11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

16. mál, fjárlög 1946

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur: Ég vil hefja mál mitt á því að ræða ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar á kreppuárunum fyrir stríð. Þá voru þúsundir atvinnuleysingja um allt land. Hér í Reykjavík norpuðu menn í hundraða tali niður við höfn í von um eitthvað fyrir sig að leggja, en meiri hluti verkamanna varð að snúa heim vinnulaus, og urðu margir að leita á náðir hins opinbera sér til lífsframfæris, og var það sannarlega neyð að þurfa að lúta því. Það hefur mikið verið rætt um það, hverjar voru orsakir þessa ömurlega ástands, sem þjóðin bjó við fram að stríðinu, og rétt er það, að ýmsar eru orsakirnar, en þó er rétt að gera sér þess ljósa grein, að höfuðorsökin var stefna sú, sem réði í fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar. Á þessu árabili eða fram til 1939 fóru Framsfl. og Alþfl. með völd því nær einir. Þrátt fyrir það að þessir flokkar færu með stjórn landsins, réðu þeir ekki peningamálum þjóðarinnar. Í hvert skipti, sem þeir ætluðu að leggja út í einhverjar aðgerðir til aukningar á eðlilegu atvinnulífi í landinu, strandaði það á þeim, er fóru með stjórn bankanna. Eitt af ömurlegustu mistökum þessara flokka í stjórn þeirra á landinu var að tryggja ekki ríkisvaldinu yfirstjórn peningamálanna, yfirstjórn á bönkum þjóðarinnar. Landsbankinn, sem á að vera hinn raunverulegi þjóðbanki og er jafnhliða seðlabanki þjóðarinnar, hefur aldrei viljað beygja sig fyrir þingi og stjórn. Stjórn hans og forráðamenn halda því fram, að bankinn eigi að hafa sjálfstæði innan ríkisins og vera sjálfráður, hvaða stefnu hann tekur. Reynslan hefur líka orðið sú, að Landsbankinn, það er stjórnendur hans og bankaráð, hafa algerlega farið sínar götur, hvað sem samþ. hefur verið í sölum Alþ., og vegna yfirráða bankans á fjármálum þjóðarinnar hefur stefna Landsbankans yfirleitt ráðið í atvinnumálum allar götur fram til 1942. Það var þessi klíka, sem skapaði atvinnuleysi á Íslandi og viðhélt því, eftir að önnur auðvaldsríki höfði komizt yfir kreppu og tekizt að draga úr atvinnuleysi hjá sér. Það var þessi klíka, sem hefur hindrað verulega atvinnuþróun í landinu í nokkuð á annan áratug. Það var hennar verk, að togaraflotinn og bátaflotinn var ekki endurnýjaður fyrir stríð, þrátt fyrir það að meginhluti hans væri vart sjófær. Þetta eitt hefur skaðað þjóðina svo mikið, að það kostar áratug að vinna það upp. Fyrir stríð var hægt að framkvæma endurnýjun og aukningu togara- og bátaflotans fyrir brot af því fé, sem það kostar nú, auk þess arðs, sem ný og fullkomin skip hefðu getað fært þjóðinni á undanförnum árum. Það er verk Landsbankavaldsins,, að þjóðin hefur lengst af orðið að láta sér nægja að flytja út fiskframleiðsluna lítt unna eða óunna sem saltfisk eða ísfisk og setja sig á bekk með nýlenduþjóðum, í stað þess að koma upp stórfelldum hraðfrystihúsum, niðursuðuverksmiðju og öðrum fiskvinnslustöðvum til vinnslu á fiskafla landsmanna, sem hefðu fært miklu meiri tekjur í þjóðarbúið og veitt mikla atvinnu. Það er stefna Landsbankans, sem hefur skapað það öfugstreymi í atvinnulífinu, að hvers konar verzlunarrekstur gefur meiri arð en sjávarútvegur, þó að öll verzlunarstarfsemin byggist á gjaldeyri, sem sjávarútvegurinn aflar þjóðinni. Þetta hefur orðið þess valdandi, að fjármagn hefur streymt úr sjávarútveginum í verzlunina, og er það ein höfuðorsök þess ömurlega ástands, sem sjávarútvegur okkar hefur verið í.

Nú munu menn spyrja: Hvað er þetta Landsbankavald, og hvers vegna er það svo áhrifamikið um opinber mál? Ég tel nauðsynlegt að svara þessum spurningum. Landsbankavaldið er fyrst og fremst samtök nokkurra auðmanna, sem starfa í náinni samvinnu við stjórnendur Landsbankans. Þessir auðmenn eru valdamestu mennirnir í atvinnumálum landsins vegna yfirráða sinna yfir fjármagni og þýðingarmiklum atvinnufyrirtækjum. Stjórnendur Landsbankans hafa hins vegar mjög sterka aðstöðu, vegna þess að þeir eru valdir eftir mjög ólýðræðislegum leiðum. Þegar þetta tvennt er lagt saman, yfirráðin yfir fjármagni og þýðingarmiklum atvinnutækjum og embættisvald stjórnenda Landsbankans, sem meðal annars felur í sér stjórn á seðlabanka þjóðarinnar og þar með yfirráð yfir öllum öðrum peningastofnunum hennar, þá er fullskapað það valdatæki, sem í daglegu tali er kallað Landsbankavald eða Landsbankaklíka. Þessi klíka hefur svo leitað sér bandamanna í öllum borgaralegu flokkunum og orðið vel ágengt. Sjálfstfl. er flokkur sjálfrar borgarastéttarinnar og er því sá flokkur, sem lengst af hefur staðið í nánustum tengslum við þessa klíku. En auk þess hefur henni tekizt að afla sér sterkra bandamanna innan hinna borgaraflokkanna, einkum í Framsfl., sem heita má, að sé gersamlega ánetjaður þessari klíku. Landsbankavaldið eru hin heilögu vé yfirstéttarinnar á Íslandi. Þar koma saman menn úr öllum borgaralegu flokkunum og ráða ráðum sínum í bróðerni, ákveða stefnuna í fjármálum þjóðarinnar, ótruflaðir af þeim pólitísku átökum, sem fram fara milli flokka þeirra. Þessi klíka hefur mótað stefnu hins afturhaldssama hluta yfirstéttarinnar. Sú stefna hefur verið í því fólgin að hindra atvinnulegar framfarir eftir fremstu getu og halda niðri kaupi verkalýðsins. Frá sjónarmiði hennar var atvinnuleysi æskilegt til þess að halda kaupinu í skefjum og viðhalda valdi atvinnurekenda yfir verkalýðnum.

Á árunum fyrir stríð var mikið rætt um endurnýjun atvinnutækjanna. Sósfl. benti á það þá þegar, að þjóðinni væri óhjákvæmileg nauðsyn að endurnýja atvinnutæki sín, kaupa ný skip og koma upp nýjum iðjuverum. Það er að vísu rétt, að þjóðin hafði ekki eins góða aðstöðu til slíkrar uppbyggingar og nú, vegna þess að hún átti engar erlendar innstæður og átti í erfiðleikum með að skapa þann gjaldeyri, sem henni var nauðsynlegur til kaupa á hvers konar neyzluvörum. En það var hægt að fá lán erlendis til þess að endurnýja atvinnutækin, og á það var bent, en Landsbankaklíkan barði allt slíkt niður, og því fór sem fór. Það sjá allir nú, að það hefði verið hyggileg ráðstöfun að fá lán erlendis til kaupa á nýjum framleiðslutækjum fyrir stríð. Skuldasöfnun í því skyni að kaupa atvinnutæki, sem geta aukið verðmæti útfluttrar vöru, var í alla staði hyggileg. En það, sem síðan hefur skeð, sérstaklega eftir að stríðið skall á, sannar okkur, að það var örlagaríkt glapræði að endurnýja ekki atvinnutækin og auka þau fyrir stríð, því að á stríðstímunum hefði okkur reynzt létt að greiða þann kostnað. En sem sagt, allar slíkar kröfur um endurnýjun og umbætur á atvinnutækjum þjóðarinnar voru kveðnar niður. Fyrir áhrif Landsbankavaldsins var raunverulega lagt bann við innflutningi á framleiðslutækjum. Einstaklingar, sem höfðu lánstraust erlendis og gátu keypt skip og framleiðslutæki, fengu ekki að flytja þau inn. Gjaldeyris- og innflutningsnefnd sá um framkvæmd þess þáttar í stefnu Landsbankans.

Það er fátt, sem sýnir betur skaðræðisstarfsemi þess afturhalds, sem hreiðrað hefur um sig í Landsbankanum, sem það að rifja upp viðskipti þess við samstjórn Framsfl. og Alþfl. frá árinu 1934 um fjögurra ára áætlunina svo kölluðu. Sú stjórn var mynduð eftir kosningasigur Alþfl., sem hafði gengið til kosninga með ýmis stór áform, atvinnuframkvæmdir og endurnýjunaráform á sviði atvinnulífsins með það fyrir augum að vinna bug á atvinnuleysinu. Þjóðin hafði þá búið við atvinnuleysi í nokkur ár. Kreppan hafði náð hámarki sínu, og fólkið þráði stórfelldar ráðstafanir til þess að vinna bug á atvinnuleysinu. Það er hægt að fullyrða, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var fylgjandi fyrirætlunum þeirrar stjórnar, þegar hún var mynduð. En hvernig fór, þegar til framkvæmdanna kom? Ég efast ekki um, að ýmsir af þeim mönnum, sem settu fram þessa stefnuskrá, hafi verið ákveðnir í að framkvæma hana. En það minna allir, hvernig fór. Framkvæmdirnar urðu litlar sem engar og það svo, að ekki munu nokkur dæmi í stjórnmálasögu Íslands um jafnlitlar efndir á stórum loforðum. En hvernig stóð á þessu? Hvernig stóð á því, að stjórnin frá 1934 framkvæmdi ekkert af þeirri aukningu atvinnuveganna, sem hún var mynduð til að framkvæma? Ástæðan var sú, að afturhaldsklíkan í Landsbankanum beitti sér á móti öllum fyrirætlunum hennar í atvinnumálum og tókst að hindra allar framkvæmdir. Þegar til framkvæmdanna kom, sýndi það sig, að nauðsynlegt var, að fjármálastefnan væri í samræmi við atvinnustefnu stjórnarinnar. Stjórnendur í peningastofnunum þjóðarinnar urðu að starfa á grundvelli stjórnarstefnunnar, því að engin nýsköpun eða uppbygging í atvinnulífi þjóðarinnar getur átt sér stað án þess að fjármagni þjóðarinnar sé veitt til framkvæmdanna. Þegar eftir myndun stjórnarinnar kom til átaka um það, hvor skyldi ráða fjármálastefnunni, Landsbankinn eða ríkisstj. Spurningin var um það, hvort ætti að framkvæma stefnu stjórnarinnar eða ekki. Landsbankinn vildi hindra framkvæmd hennar. Átök þessi komu fyrst fram í deilum um yfirráðin yfir fiskútflutningi landsmanna. Landsbankinn heimtaði, að nokkur stór útgerðarfélög fengju. tryggða einokunaraðstöðu til að féfletta fiskimenn og smáútvegsmenn með því að byggja Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda upp eftir þeim reglum, að hinum stóru útgerðarfélögum væru tryggð þar öll yfirráð. Stjórnin sigraði í þ., en skömmu eftir að þ. var farið heim, var svo komið, að stjórnin varð að gefast upp og breyta lögum sínum um fiskútflutninginn til samræmis við vilja Landsbankaklíkunnar. Og svo alger var þessi uppgjöf, að Haraldur Guðmundsson var neyddur til þess sjálfur að gefa út þessi eftirminnilegu brbl. Þar með var Landsbankinn búinn að ná yfirhöndinni. Deilunni var lokið með fullkomnum sigri Landsbankaklíkunnar. Stefnuskrá hinnar svo kölluðu stjórnar vinnandi stétta var varpað fyrir borð. Stjórnin lifði áfram án nokkurra aðgerða í atvinnumálum við vaxandi atvinnuleysi í landinu og vandræði og endaði síðan göngu sína eftir hinn minnisstæða ósigur Alþfl. í kosningunum árið 1937. Ein höfuðástæðan fyrir ósigri stjórnarinnar var sú, að hún beitti ekki meiri hluta sínum á Alþ. til að tryggja sér stjórn á Landsbankanum. Landsbankaklíkan átti of marga bandamenn innan flokkanna, einkum Framsóknar, til þess að það væri unnt. Þessi sigur afturhaldsins í Landsbankanum gerði það að verkum, að það náði yfirtökunum á stjórnarstefnunni í landinu. Þær ríkisstj., sem eftir þetta voru myndaðar fram til ársins 1942, voru ýmist myndaðar fyrir beinan tilverknað Landsbankavaldsins eða lifðu af náð þess. Afturhaldið, sem hreiðrað hafði um sig í Landsbankanum, náði þar með algerri forustu í þjóðmálum Íslendinga og það stóð á tindi veldis síns, þegar þjóðstjórnin var mynduð. Sú stjórn var mynduð beinlínis fyrir aðgerðir þess, enda var stefnuskrá hennar í samræmi við það. Þjóðstjórnin var mynduð til þess að leysa vandamál atvinnuveganna á kostnað alþýðunnar.: Launin. voru lækkuð og starfsemi verkalýðsfélaganna lömuð, þau voru bundin í viðjar lögþvingunar. Það er allsherjarráð afturhalds allra landa að leysa vandamál þjóðanna með því að lækka lífskjör hins vinnandi fjölda. Í stefnuskrá þjóðstjórnarinnar örlaði ekki fyrir nýsköpun að neinu leyti. Það var ekkert hugsað um að kaupa ný skip eða koma upp nýjum verksmiðjum, ekkert slíkt var reynt, heldur aðeins eitt að gera fátæklingana enn fátækari og eyðileggja samtök þeirra. Allar framkvæmdir þjóðstj. í atvinnumálum og fjármálum voru að fyrirlagi þessa valds. Það fór þó öðruvísi um þá stjórn en ætlað var. Utanaðkomandi áhrif trufluðu fyrirætlanir afturhaldsins. Heimsstyrjöld skall á og breytti ástandinu þannig, að Íslendingar fengu ótakmarkaða markaði fyrir alla fiskframleiðslu sína, þrátt fyrir það að þeir yrðu að flytja hana út óunna, sem ísaðan fisk. Ísland var hertekið, og mikil atvinna skapaðist, sem leiddi jöfnum höndum af velgengni útgerðarinnar og miklum atvinnuframkvæmdum hins erlenda herliðs í landinu. Þá byrjaði söngurinn um verðbólguna. Afturhaldið sá ofsjónum yfir því, að almenningur á Íslandi gæti örlítið rétt sig úr kútnum, orðið sjálfstæðari og óháðari en verið hafði. Það sá ofsjónum yfir vaxandi styrk verklýðshreyfingarinnar, sem byggðist á þeirri einingu, sem tókst að skapa innan hennar, og hinni miklu atvinnu og auknu eftirspurn á vinnukrafti. Á árunum 1940–1941 var hver tilraunin á fætur annarri gerð til þess að sporna við þeim vandræðum, sem afturhaldið taldi stafa af hinni miklu atvinnu og hækkuðum tekjum verkafólksins. Þessar ráðstafanir náðu hámarki sínu með gerðardómslögunum, sællar minningar, sem skellt var á í byrjun janúarmánaðar 1942. Gerðardómsl. komu sem reiðarslag yfir þjóðina. Fólkið skildi nú til fulls, að hverju afturhaldið stefndi, það skildi, að stjórnarstefnan var öll miðuð við að viðhalda örbirgð og atvinnuleysi hjá almenningi, til þess að hann yrði nógu auðsveipur gagnvart ráðstöfunum þessa óheillavalds. En með útgáfu gerðardómsl. var mælirinn fullur. Fólkið reis upp, það heimtaði, að þessari óheillastefnu yrði hætt. Alþfl. hrökklaðist út úr ríkisstj. Verklýðshreyfingin lagði út í samstillta baráttu gegn þessum ófögnuði öllum, sem endaði með því, að þjóðstjórnin hrökklaðist alveg frá völdum og kjördæmaskipun landsins var breytt í lýðræðisátt og efnt til nýrra kosninga. Sjálfstfl. myndaði stjórn einn, og hann varð að sætta sig við að gefa fyrirætlanir afturhaldsins upp á bátinn. Kauplækkunar- og atvinnuleysisstefnu Landsbankavaldsins var hrundið og það rekið úr þeirri aðstöðu að geta ráðið stefnunni í opinberum málum. — Eftir síðari kosningarnar 1942 var það orðið ljóst, að ekki var hægt að mynda stjórn á Íslandi, sem fylgdi þeirri stefnu, sem afturhaldið hafði fylgt. Styrkleiki verkalýðsins hindraði slíka stjórnarmyndun. Hins vegar voru forustumenn borgaraflokkanna ekki við því búnir þá að mynda stjórn, er starfaði í samræmi við óskir þjóðarinnar að framförum á sviði atvinnumála og menningarmála. Forustumennirnir höfðu ekki losað sig undan hinum andlegu áhrifum afturhaldsins, og þess vegna skapaðist millibilsástand, stjórnarkreppa, sem varaði í nærri 2 ár. Á þessu tímabili var utanþingsstj. skipuð af þáv. ríkisstjóra án samráðs við meiri hluta Alþ. Sú stjórn var að vísu í fullu samræmi skoðanalega við afturhaldið í landinu, en hún var þess ekki megnug að framfylgja stefnu þess. Reyndi hún þó af veikum mætti að espa atvinnurekendur til kaupdeilna við verkalýðsfélögin, reyndi sjálf að skera niður kaupið og lét vitandi vits allt reka á reiðanum í atvinnumálum þjóðarinnar og sigldi fullum seglum til stórfellds atvinnuleysis og hruns. Hún fór ekki heldur leynt með það, þessi stjórn, að það væri eina leiðin til þess að skapa eðlilegt ástand í fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar. Þegar kom fram á árið 1944, var svo komið, að þjóðin vildi ekki lengur sætta sig við það ömurlega ástand í stjórnmálunum, að ekki væru gerðar ráðstafanir til þess að þjóðin væri við því búin að mæta vandamálum eftirstríðsáranna, með aðgerðum, sem dygðu til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi og hrun. Haustið 1944 stóðu sakir þannig: Þjóðin átti upp undir 600 millj. kr. í innstæðum erlendis. Hún var efnaðri en nokkurn mann hafði getað dreymt um, að hún mundi verða. Nú hafði hún möguleika til þess að framkvæma þá endurnýjun og þá nýsköpun í atvinnulífi þjóðarinnar, sem alla framfarasinnaða menn dreymdi um, en vanrækt hafði þó verið í tugi ára. Nú þurfti ekki lán erlendis. Nú var hægt að gerbreyta atvinnulífi á Íslandi á örfáum árum með fjármunum þjóðarinnar sjálfrar. Þjóðin gat endurnýjað og tvöfaldað togaraflota sinn, endurnýjað og stækkað fiskibátaflotann, byggt hraðfrystihús og niðursuðuverksmiðjur fyrir megnið af fiskafla landsins, byggt nýjar síldarverksmiðjur og lýsisherzlustöðvar og niðurlagningarverksmiðjur fyrir síld. Allt þetta gat þjóðin byggt fyrir eigin efni án þess að þurfa að stofna til skulda erlendis. Möguleikar þjóðarinnar voru ótakmarkaðir. Hins vegar rak allt á reiðanum og var fyrirsjáanlegt, að þótt fiskiskipastóll okkar gæti skilað hagnaði á meðan stríðið stóð, var ekki sennilegt, að slíkt mundi vara lengi að stríðinu loknu vegna hinna ófullkomnu skipa og skorts á verksmiðjum til að vinna úr aflanum. Auðsætt var, að ísfiskmarkaðurinn mundi þrengjast stórlega og verðið sennilega lækka og það ástand gæti skapazt, að þrátt fyrir ótakmarkaða markaði fyrir fiskmeti okkar hefði þjóðin ekki aðstöðu til að hagnýta þá vegna vöntunar á atvinnutækjum til þess að vinna úr fiskinum. Skoðanir voru tvenns konar um það, hvernig bregðast ætti við þeim vanda, er allir sáu fyrir, að bera mundi að höndum að stríðinu loknu. Annars vegar voru framfaraöflin, sem heimtuðu, að lagt yrði út í stórfellda nýsköpun með það fyrir augum að afla þjóðinni hinna beztu skipa til fiskveiðanna, skipa, sem yrðu fullkomlega sambærileg við veiðitæki annarra þjóða, og að komið yrði upp hvers konar nýtízku fiskvinnslustöðvum, með öðrum orðum að auka afkastagetu íslenzks vinnuafls til þess að færa verð íslenzkrar framleiðsluvöru til samræmis við verðlag í markaðslöndum okkar. Hins vegar vildi afturhaldið standa í stað, vildi ekki framkvæma neina breytingu á atvinnulífi eða á atvinnutækjum þjóðarinnar, heldur halda áfram að flytja út fiskafurðir okkar lítið eða ekkert unnar, flytja út ísfisk mestmegnis, en lækka hins vegar kaupgjald í landinu, lækka lífskjör þjóðarinnar, til þess að geta rekið þennan úrelta atvinnuveg þannig, að hann væri samkeppnisfær við atvinnuvegi nágrannaþjóðanna. Til þess að framkvæma þetta hugðist afturhaldið að leggja út í stórorrustu við verklýðshreyfinguna um kauplækkanir. Það er vitað, að kauplækkunartilraunir afturhaldsins hefðu mætt mjög öflugri mótspyrnu. Harðvítug innbyrðis barátta hefði hafizt með þjóðinni, og var erfitt að segja fyrir, hversu henni lyktaði. En eitt var þó víst, að meðan þjóðin hefði borizt á banaspjót í innbyrðis deilum, hefði innstæðum hennar verið eytt að fullu, og við leikslok hefði þjóðin staðið jafnfátæk og allslaus og hún var á hinum ömurlegu krepputímum fyrir stríðið. Stefna hinna framfarasinnuðu varð ofan á. Meiri hluti Sjálfstfl. gekk undir forustu Ólafs Thors til stjórnarmyndunar um stefnuskrá sem felur í sér stórkostlega nýsköpun í atvinnumálum þjóðarinnar. Stefnuskrá stj. er í algerðri mótsetningu við stefnu afturhaldsins, og það er því ekki nokkur vafi á, að núv. stjórn var mynduð í andstöðu við Landsbankavaldið.

Landsbankavaldið hefur ekki fallið frá þeirri kröfu sinni, að kaupið verði lækkað, og nú er stefna þess túlkuð af stjórnarandstöðunni. Það er Framsfl. og Vísisliðið, sem nú heldur fram kauplækkunar- og atvinnuleysisstefnunni, sem öllu var ráðandi hér á landi fram að stríðinu. Þegar meiri hl. Sjálfstfl. sagði skilið við afturhaldsstefnu Landsbankans við myndun núv. stj., varð Framsfl. ásamt Vísisliðinu aðalmerkisberi hennar. Framsfl. beitir nú öllu afli sínu til þess að hindra framkvæmd á stefnu stjórnarinnar. Síðustu viðburðir sanna, að Landsbankinn hefur hið mesta dálæti á þessari iðju, og á það eftir að koma betur fram síðar.

Myndun núv. ríkisstj. er önnur tilraun, sem gerð hefur verið hér á landi til endurbóta og aukningar á atvinnulífi landsmanna til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Ég er búinn að skýra frá því áður, hvernig fór um fyrri tilraunina, framkvæmd á stefnuskrá stjórnar, sem mynduð var á árinu 1934. Sú tilraun strandaði fullkomlega á andstöðu Landsbankaafturhaldsins. Stjórnin gafst upp við framkvæmd loforða sinna, forustumenn hennar urðu bandingjar Landsbankavaldsins og hafa margir hverjir síðan ekki reynt að losa sig úr þeim viðjum. Í stað aukins atvinnulífs, sem sú stjórn ætlaði að skapa, fékk þjóðin aukið atvinnuleysi, aukin bágindi, aukna örbirgð. Núv. ríkisstj. stendur nú frammi fyrir sömu raun og samstj. Alþfl. og Framsóknar stóð vorið 1935. Sama valdið, sem hindraði þá góðar fyrirætlanir, er nú risið upp til þess að hindra framkvæmd á nýsköpunarstefnuskrá núv. stjórnar Landsbankinn og stjórnarandstaðan telur nú, að tími sé kominn til þess að freista þess að hindra framkvæmdir á stefnuskrá stj. Nú reynir á, hvort allt fer sömu leið og áður, hvort sú stjórnarsamvinna, sem stofnað var til síðastliðið haust í því skyni að gerbreyta og stórauka atvinnulíf þjóðarinnar með það fyrir augum að fyrirbyggja atvinnuleysi og tryggja þjóðinni góð lífskjör, á að fara sömu leið og samstj. Alþfl. og Framsóknar, sem mynduð var 1934.

Frá því að þjóðstj. fór út um þúfur fyrri hluta árs 1942, hefur lítið borið á Landsbankavaldinu. Þó hefur það aldrei misst valdaaðstöðu sína. Það gín enn þá einrátt yfir öllum fjármálum þjóðarinnar. En ýmsar ytri aðstæður orsaka það, að því hefur verið ókleift að hafa þau afskipti af stjórn landsins sem áður var. Þessar aðstæður eru einkum vaxandi styrkur og . eining verkalýðssamtakanna og vöxtur Sósfl. annars vegar, hins vegar hin mikla atvinna, sem leitt hefur af stríðsástandinu og því, hve hátt verð við höfum getað fengið fyrir fiskafurðir okkar, þrátt fyrir það að við flytjum þær út óunnar, og loks hin mikla peningavelta. — En Landsbankavaldið hefur aldrei látið sér detta í hug að gefast upp bardagalaust, það hefur orðið að draga sig í hlé í bili, en það hefur allan þennan tíma verið að leita tækifæris til þess að grípa inn í gang þjóðmálanna. Það hefur ekkert lært og engu gleymt. Það fylgir hinni sömu atvinnuleysis- og kauplækkunarstefnu og fyrir stríð. Það á enn þá sitt eina áhugamál að koma hér á atvinnuleysi og lækka kaupið: Því fyrr, því betra. Ýmislegt, sem skeð hefur nú að undanförnu, sýnir, að nú telur þetta afturhald sinn tíma kominn til árása á fyrirætlanir ríkisstj. í atvinnu- og fjármálum.

Svo sem kunnugt er og oft hefur verið fram tekið, er núv. ríkisstj. mynduð í því skyni að framkvæma stórkostlega endurnýjun og nýsköpun á atvinnulífi þjóðarinnar, bæði að því er varðar fiskiflotann og eins að því er varðar iðjuver í landi. Í stjórnarsamningnum er gert ráð fyrir að framkvæma nýsköpun í sjávarútveginum fyrir 250 millj. íslenzkra kr. og í landbúnaðinum fyrir 50 millj. íslenzkra kr. Það er ástæðulaust að fara að lesa hér upp þessar fyrirætlanir. Þjóðinni eru þær vel kunnar nú þegar, og þær njóta fylgis langsamlega meiri hluta hennar. — Þegar ráðizt er í nýsköpun í sjávarútvegi og landbúnaði á Íslandi með það markmið að verja til þeirrar nýsköpunar 300 millj. kr., þá hlýtur það að vera hverjum manni ljóst, að hér er um að ræða stórkostlegri atvinnuframkvæmdir en þjóðin hefur áður látið sig dreyma um, að hún gæti framkvæmt. Ég efast ekkert um það, að þeir, sem gengu til myndunar núv. ríkisstj., hafi gert sér þess ljósa grein í upphafi, hvað slík nýsköpun þýddi í raun og veru. Hún þýðir í raun og veru hvorki meira né minna en það að gerbreyta atvinnulífi þjóðarinnar á örfáum árum og lyfta þjóðinni á miklu hærra stig atvinnulega og skapa henni þar með möguleika til að lifa menningarlífi án þess að reka þjóðarbúskap sinn með tekjuhalla. Það getur enginn neitað því, að töluvert hefur áunnizt í framkvæmd stjórnarstefnunnar nú þegar. Þrjátíu nýir togarar hafa verið keyptir, yfir fimmtíu nýir fiskibátar frá Svíþjóð, samið hefur verið um smíði 35 báta innanlands, samið um kaup á flutningaskipum erlendis, bæði fyrir einstaklinga, félagasamtök og ríkisstj., byggðar síldarverksmiðjur, hafinn undirbúningur að byggingu niðursuðuverksmiðja, hafin bygging á fyrirmyndar hraðfrystihúsi og niðursuðuverksmiðju á vegum fiskimálanefndar í Reykjavík, stórfelldar hafnarframkvæmdir undirbúnar og hafnar að nokkru við fiskisælustu miðin, hafinn undirbúningur undir byggingu lýsisherzlustöðvar og ýmislegt fleira, sem telja mætti. Það, sem þegar hefur áunnizt, er svo mikið, að engin stj., sem setið hefur fram til þessa, hefur gert meira á jafnskömmum tíma. En þrátt fyrir þessar miklu framkvæmdir er þó engan veginn hægt að telja þennan árangur fullnægjandi. Það er nauðsynlegt að hafa miklu meiri hraða á hlutunum, og þegar það er athugað, að íslenzka þjóðin þarf á skömmum tíma að koma upp hjá sér fiskvinnslustöðvum, sem geti tekið við fiskframleiðslunni til vinnslu, þegar ísfiskmarkaðurinn þrengist eða lokast, þá verður ljóst, að það er langur vegur frá því, að nógu vel hafi verið fylgt fram stefnu stjórnarinnar.

Flest það, sem gert hefur verið til framkvæmda á stefnu stj., hefur verið gert af ríkisvaldinu sjálfu. Þetta er vitanlega ekki nóg. Það verður ekki framkvæmd nýsköpun atvinnulífs á Íslandi fyrir 250–300 millj. króna, nema öll þjóðin snúi sér að framkvæmdunum. Það þarf að fá einstaklinga, félög og bæjar- og sveitarstjórnir um allt land til þess að leggja hönd á plóginn. Í hverju einasta byggðarlagi þarf að gera áætlanir um byggingu atvinnutækja og öflun skipa, sem geta veitt íbúunum atvinnu. Þjóðin er logandi af áhuga fyrir því að ráðast í þessar framkvæmdir. Það, sem vantar, til þess að framkvæmd nýsköpunarstefnunnar geti hafizt fyrir alvöru, er það, að ríkisstj. og Alþ. veiti nauðsynlegu fjármagni út um landið með lágum vöxtum. Með slíkum ráðstöfunum í fjármálum getur ríkisstj. hrundið af stað öflum, sem geta framkvæmt meira af stefnumálum stj. á einu ári en hún getur sjálf á 4 árum. Þetta mál, veiting lánsfjár til framkvæmda á nýsköpunarstefnunni, átti að vera fyrsta mál, sem stj. snéri sér að. Það er mikill skaði skeður, að stj. skuli ekki hafa snúið sér að þessu þegar eftir að hún var mynduð. Starf stj. það, sem af er, sannar, að það er við ramman reip að draga, þar sem bankarnir eru, og lánsfé verður ekki tryggt til nýsköpunarinnar, nema ríkisvaldið skerist í leikinn.

Eftir að ríkisstj. var mynduð, hóf nýbyggingarráð rannsókn á því, með hverjum hætti eðlilegast væri að tryggja fé til framkvæmda nýsköpunarinnar í sjávarútveginum. Árangurinn af þeim rannsóknum eru frv. þau tvö, sem lögð voru fyrir Alþ. laugardaginn 8. des. s. l. til l. um breyt. á lögum um nýbyggingarráð og frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Frv. þessi hafði nýbyggingarráð samið þegar snemma í sumar og sendi þau ríkisstj. til fyrirgreiðslu. Auk þess voru frv. send ýmsum stofnunum til athugunar og umsagnar, og munu undirtektir hvarvetna hafa verið einróma með frv. nema úr einni átt, frá Landsbanka Íslands. Frv. gera ráð fyrir, að lánað sé til skipakaupa og til stofnkostnaðar fiskiðnaðarfyrirtækja rífleg lán með 2½% vöxtum. Ætlazt er til, að Fiskveiðasjóður verði efldur með allt að 100 millj. kr. láni úr seðladeild Landsbankans, er verði lánað sem erlendur gjaldeyrir til kaupa á atvinnutækjum og efni erlendis. Auk þess er gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóður bjóði út ríkistryggð skuldabréf innanlands að upphæð milli 40 og 50 millj. kr. Til kaupa á nýjum skipum er gert ráð fyrir að lána allt að ¼ kostnaðarverðs, en til fiskvinnslustöðva, ef nýbyggingarráð hefur samþ. staðsetningu þeirra, allt að, 2/3 kostnaðarverðs. Vaxtakjörin, sem gert er ráð fyrir, eru það lág, að þau mundu stórbreyta viðhorfi manna til þess að ráðast í framkvæmdir á þessu sviði. Það er óhætt að fullyrða, að þessar till. nýbyggingarráðs hafa vakið fögnuð um allt land, og menn bíða þess með eftirvæntingu, að þær verði lögfestar. En Landsbankinn er á öðru máli. Landsbankaklíkan var að vísu búin að sýna nýbyggingarframkvæmdunum fjandskap, áður en hún hóf baráttu sína gegn lánafrv. nýbyggingarráðs. Í því sambandi er vert að minnast á, að það var stjórn Landsbankans, sem stöðvaði hraðfrystihúsin í janúarmánuði síðastliðnum með því að neita, um rekstrarlán til þeirra, eins og þau fóru fram á, og olli þannig mjög miklum örðugleikum í sambandi við fiskútflutninginn, sem leiddu til allmikilla deilna á síðastliðnum vetri. Landsbankinn hefur líka, frá því að ríkisstj. var mynduð, haldið áfram sömu vaxtaokurstefnu gagnvart sjávarútveginum og áður. Sú lítilfjörlega lækkun vaxta, sem fram fór á síðastliðnu sumri, breytir í raun og veru engu í þessu efni. Fjandskapur Landsbankavaldsins gegn nýsköpunarframkvæmdum ríkisstj. verður þó ekki ber fyrr en komið er að þessu undirstöðuatriði í stefnuskrá stj., fyrirkomulagi lánveitinga til nýsköpunarframkvæmda. Þeir hugsa sem svo, þessir herrar. Það gerir ekkert til, þótt mynduð sé ríkisstj., sem gefur fólkinu fögur loforð. Það hefur verið gert áður á Íslandi. En gamanið fer að grána, þegar ríkisstj. fer að gera ráðstafanir í fjármálum til að tryggja framkvæmd stefnu sinnar, og það má ekki verða. Landsbankanum hefur tekizt með baráttu sinni gegn frv. að draga þetta mál óhæfilega á langinn, og nú er svo komið, að þegar frv. eru lögð fram á þ. eftir þann langa tíma, sem ríkisstj. hefur haft þau til athugunar, er hún ekki sammála um þau. Eins og sést í grg. um breyt. á nýbyggingarráðslögunum, er ríkisstj. ekki sammála um fjáröflunarleiðina, þótt fram sé tekið í greinargerðinni, að hún sé sammála um að efla sjávarútveginn og afla honum ódýrra lána. En það er skiljanlega svo veigamikið atriði, hvaða fjáröflunarleið verður valin, að lánamálin geta beinlínis oltið á því atriði.

Það verður ekki annað séð en ágreiningurinn innan ríkisstj. sé fram kominn fyrir tillitssemi við Landsbankann, sem er algerlega á móti till. nýbyggingarráðs, bæði fjáröflunarleiðinni og því að veita svona miklu fé út í sjávarútveginn. Landsbankinn er fyrst og fremst andvígur nýsköpuninni sjálfri, hann vill enga útlánastarfsemi til að hrinda henni fram. Vegna dýrkeyptrar reynslu er ekki hægt að lá mönnum, þó að það veki nokkurn ugg, þegar ráðherrar Sjálfstfl. gera ágreining um þetta mál innan ríkisstj. og vilja láta leysa það með samkomulagi við Landsbankann, sem vitað er, að er fjandsamlegur öllum fyrirætlunum ríkisstj. Það er sérstaklega eftirtektarvert í þessu sambandi, að í deilum sínum við nýbyggingarráð hefur Landsbankinn ekki bent á neina aðra leið til fjáröflunar, þrátt fyrir það að hann hafi talið till. algerlega óhæfar. Það verður ekkert fullyrt um það enn þá, hvernig þessum málum reiðir af í þ., hvort Landsbankinn getur komið fram áformum sínum að stöðva málið eða skemma það. Úr þessu verður reynslan að skera, en ýmislegt, sem skeð hefur í Landsbankanum undanfarið, gefur tilefni til þess, að allur almenningur sé vel á verði fyrir tilraunum afturhaldsins til að hindra framkvæmd nýsköpunarinnar.

Eins og ég tók fram, hefur Landsbankanum tekizt að tefja lánamálin í hálft ár, eða frá því síðastliðið vor, að nýbyggingarráð skilaði frumvörpunum til ríkisstj. Þjóðin hefur sem sagt tapað heilu sumri. Hvert pláss á landinu hefur sínar ráðagerðir um byggingu hraðfrystihúsa, niðursuðuverksmiðja, fiskimjölsverksmiðja, tugir og hundruð manna eru með bátakaup og skipakaup á prjónunum, og alls staðar strandar þetta á því sama. Það er ekki búið að ganga frá, hversu hagað verður lánamálum sjávarútvegsins. Þessi frestur allt síðastliðið sumar verður þess valdandi, að heilt ár glatast frá nýsköpunarframkvæmdunum vegna vinnuskilyrða í landinu. Einstaka menn hafa getað útvegað sér bráðabirgðalán gegn væntanlegum lánum síðar, ef lánafrv. nýbyggingarráðs verða gerð að lögum. En það eru ekki nema tiltölulega fáir, sem slík lán hafa fengið og þá fyrir atbeina ríkisstj. Frá því í vor hafa útgerðarmenn og hraðfrystihúsaeigendur í Keflavík undirbúið byggingu fiskimjölsverksmiðju til þess að vinna fiskimjöl úr úrgangi hraðfrystihúsanna þar, en sem kunnugt er, eru hraðfrystihúsin þar syðra starfrækt á þeim grundvelli, að því nær öllum úrgangi við flökun, sem nemur oft 60% af þyngd fisksins slægðs, er kastað. Keflvíkingar hafa gengið í lánsstofnanir og ekki orðið ágengt. Ef þessi fiskimjölsverksmiðja kæmist ekki í gang snemma á vertíðinni, þá fara öll þau miklu verðmæti, sem fólgin eru í úrganginum frá hraðfrystihúsunum, forgörðum. Á mörgum stöðum á landinu þýðir þessi töf á lánamálunum, sem Landsbankinn veldur, að ekki verður unnt að gera út, vegna þess að ekki eru til hraðfrystihús til þess að taka á móti fiskinum. Hér voru seinni hluta sumarsins þrír menn frá Eskifirði að leita fyrir sér um lán til hraðfrystihúsbyggingar þar, sem er óhjákvæmilegt skilyrði þess, að hægt sé að reka þaðan útgerð. Þeir fóru heim án þess að geta lokið erindi sínu. Hins vegar gaf ríkisstj. þeim vonir um lán, þegar lánafrv. væru orðin að l. Það er sannleikur, sem allir þurfa að vita, að eins og nú er komið, eru margar framkvæmdir í nýsköpun sjávarútvegsins að stranda á því, að þetta mál hefur ekki verið afgreitt.

Á meðan Landsbankinn er önnum kafinn í baráttu sinni við till. nýbyggingarráðs í lánamálunum, þó að sú barátta hafi að vísu ekki farið hátt fram til þessa, kom fyrir atvik, sem óhætt er að segja, að verkað hafi líkt og þrumuský á heiðum himni. Þegar svo er komið, að nýsköpunarframkvæmdir eru að stöðvast vegna dráttar á afgreiðslu á lánatillögum nýbyggingarráðs, fréttir þjóðin það allt í einu, að Jón Árnason framkvæmdastjóri S.Í.S. hefur verið ráðinn bankastjóri í Landsbankanum. Landsbankinn gat á engan hátt betur lýst því yfir, að hann er staðráðinn í því að beita öllu sínu afli til þess að hindra nýsköpunina. Jón Árnason er sá eini úr hópi þeirra Landsbankamanna, sem hefur alveg kveðið upp úr með skoðanir sínar á nýsköpuninni. Í grein, sem hann ritaði í Samvinnuna í október 1944, ræðir hann nýsköpunina og fer ekkert dult með fjandskap sinn gegn þeim fyrirætlunum. Jón Árnason telur, að ef nýsköpunarstefnan yrði framkvæmd, mundi það verða hin mesta atvinnubylting, sem þekkzt hafi hér á landi, og mundi þá einnig leiða af sér stórfellda atvinnukreppu, og síðar í greininni segir hann, að nýsköpunin mundi valda atvinnubyltingu, sem hefði banvænar afleiðingar fyrir núverandi atvinnulíf þjóðarinnar. Það er ljóst, hvað er verið að fara þarna. Hann óttast ekki atvinnuleysið, þó að ekkert verði gert í atvinnumálum landsmanna. Nei, hann óttast, að vinna verði of mikil, og kallar það atvinnukreppu. Þetta er voðinn, sem Jón Árnason telur, að beri að forðast. Slíkum mönnum er til þess eins trúandi að leiða atvinnuleysi yfir þjóðina á nýjari leik. En hvað er svo þetta banvæna við nýsköpunina? Það er, að ekla verður á verkafólki til þess að vinna með úreltum tækjum fyrir lítið kaup. Nýsköpunin er banvæn fyrir atvinnurekstur, sem rekinn er með miðaldasniði og án allra nýtízku vinnuvéla. Með öðrum orðum, nýsköpunin knýr til alhliða framfara í atvinnulífi landsmanna, hún gerir það ókleift að reka vissar greinar atvinnulífsins með miðaldasniði. Þetta er það óttalega við nýsköpunina. Framfarirnar verða of miklar, atvinnan of mikil. Það er svo sem ljóst, hvað Jón Árnason telur rétta stefnu í atvinnumálum. Það er gamla stefna afturhaldsins. Hindra innflutning nýrra og fullkominna atvinnutækja, til þess að vinnuaflið streymi ekki frá þeim atvinnugreinum, sem reknar eru með úreltum tækjum, og þá náttúrlega um leið að lækka kaupið, svo að úreltu atvinnuvegirnir geti borið sig.

Loks bendir Jón Árnason á, að réttast væri fyrir Íslendinga að flytja aðeins lítið af erlendum innstæðum inn í landið, en hefja svo lánastarfsemi erlendis og lána um 400 millj. kr. Slík lánastarfsemi telur hann, að mundi gefa um 12 millj. króna árlega. Það gerir ekkert til, þó að við þurfum að senda sjómenn okkar á veiðar á lélegum og úreltum skipum, eða þó að við höfum litlar sem engar verksmiðjur í landi til að taka við aflanum. Það gerir heldur ekkert til, þó að atvinnuleysið komi aftur, um að gera að atvinnuframkvæmdirnar verði ekki of miklar. Erlendu innstæðurnar skulum við festa í útlánum, það getur gefið Landsbankanum 12 millj. kr. á ári.

Ég hef farið nokkrum orðum um þessa grein vegna þess í fyrsta lagi, að höfundur hennar hefur nú verið ráðinn í eitt allra, þýðingarmesta starfið í sambandi við nýsköpun atvinnuveganna, og í öðru lagi vegna þess, að greinin er nánast stefnuskrá Landsbankans í fjármálum þjóðarinnar. Þessi nýi bankastjóri Landsbankans álítur alla stefnu núv. ríkisstj. banvæna fyrir atvinnulífið í landinu, og segir það sig sjálft, að hann mun beita sér gegn framkvæmd hennar af alefli. Allir þeir, sem unna atvinnuframförum og mestar vonir hafa gert sér um framkvæmdir á nýsköpunarstefnuskrá stj., hrukku við. Ráðning Jóns Árnasonar er hnefahögg framan í alla þá, sem af heilum hug vilja vinna að framkvæmd stjórnarstefnunnar. Það er vitað mál, að þótt leitað sé með logandi ljósi um allar Íslands byggðir, er ekki hægt að finna jafnákveðinn og harðvítugan andstæðing atvinnulegra framfara, einkum á sviði sjávarútvegsins, og Jón Árnason. Jón Árnason hefur verið formaður bankaráðs Landsbanka Íslands um langt árabil, og hann hefur verið einn aðalhöfundur þeirrar helstefnu í atvinnumálum þjóðarinnar, sem Landsbankinn hefur beitt sér fyrir. Með ráðningu Jóns Árnasonar hefur afturhaldið á Íslandi kastað hanzkanum. Fyrir þá, sem af heilum hug vilja vinna að framkvæmd stjórnarstefnunnar, er ekki um annað að gera en taka hanzkann upp og taka upp baráttu fyrir framkvæmd á nýsköpunarstefnuskrá stj., sem Landsbankinn er ákveðinn í að beita öllum sínum kröftum til að hindra.

Ég held, að það sé ekki úr vegi að athuga dálítið nánar, hverjir það eru, sem standa að ráðningu Jóns Árnasonar sem bankastjóra. Það eru í fyrsta lagi Jónas Jónsson frá Hriflu og Hermann Jónasson, sem er varaformaður bankaráðsins. Það er langt síðan þessir tveir menn hafa verið sammála, og það er ekki vitað, að þeir séu sammála um neitt annað en það að reyna að koma núverandi stj. og stefnumálum hennar fyrir kattarnef. Og þeim hefur kannske ekki í annað sinn tekizt betur, þótt enn sé þó eigi séð, hver úrslit verða í þeim leik, sem Landsbankinn hefur nú hafið. — Þá greiddi atkvæði með ráðningu Jóns Árnasonar Jónas Guðmundsson, sem kosinn var á sínum tíma í bankaráð Landsbankans á vegum Alþfl. Loks var það Magnús Jónsson, 1. þm. sjálfstæðismanna í Rvík, sem greiddi atkvæði með Jóni Árnasyni, og var það atkvæði þyngst á metunum. Jón Árnason hefði aldrei verið ráðinn bankastjóri í andstöðu við Sjálfstfl. Eitt nei í fullri meiningu frá Sjálfstfl. hefði þýtt það, að hvorki bankaráði hefði komið til hugar að ráða Jón Árnason né Jóni sjálfum að taka við embættinu. Aðstaða Sjálfstfl. er þannig á Alþ. að hann getur hvenær sem er hindrað afturhaldssegg eins og Jón Árnason í því að verða bankastjóri Landsbankans. — Ráðning Jóns Árnasonar er búin að vera á döfinni lengi, frá því síðastliðinn vetur, og það er ekki vitað, að á öðru hafi staðið til þess að ganga frá ráðningu hans en samþykki Sjálfstfl. En nú liggur það fyrir.

Sjálfstfl. hefur nú á nokkrum vikum ráðstafað tveimur af bankastjórastöðum í Landsbankanum í samvinnu við aðalforingja stjórnarandstæðinga, þá Jónas Jónsson frá Hriflu og Hermann Jónasson, án þess að ræða málið við samstarfsmenn sína í ríkisstj., þó að allir viti, að stefnuskrá stjórnarinnar er óframkvæmanleg, ef fjármálastefna Landsbankans er ekki í samræmi við hana. Á sama tíma, sem þessir furðulegu hlutir gerast í Landsbankanum, gera ráðh. Sjálfstfl. ágreining í ríkisstj, um fjáröflunartill. nýbyggingarráðs til nýsköpunar í sjávarútvegsmálum okkar. Það er ekki óeðlilegt, að það hlakki í stjórnarandstöðunni yfir þessum atburðum, en þeir skulu fá að sjá, að þeir hafa hlakkað of snemma, fylgi þjóðarinnar við samstarfið um nýsköpunina er sterkara en þeir hyggja. — Barátta Landsbankans gegn lánatillögum nýbyggingarráðs og ráðning Jóns Árnasonar sem bankastjóra með atkvæðum fulltrúa sjálfstæðismanna og Jónasar Guðmundssonar, hvort tveggja þetta virðist hlekkir í sömu keðju. Þetta eru allt kerfisbundnar aðgerðir gegn stjórnarsamvinnunni og stefnuskrá ríkisstj.

Það er engin tilviljun, að jafnhliða þessum hernaðaraðgerðum afturhaldsins á Íslandi gegn núv. ríkisstj. og fyrirætlunum hennar hefur verið sett af stað meira blekkingarmoldviðri um málefni Sovétríkjanna og ýmis þeirra ríkja í Evrópu, sem leitazt hafa við að koma á hjá sér sósíalistískum atvinnuháttum eftir stríðið, en nokkur dæmi eru til síðan í Finnagaldrinum fræga. Það er enginn vafi, að þetta er gert af ráðnum hug. Það er ekki áhugi fyrir velferð íbúanna í Sovétríkjunum eða þessum löndum, sem skrifunum veldur, — alveg eins og það var ekki áhugi fyrir velferð Finna, sem olli skrifunum í gamla daga. Þetta moldviðri er aðeins til þess að hylja aðgerðir afturhaldsins. Afturhaldið veit, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar tengir vonir sínar um atvinnu og góð lífskjör á Íslandi, vonir sínar um sjálfstæði og gróandi þjóðlíf, við það, að núv. ríkisstj. takist að framkvæma stefnuskrá sína. Opinberri og greinilegri árás á ríkisstj. og stefnu hennar mundi því verða svarað af þjóðinni sjálfri á viðeigandi hátt. Slík aðferð er því vonlaus. Eina von afturhaldsins er því að villa fólkinu sýn, láta það hugsa um Rússland og Júgóslavíu, Ungverjaland, Búlgaríu, eða hvert annað land sem vera skal, bara ekki Ísland, þá gerir það sér vonir um að koma fram sínum illu áformum, að koma núv. ríkisstj. fyrir kattarnef. Það var almenningsálitið í landinu, það var þjóðin sjálf, sem knúði fram myndun núv. stj. Yfirgnæfandi meiri hluti allra stjórnmálaflokkanna þriggja krafðist þess, að stjórnin yrði mynduð. Nú kemur aftur til, kasta almennings að veita afturhaldinu hæfilega ráðningu, fylkja sér fast um nýsköpunarstefnu stj. og tryggja henni sigur þrátt fyrir andstöðu afturhaldsaflanna, hvar sem þau er að finna.