14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er alls ekki til að andmæla þessu frv. að ég kveð mér hljóðs. Mér þótti vænt um að heyra það af hálfu frsm. heilbr.- og félmn., að hann gaf fyrirheit um það, að n. mundi taka málið til rækilegrar athugunar, áður en lengra væri farið með það.

Það er á margan hátt ekki nema eðlilegt, að einhver breyt. verði þarna gerð um þessi hreppamörk. Og það er alveg víst, að að sumu leyti er litið við það unnið, að það dragist lengi. Því að eftir því sem byggðin eykst í hinum einstöku sveitarfélögum frá því, sem er, má gera ráð fyrir, að sú aukning verði heldur til að torvelda lausn á þessu máli en hitt. En hins vegar ber þess þó að gæta við þessa sameiningu, að alls réttlætis sé gætt við afgreiðslu málsins.

Eins og kannske mátti búast við, sé ég það, að það er engan veginn að samkomulagi þeirra hreppsfélaga, sem hlut eiga að máli, að þessi fyrirhugaða breyt. er borin fram. Ég sé af þeim skjölum, sem prentuð eru með frv. sem fylgiskjöl, að sveitarstjórnir þær, sem þarna eiga hlut að máli, hafa ekki enn sem komið er komið sér saman um lausn málsins. Og gera má ráð fyrir, að það kunni að reynast nokkuð torvelt, þegar um slíka breyt. er að ræða sem þessa, að fullt samkomulag náist, heldur verði að lokum ekki hægt að komast hjá því, að Alþ. grípi inn í og ákveði, hvernig þessum hreppaskiptingum verði fyrir komið. Þessu get ég einmitt búizt við: En samt sem áður, þó að svo kunni að fara, þá er þó um að gera, að málið sé afgreitt á þann sanngjarnasta og heppilegasta hátt, sem hægt er, að upplýsinga sé leitað, eftir því sem fáanlegar eru, um það hvernig málinu er varið. Ég vil vænta þess, að hv. n. kynni sér umsögn hreppsnefndanna um málið, og eins að því leyti sem sýslunefnd Árnessýslu kann að hafa látið málið til sín taka, þá verði af n. athugað álit og umsögn sýslunefndar. Þetta þarf á engan hátt að verða til þess og á heldur ekki að verða til þess að hindra þá nauðsynlegu breyt., sem þarna þarf að koma á hreppaskiptingu, heldur fyrirbyggja það að sú breyt. valdi langvarandi óánægju, og koma í veg fyrir misrétti við afgreiðslu málsins. En til þess að koma í veg fyrir slíkt misrétti er nauðsynlegt, að glögg og ýtarleg athugun á þessu máli fari fram, áður en það er til lykta leitt.