagi um að binda fjárframlag ríkissjóðs við vissa upphæð, var ekki nema um eitt að gera, að koma sér saman um, hvað skera ætti niður frá því, sem upphaflega var í frv. Það er fjarri því, að Sósfl. hafi ekki staðið að þessu samkomulagi. Hann hefur gert það, þótt hann vilji nú ekki kannast við það vegna yfirboða, sem hann telur rétt að viðhafa hér í þinglokin.

Þá skal ég koma að till. hv. 11. landsk., sem eru ágæt sýnishorn um það, hvernig hann og hans flokkur fer með málefni. Eins og ég sagði áðan, var búið að gera samkomulag milli Alþfl., Sósfl. og Sjálfstfl. um að binda fjárveitinguna við 7½ millj. kr. eða skera niður um 4 millj. samanlagt frá ríkissjóði, bæjar- og sveitarfélögum, Nú verður að reikna með því, að sú áætlun, sem mþn. gerði, er útbjó frv., sé svo nálægt lagi sem auðið er að komast, enda tóku þátt í samningu frv. fulltrúar allra stjórnmálaflokka Alþ. Það verður að ganga út frá, að þessi áætlun sé svo trygg, að hægt sé að byggja á henni fjárhagsgrundvöll. En hvað gerir hv. 11. landsk. þegar flokkur hans er búinn að binda fjárveitinguna úr ríkissjóði? Hann flytur brtt., sem hafa í för með sér 10–12 millj. kr. útgjöld fyrir tryggingarnar, og einnig brtt. um tekjur til almannatrygginganna, sem nema því, að dregið sé úr tekjum þeirra um 3 millj. Svona eru aðfarirnar. Það er sem sagt um brtt. hv. 11. landsk. við 15. gr. frv. óhætt að segja, að þær hækka kostnaðinn um 7½ millj. kr., eftir áætlun, sem fyrir liggur frá mþn., og frásögn fróðra manna.

Síðan kemur barnalífeyririnn. Hann mun sennilega nema samtals, samkv. till. 11. landsk., 3–4 millj. kr. til hækkunar. Í 8. brtt. leggur svo hv. hm. til, að lækka skuli iðgjöldin stórkostlega, en tryggingarnar skuli í staðinn fá hundraðshluta af tekjum einstaklinga og félaga. Með vissu er ekki hægt að segja, hvernig þetta muni koma út, en það er nokkurn veginn víst, að það mun lækka persónuleg iðgjöld sem nemur 7 millj. Hitt er vafasamt, hvort hægt er að reikna, hvað fæst með hundraðshlutagjaldi einstaklinga og félaga, en það fer engan veginn upp úr 4 millj., og kemur þá í ljós 3 millj. kr. tekjurýrnun. Ég get sagt við hina góðu fulltrúa Sósfl., að það stæði ekki á Alþfl. að hafa lífeyrinn miklu hærri en frv. gerir ráð fyrir, ef Alþfl. og Sósfl. hefðu meiri hl. á Alþ., þ. e. a. s., ef Sósfl. fengist til að gera samkomulag við Alþfl., og hækka útgjöldin sem því næmi. En samtímis teldi a. m. k. Alþfl., að gera yrði ráðstafanir til að afla aukins fjár. Það þýðir ekki að segja, að tryggingarnar eigi að vera svona og svona háar, ef það er ekki tryggt, að fé sé fyrir hendi í almannatryggingunum til þess að inna þær greiðslur af höndum. En það stendur ekki á Alþfl. að hafa tryggingarnar sem fullkomnastar. En flokkur, sem bindur sig við veruleikann, verður að halda sig að því, hvað hægt er að fá mikið fé til trygginganna í upphafi. Og Alþfl. hefur þá trú, eins og hann hafði 1936, að það muni vera hægt að leiðrétta þá galla, sem upphaflega eru á þessum l. Það er ekki hægt að fá allt í einu með því að semja við flokk, sem ekki hefur sömu sjónarmið og Alþfl. En ég hygg, að veruleikinn minni ekki á brtt. hv. 11. landsk. Þær eru sem sé um 10–12 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir almannatryggingarnar og 3 millj. tekjurýrnun fyrir sömu tryggingar, án þess að gerð sé nokkur minnsta tilraun til þess, að fé sé fyrir hendi hjá almannatryggingunum til að inna þetta af höndum. Og þetta er gert með þá fortíð að hafa gert samkomulag um að takmarka fé úr ríkissjóði til almannatrygginganna. — Um það atriði, sem hv. 11. landsk. var að dylgja um, að við hefðum viljað fórna styrkjum til ekkna, barnsmæðra og munaðarleysingja til þess að geta haldið við flokkslegum yfirráðum Alþfl. yfir almannatryggingunum, vil ég lýsa yfir því, að það eru ósannar og það vísvitandi ósannar dylgjur. Það var samið milli flokkanna um II. og III. kafla almannatrygginganna, en það náðist ekki samkomulag um I. kaflann. Hitt er rétt, að það var ágreiningur milli Sjálfstfl. og Alþfl. og er milli Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl. og milli Sósfl. og Sjálfstfl. um, hvernig eigi að vera um hnútana búið með fyrsta kafla frv. Sá ágreiningur er ekki jafnaður enn. Við vonum, að hann verði jafnaður með eðlilegum hætti.

Ég verð að segja út af þessum tryggingan., að hugsunin með tryggingan. var að hafa fulltrúa frá umdæmunum eða sveitarfélögunum, til þess fyrst og fremst að gæta hagsmuna hinna tryggðu. Nú rekast kannske á að einhverju leyti hagsmunir hinna tryggðu og þess, sem tryggir, í þessu tilfelli Tryggingastofnunar ríkisins. Þess vegna var eðlilegt, að heimilað væri að hafa eins konar umboðsmenn fyrir Tryggingastofnunina úti um land, til þess að gæta hagsmuna stofnunarinnar og greiða fyrir innheimtu til stofnunarinnar og fleiru þess háttar. Þessi hugsun lá til grundvallar 11. gr. frv. Nú er það rétt, að hér hefur. hv. 2. þm. N.-M. flutt brtt. við frvgr., á þskj. 937. Mun ég geta að mörgu leyti hugsað mér, að hægt væri að ganga inn á þær breyt., enda mun hugmyndin, sem þar liggur til grundvallar, vera komin frá hv. 2. þm. Eyf., sem lagði til að hafa þessar tryggingan. blandaðar, þannig að í þær sé valið að sumu leyti af sveitarstjórnum héraðanna, en að hinu leytinu af Tryggingastofnuninni, með það fyrir augum, að hægt væri að láta tryggingan. gæta hvors tveggja, hagsmuna hinna tryggðu og Tryggingastofnunarinnar, og væri það vel við eigandi. En það er ekki ákveðið milli okkar fulltrúa og fulltrúa Sjálfstfl. í félmn., hvernig þessu yrði hagað á 11. gr. Hv. 2. þm. N.-M. hefur sagt, að hann væri reiðubúinn að taka aftur brtt. til 3. umr. Og ef ekki verður komið fram samkomulag um tilhögunina út af þessari gr. áður en þessari umr. er lokið, þá vildi ég óska, að hv. þm. stæði við tilboð sitt og tæki aftur brtt. til 3. umr. — Ég held ég þurfi ekki að eyða frekari orðum að ræðu hv. 11. landsk. En mér fannst óhjákvæmilegt að vísa til föðurhúsanna þeim miklu dylgjum og getsökum, sem hv. þm. bar á Alþfl., en eru tilefnis- og tilhæfulausar, og sýna fram á, hve þessar brtt. hv. 11. landsk. eru byggðar á miklum fjarstæðum, ef þær eru þá nokkuð hugsaðar, en það veit ég satt að segja ekki, hvort er.

Ég skal víkja með nokkrum orðum að brtt. hv. 2. þm. N.-M. og þeim ummælum, sem hann lét falla undir meðferð málsins. Þarf ég ekki að geta nánar um brtt. við 11. gr. Hv. þm. leggur til, að breytt sé um frá því í frv. að hafa tvö verðlagssvæði fyrir tryggingarnar: Ég fyrir mitt leyti, og ég hygg ég mæli það fyrir hönd meiri hl. félmn., get ekki gengið inn á þá breyt. Það er hægt að færa allmikil rök fyrir því, að það sé talsvert dýrari framfærsla í kaupstöðum allflestum en á öðrum stöðum á landinu. Mér er kunnugt um það, að í nýrri stórkostlegri félagsmálalöggjöf, sem Svíar hafa sett á hjá sér, er farið inn á þá leið að hafa svæðin þrjú. Grunnstyrkurinn er eins á öllum svæðunum, en staðaruppbótin mismunandi. Og það hefði verið hægt að fara inn á þá leið hér að hafa grunnstyrkinn þann sama, en mismunandi staðaruppbót, meiri eða minni með tilliti til þess, hvað hún þyrfti að vera til að skapa jafnrétti. Ég held ekki sé ástæða til að fara út á þá braut, sem hv. 2. þm. N.-M. leggur til, eða það sé eðlilegra og réttlátara að hafa verðlagssvæðið eitt í stað tveggja. Það er rétt hjá hv. þm., að launakjör opinberra starfsmanna eru jöfn hvar sem er á landinu, t. d. bæjarfógeta og sýslumanna. Hins vegar vitum við, að launakjör verkamanna eru talsvert mismunandi, t. d. í Rvík og Hafnarfirði annars vegar og kauptúnum og sveitum hins vegar. Og það á rætur sínar að rekja til þeirrar skoðunar, að hægt sé að komast af með minna á þessum svæðum en hinum. Það er ákaflega erfitt að ákveða, hvað tekjumismunurinn eigi að vera mikill, en það er samt áreiðanlegt, að framfærslukostnaðurinn er mismunandi mikill á hinum ýmsu stöðum á landinu. — Þá koma brtt., sem leiðir af því, að verðlagssvæðunum væri breytt, og fer ég ekki út í þær. — Því næst er 7. brtt., sem er við 42. gr. frv. Hefur hún orðið hér í umr. mikill ásteytingarsteinn. Hefur það einkum komið fram hjá framsóknarmönnum og að einhverju leyti hjá sósíalistum. Þetta er viðkomandi mismunandi sjúkrabótum. Einkum framsóknarmenn höfðu orð á því í umr., að stefnu þeirri, sem yfirlýst var; að fylgja ætti í frv. um almannatryggingar, væri ekki fylgt út í æsar, bæði hvað snertir sjúkra- og slysatryggingar og lífeyrisgreiðslur. Það, sem átt er við með almannatryggingum, sem nái jafnt til allra án tillits til búsetu og fjárhags, er lífeyrisgreiðslan, eins og hv. þm. A.-Sk. rifjaði upp, og las hann upp 15. gr. frv., sem um þetta fjallar. En eins og ég benti á í frumræðu minni, skapast millibilsástand um 5 ára skeið, þar sem menn njóta ekki jafns lífeyris, og er þá mismunað eftir fjárhagsafkomu manna. Það þótti ekki fært að taka stökkið allt í einu. En þegar 5 ár eru liðin, kemur reglan, sem liggur til grundvallar frv., til framkvæmda: Allir menn, fátækir og ríkir og hvar sem þeir búa og hvernig sem þeirra högum er háttað, eiga rétt til lífeyris þegar þeir hafa náð vissum aldri. Þessi regla kemur til framkvæmda eftir 5 ár.

Um sjúkratryggingarnar samkv. 42. gr. hafa nokkrir hv. þm. talað og álitið óréttlátt að láta biðtímann fyrir atvinnurekendur vera 5 vikur, en 11 daga fyrir launþega. Þetta væri óréttlátt, ef ekki væri gerð undantekning. En það er bæði gert í 42. og 43. gr. En hitt er jafnvíst og ég veit ekki til þess, að það sé gert nokkurn tíma að mismuna mönnum ekki eitthvað með biðtíma. T. d. þótt forstjóri hjá stóru fyrirtæki liggi í ½ mánuð eða 3 vikur, þá hefur það engin áhrif á fjárhag hans. Er því ástæðulaust að bæta honum það upp. En ef launþegi verður fyrir veikindum, hefur það strax áhrif á hans afkomu: Það er því rétt að mismuna þarna nokkuð. En reglan gæti verið of einstrengingsleg, ef engin undantekning væri gerð. Undantekningin er gerð í niðurlagi b-liðar 42. gr. Þar segir, með leyfi hæstv.. forseta: „Heimilt er tryggingaráði að ákveða að greiða bætur samkvæmt framansögðu frá og með 11. veikindadegi, ef hlutaðeigandi fer í sjúkrahús eða atvinnurekstur hans stöðvast.“ Þarna er undantekning gerð, svo að biðtími atvinnurekanda fer niður í það sama og hjá launþega, ef atvinnurekandinn fer á sjúkrahús og atvinnurekstur hans stöðvast. — Og það eru fleiri undantekningar til þess að koma í veg fyrir óréttlæti. Í 2. málsgr. 45. gr. segir svo: „Ef sannað er, að hinn veiki hafi orðið að taka mann í þjónustu sína vegna sjúkleikans; getur Tryggingastofnunin greitt honum bætur, þótt hann hafi eigi legið rúmfastur.“ Ef atvinnurekandi fer á sjúkrahús, fær hann sama biðtíma og launþegi. Ef atvinnureksturinn stöðvast, fær hann einnig það sama. Og þótt hann liggi ekki rúmfastur, en þurfi að taka mann í sína þjónustu, fær hann einnig sama biðtíma. Mér finnst satt að segja, að þarna sé búið að gera svo miklar undantekningar, að ekki sé hægt að tala lengur um óréttlæti í þessu sambandi. Ég hygg, að allt talið um óréttlæti sé ekki byggt á sterkum rökum.

Þá ætla ég að víkja að brtt. varðandi slysatryggingarnar, þótt hún sé frá öðrum flm. — Í frv., eins og það liggur fyrir breytt frá Ed., er gert ráð fyrir í 45. gr., að launþegar, sem taldir eru upp í 46. gr. og slasast við vinnu, eigi rétt til slysabóta samkv. því, er segir í 49. –58. gr., og vandamenn þeirra. Við skulum athuga, hvað liggur til grundvallar hugsuninni um slysatryggingar, frá því að fyrstu slysatryggingarnar voru settar hér á landi og alls staðar annars staðar. Við miðum þá fyrst við það, að atvinnurekandinn hafi hagnað af þeim mönnum, sem hann hefur í vinnu hjá sér, og hann geri það til að fá ágóða að hafa menn í þjónustu sinni. Og í hinu gamla latneska máltæki segir : Sá, sem hefur hagnaðinn, á líka að hafa áhættuna. Þetta er lagt til grundvallar slysatryggingunum. Það er atvinnurekandinn, sem hefur hagnaðinn af vinnu verkamannsins, og hann á líka að bera kostnaðinn af slysum, sem þeir verða fyrir í þjónustu hans. Slysatryggingarnar eru byggðar upp á þessari reglu. Þess vegna eru slysabætur eingöngu til þeirra manna, sem vinna hjá öðrum mönnum. Og iðgjöldin til þess að halda uppi slysabótum eru öll innt af höndum af atvinnurekendum. Ef fara ætti að jafna þetta út, þá er horfið inn á ný sjónarmið í tryggingamálum, sem ég veit ekki til að þekkist nokkurs staðar, hvorki hér á landi né annars staðar. Atvinnurekandinn ber uppi með iðgjöldum sínum allar greiðslur slysabóta til hinna slysatryggðu. Ef horfið væri frá þessu, er komið inn á nýjan grundvöll með slysatryggingar. Og það er einmitt bent á þetta í löggjöfinni sjálfri, bent á það, að atvinnurekendur geta slysatryggt sjálfa sig með frjálsum tryggingum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ég held þess vegna, að þetta yrði til þess að raska þeim eðlilega og réttmæta slysatryggingagrundvelli, sem alls staðar er viðurkenndur. Og eins og ég sagði áðan, atvinnurekendum er bent á leið til þess að slysatryggja sig með frjálsum tryggingum. Það má segja, að það sé hart að mismuna einstöku atvinnurekendum, sem hafa mjög litla atvinnu, eins og hv. 6. landsk. talaði um og kallaði trillukarla og smábændur, og venjulegum vinnumönnum eða launþegum. Má að vissu leyti segja, að það verði alltaf þannig, þegar búnir eru til fleiri en einn flokkur, að alltaf sé einhver sveimur á takmörkunum milli flokkanna, þar sem spurningin er, í hvaða flokki þessir eða hinir ættu að vera. En hitt rýfur alveg kerfið, sem byggt er á, og þyrfti þá að byggja upp nýtt kerfi. Hv. þm. V.-Húnv. hefur komið fram með brtt., sem gengur í þessa átt, að láta alla menn vera yfirleitt slysatryggða án tillits til þess, hvort þeir vinna hjá sjálfum sér eða öðrum. En ég hef sýnt fram á, að það fær ekki staðizt eftir þeim grundvelli, sem frv. þetta er byggt á. Hv. þm. V.-Húnv. vill meina, að allir þeir, sem slasast og vinna, eigi rétt til slysabóta samkv. 48. gr. Segjum, að þetta væri gert. Þá er gefið, að gera þyrfti meiri breyt. á frv. Eftir frv. er gert ráð fyrir, að atvinnurekandi greiði kr. 1,50 á viku fyrir hvern mann, sem hann hefur í sinni þjónustu. Það er iðgjald til þess að halda uppi bótum til hinna tryggðu. Ef þetta væri gegnumfært eins og hv. þm. leggur til, þarf hver maður, sem stundar vinnu, og atvinnurekendur sjálfir að borga fyrir sjálfa sig sérstakt iðgjald. En það hefur engin brtt. komið frá hv. þm. um þetta. Og það er óstætt á þessu, að láta þetta ná til allra, öðruvísi en gera um leið breyt. á því ákvæði frv., sem ræðir um iðgjöld til slysatrygginganna.

Ég held þá, að ég hafi drepið á höfuðatriði þeirra brtt., sem komið hafa fram hér nú frá nokkrum þm. En mér þykir þó rétt að geta þess til viðbótar, í sambandi við brtt., sem komið hafa fram frá 11. landsk. og 2. þm. N.-M., að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er byggt upp á tekjum, sem eru framlög hinna tryggðu, fjárframlög frá ríki, bæjarfélögum og atvinnurekendum. Þetta eru höfuðtekjustofnarnir. 4/7 hlutar af því, sem á að vera tekjulind trygginganna, er frá ríki og sveitarfélögum. Þessara tekna er aflað að verulegu leyti með beinum sköttum, sem jafnað er niður á menn í sveitarfélögunum eftir efnum og ástæðum, og frá ríkinu, m. a. með tekjuskatti. 4/7 af kostnaðinum eru þess vegna frá bæ og ríki og aflað á þann hátt, sem ég hef nefnt. 1/7 er frá atvinnurekendum, og þarf ekki að orðlengja um það, enda talað um það áður, og 2/7 hlutar eru byggðir á iðgjöldum einstaklinga. Eftir því, sem ég bezt veit alls staðar annars staðar, þar sem komið hefur verið á slysatryggingum, eru framlög einstaklinga ekki minni hluti en hér er farið fram á, hlutfallið ekki lakara fyrir einstaklinga, sem greiða til trygginga hér, en annars staðar þar, sem ég þekki til. — Ég skal ekki segja um útreikningana hjá hv. 2. þm. N.-M., hvort gera má sér vonir um, að iðgjöldin verði eins mikil og þar er gert ráð fyrir. Ég fyrir mitt leyti hef ekki verið andstæður því að fara inn á slíka leið. En það lítur bara út fyrir, að um það náist ekki samkomulag þeirra manna, sem annars vilja tryggja framgang þessa frv. Því að það er ekki nóg að fá samkomulag þeirra manna, sem vilja eyða málinu með sífelldum brtt., heldur þeirra manna, sem eru sammála um, að málið eigi fram að ganga á Alþ. Hér liggur t. d. fyrir till. um rökst. dagskrá frá hv. 2. þm. N.-M. í þeim eina tilgangi að eyða málinu. (PZ: Það er ekki eitt orð satt í þessu). Ég bið hv. þm. mikillega afsökunar, að ég skyldi ætla honum þetta skemmdarverk, því að þessi till. er komin frá 2. þm. S.-M. En ég vildi segja það, að þótt ég hefði persónulega vel getað hugsað mér að hliðra eitthvað til, t. d. að hækka hundraðsgjaldið, þá er ekki víst, að um það næðist samkomulag. En afstaða mín til brtt. markast m. a. af því, að engar þær breyt. verði gerðar á frv., sem stofna málinu í hættu.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði hér örfá orð og flutti í lok ræðu sinnar rökst. dagskrá á líkan hátt og hv. þm. Str. í Ed. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þau rök, sem hann færði fram fyrir afgreiðslu málsins á þá lund. En fyrir okkur, sem trúum á þennan málstað, eru þau skemmdarstarf, sem kemur fram í þessari rökstuddu dagskrártill. Það á að eyða málinu um stund, en ekki er að vita, hvenær hægt væri að taka það fyrir aftur. Þar að auki er í samningnum milli stjórnarflokkanna, sem stóðu að ríkisstj., gert ráð fyrir setningu slíkrar löggjafar, og Alþfl. heldur sig fast að þeim málefnasamningi og hefur enga ástæðu til að halda annað en hann verði haldinn.

Þá kom fram hjá hv. 2. þm. S-M. og hv. þm. A.-Sk., að mál þetta væri illa undirbúið. Hafði hv. þm. A.-Sk. þar um allmörg orð og gerði samanburð á þessu frv. og fræðslulöggjöfinni, sem hér liggur nú fyrir þinginu. Ég held nú, ef borið er saman fræðslulöggjöfin annars vegar og almannatryggingarnar hins vegar, að undirbúningurinn undir almannatryggingunum hafi sízt verið minni en undir fræðslulögjöfinni, og met ég þó mjög mikils verk þeirrar n., sem vann að undirbúningi þess frv. Hún vann vel að þeim málefnum og hefur komið með till., sem eru mjög mikils virði og bæta skólakerfið á Íslandi, og eru þau mál sumpart afgr. hér nú á Alþ. En fyrst og fremst eru almannatryggingarnar byggðar á þeim grundvelli, sem lagður var með alþýðutryggingal. 1936, en síðan hefur mþn. og sérfræðingar um geysilangan tíma unnið að undirbúningi þessa máls. Ég held því, að fá mál hafi fengið betri undirbúning á Alþ. en einmitt löggjöfin um almannatryggingar. Ég gæti t. d. minnt á frv., sem búið er að afgr. nú, frv. um landnám og nýbyggingar í sveitum, sem kom hér fram þegar mjög var áliðið þings, stórkostlegt nýmæli í íslenzkri löggjöf, sem mun nú orðið að l. Þetta mál var miklu minna undirbúið en frv. um almannatryggingar, og var það þó stórt mál, raunar ekki eins stórt og tryggingafrv. Ég held, að ekki hafi þá komið hljóð úr horni um lítinn undirbúning á því máli, og stafar það af því, að þessi þm., hv. þm. A.-Sk., sem telur sig fulltrúa bænda, hélt, að hér væri um hagsmuni þeirra að ræða. En þegar kemur annað mál, miklu betur undirbúið, kvartar hann um, að skorti undirbúning.

Ég held nú ég hafi þá svarað flestu af því, sem fram hefur komið og ég tel ástæðu til að minnast á. Ég vil að lokum draga það saman, sem ég hef nú hér látið koma fram í ræðu minni. Það er þá í fyrsta lagi þetta, að gerðir voru samningar milli allra stjórnarflokkanna um að takmarka fjárframlög úr ríkissjóði við ca. 20 millj. Innan þess ramma á að vinna að afgreiðslu málsins. Fulltrúar Sósfl. hafa farið út fyrir rammann, eftir að hafa smíðað hann með okkur. Alþfl. hefur haldið sig innan rammans. Margar af þeim brtt., sem fram hafa komið frá þm., eru þess eðlis, að þær eru sumpart til þess að stofna málinu í hættu og til þess að rjúfa þann heildargrundvöll, sem tryggingalöggjöfin er byggð á. Þessar till. á því að mínu viti að fella. Eftir er þá sérstaklega eitt viðkvæmt atriði, sem er sérstaklega viðkvæmt af hálfu Sósfl., en það er 11. gr. frv. Ég vil vænta þess, að um hana geti orðið samkomulag milli stjórnarflokkanna þriggja og jafnvel Framsfl, líka, því að brtt. hv. Þm. N.-M. bendir til þess, að hann vilji afgr. málið hvað snertir 11. gr. í samráði við okkur fulltrúa hinna flokkanna, sem áttu með honum sæti í n. Og ég vil segja, að hin rökst. dagskrá hv. 2. þm. S.-M. brýtur í bága við afstöðu hv. 2. þm. N.-M., sem skrifaði undir nál. með okkur og er því meðmæltur, að frv, nái fram að ganga, þó að hann vilji á því breyt., sem fáar standa þó til bóta. — Margt annað tel ég sízt, til bóta og sumt þess eðlis, að það gæti raskað því, að frv. næði fram að ganga. Ég held því, að málið liggi þannig fyrir í höfuðatriðum, að heppilegast væri að samþ. það óbreytt frá því, sem það kom frá Ed., hvað snertir útgjöld og tryggingaflokka. Það er a. m. k. um flokkana, sem nauðsynlegt er að framkvæma á þann hátt, að málið verði nú afgr. næstu daga. Að því er snertir 11. gr. verður enn ekki séð, hvort verður samið um breyt. á henni, sem ég fyrir mitt leyti þó vona, að verði. Annars verða atkv. um það úr því að skera, ef ekki næst nein samkomulagstrygging, sem stjórnarflokkarnir treysta sér til að halda. En höfuðáherzluna vil ég leggja á það, að engar þær breyt. má gera á frv., sem setja það í hættu. Það á að vera reglan, sem við eigum að fylgja hér, að við verðum að koma frv. í gegn. Hitt er annað mál, að Alþfl. hefði viljað hafa það talsvert í annarri mynd. En hann hefur orðið að gera samkomulag við aðra flokka, og við það samkomulag mun hann standa.