24.04.1946
Neðri deild: 119. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Við 2. umr. þessa máls lýsti ég yfir því, að athugað yrði, hvort samkomulag gæti orðið um 11. gr. frv. Félagsmálanefnd hefur haldið fund og komið sér saman, nema einn, hv. 2. þm. N.-M. Samkomulag varð um að leggja til, að aftan við 2. málsgr. 11. gr. komi viðbætir, og mundi sú málsgr. þá hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Tryggingastofnunin hefur skrifstofur eða umboðsmenn á þeim stöðum, sem bezt henta og þörf krefur, eftir ákvörðun tryggingaráðs.“ Í sambandi við þetta flytjum við í n. viðauka við bráðabirgðaákvæði, sem hljóðar þannig: „Til ársloka 1947 skulu stjórnir sjúkrasamlaga í kaupstöðum utan Reykjavíkur annast störf trygginganefnda samkv. 11. gr. og jafnframt annast skrifstofuhald og umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina, samkv. samningum, er tryggingaráð samþykkir.“ Þessi viðauki þarf ekki skýringa við. Ákveðið var, að sjúkrasamlögin skyldu starfa, unz heilsugæzlan tæki til starfa. Þykir henta að láta sjúkrasamlögin fara með þau mál, sem í frv. áttu að vera í höndum heilsugæzlunnar. Þetta þarf ekki að skýra meira. Það hefur verið hægt að samrýma misjöfn sjónarmið. — Loks flytur meiri hl. n. brtt. við síðasta málsl. b-liðar 42. gr. frv., til þess að mæta óskum, sem fram hafa komið um, að sjúkratryggingarnar nái til smáframleiðenda. Sá liður í frv. hljóðar nú svo: „Heimilt er tryggingaráði að ákveða að greiða bætur samkvæmt framansögðu frá og með 11. veikindadegi, ef hlutaðeigandi fer í sjúkrahús eða atvinnurekstur hans stöðvast.“ Ég benti á við 2. umr., að í 42. og 43. gr. væri heimildarákvæði um að láta biðtíma atvinnurekenda styttast, en með þessari brtt. er nú gengið nokkru lengra. Í enda brtt. er einnig miðað við 11 daga biðtíma hjá framleiðanda, ef hægt er að sanna, að tekjur hans hafi rýrnað svo, að hann heyri undir 2. málsgr. 39. gr., en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Sjúkrabætur eru greiddar konum og körlum á aldrinum 16–67 ára, sem verða fyrir tekjumissi vegna veikinda, ef vinnugeta þeirra er svo skert, að hlutaðeigandi geti eigi unnið sér inn sem svarar a. m. k. ¼ meira en bátaupphæðum laganna nemur við þau störf, sem hann er vanur að stunda, eða við aðra vinnu, er honum kann að vera vísað á og telja verður við hans hæfi.“ Sem sagt, ef sjúkdómur veldur því hjá framleiðanda, að tekjur hans hafi rýrnað svo, að hann heyri undir þessa gr., skuli biðtíminn vera 11 dagar, en annars ekki. — Ég hygg, að þessar brtt. þarfnist ekki frekari skýringa. Þær eru fluttar af öllum nm. nema hv. 2. þm. N.-M. Við meiri hl. n. leggjum til, að þessar brtt. verði samþ. Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessar brtt. okkar.