24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

139. mál, almannatryggingar

Sigríður Thoroddsen:

Herra forseti. Það er meiri úlfaþyturinn, sem orðið hefur út af þeim fáu orðum, sem ég sagði í gær um þessi mál. Hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir í gær, að það, sem ég hefði sagt í gær um þessi mál, væru rakalausar dylgjur, og nú hefur hv. 4. þm. Reykv. tekið þetta upp að nýju eftir þá útreið, sem dómsmrh. fékk hér í gær um þessi atriði. Kom vel fram af því, sem á milli fór í gær, að það, sem ég sagði í málinu, var alveg rétt. Ég rakti í gær, hvernig málið stóð, þegar heilbrmn. Ed. og Nd. lásu frv. yfir sameiginlega. Ég sagði, að þá hefði Alþfl. viljað láta samþ. frv. óbreytt, við hefðum verið með till. til hækkunar, m. a. 25%, Framsfl. hefði ekki talið málið tímabært, viljað vísa því frá, og Sjálfstfl. talið útgjöldin of há. Ég sagði, að síðan hefði verið lagzt á málið í n., ekki verið starfað í n., en síðan komið á daginn, að Alþfl. og Sjálfstfl. hefðu gert samkomulag. Þetta kom allt fram í umr. ráðh. í gær, að það var rétt, sem ég hélt fram.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ég hefði hvað eftir annað látið hníga að því, að fyrir Alpfl. vekti fyrst og fremst það að berjast fyrir einokunaraðstöðu sinni í tryggingabákninu eða tryggingaskrifstofubákni Tryggingastofnunarinnar. Ég sagði þetta aldrei beint, en dómsmrh. hæstv. var ekki lengi að finna út, að þetta gæti falizt í orðum mínum, og það er undarlegt, hvað þessir menn, ráðherra og hv. 4. þm. Reykv., hafa tekið sér þetta nærri. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vísa til yfirlýsingar hæstv. forsrh. Annað veifið sagðist hv. 4. þm. Reykv. ekki vilja neita því, að samningar hafi farið fram með Sjálfstfl. og Alþfl., enda ekki hægt, eftir því sem fram er komið. Hann sagði, að það hefði verið hlutverk Alþfl. fyrr og nú að semja til beggja handa, eins og hann komst að orði, til þess að tryggja það, að löggjöf um almannatryggingar kæmist á. Þetta er rétt. Þeir hafa víst samið 1936 við Framsfl., rétt eftir að þeir höfðu samið við Sjálfstfl. á bak við Sósfl. Það sýndi sig 1936, að þá fengu þeir starfsliðið hér við Tryggingastofnunina, sem mun vera það einlitasta, sem nokkurn tíma hefur starfað hér á landi. Og nú ætla þeir sér að fá flokksapparat, sem nær yfir allt landið. Hvað úr því verður, veit ég ekki. Hann sagði, að í þessum samningum væri það eins og gengur og gerist, að þá vildi hann slá af, til þess að bjarga kjarna megináhugamáls flokksins. Það er rétt. Hann hefur slegið af til þess að bjarga þessum meginkjarna, og ég vil þess vegna minna hann á í sambandi við 11. gr., að hann vill nú ekki lengur svo vera láta, að samið hafi verið um hana, en það kvað við annan tón á nefndarfundi hér um daginn, er hann sagði, að það væri samið um þessa grein. Hann minntist ekkert á þetta atriði.

Þá var honum mikið í mun að bendla okkur við það að hafa bundið framlög ríkissjóðs við ákveðnar upphæðir. Ég hef átt tal bæði við menntmrh. og eins við nm. okkar í heilbrmn. Ed., og þeir vildu ekki kannast við þetta, enda þekki ég þá menn illa, ef þeir færu að semja um að binda útgjöldin við vissar upphæðir. Nei, það má ekki ætla okkur þá asna, að við höfum gengið inn á það að binda það niður og flytja svo till., sem fara langt fram yfir, eins og ég gátum í ræðu minni í gær. — Það var ekki rétt hjá hv. þm., að ég hafi ekki minnzt á mínar brtt. Ég gerði alveg grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi bara segja það, að mér finnst, að yfirlýsing dómsmrh. og það yfirleitt, sem hann sagði í gær, og eins það, sem hv. þm. hefur sagt, — mér finnst þessar umr. hafi sannað það, sem ég sagði yfirleitt um gang málsins, að það vakti fyrir Alþfl. að skapa sér þarna flokksapparat. Þetta eru ekki neinar venjulegar dylgjur. Ég skal svo ekki hafa þetta lengra.