01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Nefndin fékk á fund með sér til að ræða þetta mál viðkomandi oddvita ásamt Jónasi Guðmundssyni, eftirlitsmanni sveitarstjórnarmálefna, og var ekki hægt að segja, að neitt nýtt kæmi fram. Oddvitarnir voru ekki sammála, og yfirleitt var ekki um neitt samkomulag að ræða. Hins vegar er augljós þörf þess að sameina þarna byggðina. Um það atriði voru allir nm. sammála, en þeir urðu aftur á móti ekki sammála um neinar, brtt. nema þá, að í stað „1. jan. 1946“ í 5. gr. komi : 1. júní 1947. — Með þessu móti fæst nokkur tími til stefnu og ef til vill tími fyrir oddvitana að koma sér saman. Einstakir nm. munu að sjálfsögðu gera grein fyrir afstöðu sinni. Ég hef flutt þrjár brtt. á þskj. 458. Eftir minni kynningu af þessum málum ætla ég, að í framtíðinni verði yfirleitt miðað að því að stækka hreppsfélögin. Hin litlu hreppsfélög eru máttlaus, þegar til stórra átaka kemur, og ég er því mótfallinn, að skildir séu frá hinum nýja hreppi 10–20 bæir af hinum gamla Sandvíkurhreppi. Ég legg til að allur. Sandvíkurhreppur, að undanskilinni svonefndri Flóagaflstorfu, leggist til hins nýja hrepps. En Flóagaflstorfa tel ég, að eigi að leggjast undir Eyrarbakkahrepp, og er Jónas Guðmundsson og fleiri óhlutdrægir menn mér samdóma um þessa skiptingu. Brtt. mín við 3. gr. er bein afleiðing af þessari breyt. á 1. gr., og sama er að segja um 3. brtt. mína. Ég hef heyrt, að nokkuð séu skiptar skoðanir meðal bænda í Sandvíkurhreppi um þetta mál. Sumir kæra sig ekki um að vera með þorpinu, en það er mín bjargföst skoðun, að hið opinbera eigi ekki að styðja að því, að litlir hreppar séu myndaðir, heldur þvert á móti að sameina litlu hreppsfélögin í færri og stærri. Ég sé ekkert athugavert við það, þótt sveit og þorp séu í sama hreppi. Þannig er það t. d. með Ólafsfjörð og Siglufjörð, og fleiri dæmi mætti nefna.

Hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Ak. flytja brtt. á þskj. 465, og munu þeir gera grein fyrir henni, en afstaða mín til brtt. á þskj. 455 fer eftir því, hversu fer um þá brtt. Þarna er um land í Ölfushreppi að ræða, sem frv. gerir ráð fyrir, að lagt verði undir hinn nýja hrepp.

Árbær er fyrir nokkrum árum keyptur af hlutafélagi á Selfossi. Búskapur var þar lagður niður og hús ekki notuð. En hins vegar hefur verið lagt í að ræsa þarna fram mýrar í stórum stíl, og hefur þetta land verið hugsað til afnota fyrir Selfossbúendur. En þeir hv. þm. Eyf. og þm. Ak. leggja til, að þetta land falli ekki undir Selfosshrepp. Út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til, að þetta land falli undir Selfosshrepp. Það má eins nytja það af þeim, er búa í Selfossbyggðinni, fyrir því. En ef Alþingi hins vegar samþykkir, að þetta land falli undir hinn nýja hrepp, þá sé ég ekki ástæðu til að láta einstaklinga hafa aðstöðu til að selja það og afnot þess eftir sínum geðþótta. Þá get ég vel unnt þorpinu að eiga þetta land og verið með, að það sé tekið eignarnámi. Ég man eftir því, að á sínum tíma urðu harðar deilur um það hér í Reykjavík, hvort selja ætti einstaklingum lóðir. Nú eru allir sammála um það, að bærinn eigi að eiga sem mest af lóðum, og ég ætla, að sú saga muni víðar gerast. Ég veit vel, að þetta er tilfinningamál þar fyrir austan, og sennilega verður aldrei unnt að gera alla ánægða. Það verður óánægja, ef ekki verður gert neitt, og það verður óánægja, hvernig sem þetta verður afgreitt. Það er óhugsandi að samþ. frv. þannig, að margir verði ekki óánægðir, en ef það verður ekki samþ., stöndum við í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum í Selfossbyggðinni, svo sem vatnsveitu og rafveitu, holræsagerð o. fl., og það má ekki verða.