24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

139. mál, almannatryggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það virðist hafa komið illa við taugarnar í hv. 4. þm. Reykv., þegar minnzt var á samninga hér. Ég held, að hv. 4. þm. Reykv. ætti ekki að vera með þennan vandlætingartón. Það kom greinilega fram í lok ræðu þessa hv. þm., að Alþfl. hefur gert samkomulag við Sjálfstfl. að Sósfl. forspurðum. En síðar var þetta svo lagt fyrir Sósfl. — Það er hreinn þvættingur, að sósíalistar hafi bundið enda á þetta mál. Það var Alþfl., sem fyrir klaufaskap, ef honum hefur þá verið það nokkurt áhugamál að halda ekknabótunum, sem batt enda á málið með leynimakki sínu við Sjálfstfl. og án þess að gera tilraun til þess að fá málið leyst á annan hátt, með aðstoð sósíalista. Alþfl. má því sjálfum sér um kenna. Þessu getur 4. þm. Reykv. ekki mótmælt. Og fyrir þessa eftirgjöf hefur svo Alþfl. fengið réttindi bæjar- og sveitarfélaga til að kjósa sína eigin fulltrúa í sambandi við tryggingarnar og á að fá það á sitt vald að skipa sína eigin gæðinga í þær stöður. Þetta er lýðræðisbarátta Alþfl. Af þessu má sjá, að það eru vesælar dylgjur, að sósíalistar hafi bundið enda á þetta mál eins og það nú liggur fyrir. — Sósíalistar hefðu verið reiðubúnir til viðræðu um hækkun á framlagi ríkissjóðs til þess að koma í veg fyrir, að fella þyrfti niður ekknabætur. Svo erum við nú ekki alltaf hárnákvæmir, þó að þessi upphæð hefði verið þannig, að í versta tilfelli gæti hún farið örlítið fram úr áætlun.

Það hefur verið talað um það, einkum af stjórnarandstöðunni, að fjárhagsgrundvöllurinn væri ekki nógu góður til þess að setja upp svo víðtæka tryggingalöggjöf. Þetta álít ég, að sé ekki rétt, því að með slíkri tryggingalöggjöf er skapað öryggi gegn skorti, sem stafar af sjúkdómum og elli. En að sjálfsögðu er undirstaðan blómlegt atvinnulíf, þar sem allir starfa við arðbæra vinnu. Þess vegna held ég, að grundvöllurinn fyrir fullkominni tryggingalöggjöf sé lagður með nýsköpunarstefnu ríkisstj., þar sem lagt er kapp á að afla þjóðinni atvinnutækja og þar með unnið að því, að þjóðin geti notfært sér gæði landsins.

Ég leyfi mér því að telja það klaufaskap hjá Alþfl., að ekki skyldi nást betri árangur í tryggingalöggjöfinni, og einkum harmar Sósfl., ef ekknabæturnar verða felldar niður.