07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Garðar Þorsteinsson:

Allshn. hefur síður en svo getað komið sér saman um afgreiðslu þessa máls. Hefur frv. verið rætt oftar en einu sinni. Félmn. hefur og haft málið til umr., og á fund n. komu oddvitar úr ýmsum hreppum. Þar mætti líka sýslumaðurinn í Árnessýslu, sem er oddviti sýslunefndar. Reynt var að þreifa fyrir sér um, hvort hægt væri að ná samkomulagi um þetta, nýja hreppsfélag. En það tókst síður en svo. Fyrirsvarsmaður hins nýja hrepps taldi upp þær jarðir, er leggjast ættu undir hreppinn að hans áliti. Oddvitar gripu þá til mótmæla, en oddviti Sandvíkurhrepps hafði þó sérstöðu í málinu.

N. hefur ekki getað orðið sammála um frv. Hv. 2. þm. N.-M. hefur lagt fram brtt. á þskj. 458, og ganga þær að því leyti lengra, að í 1. brtt. er lagt til, að ákveðnar jarðir verði teknar af Sandvíkurhreppi og lagðar til Eyrarbakkahrepps. — Ég og hv. þm. Ak. erum sammála því, að jörðin Árbær sé ekki tekin með og lögð til hins nýja hrepps. Flytjum við brtt. þess efnis á þskj. 465.

Ég og hv. þm. Ak. erum á móti þeirri till. á þskj. 455 að gefa eignarnámsheimild slíka í þessu efni nú þegar, sem er í raun og veru órökstudd, og stendur eins á með hana og aðrar eignarnámsheimildir, sem fram koma hér í hv. d., þar sem engar sérstakar eignir eru nefndar. — Að öðru leyti höfum við ekki orðið samferða í þessu máli, hv. þm. Ak. og ég. Ég hef borið fram á þskj. 524 brtt., sem m. a. breyta frv. á þá leið til bóta, ef samþ. verða, að fella burt það ákvæði, að leggja skuli undir þennan nýja hrepp hluta úr Hraungerðishreppi, þ. e. að hinn nýi hreppur verði aðeins myndaður þannig, að í honum verði þessar jarðir: Selfoss og Hagi ásamt Bjarkarspildu úr Sandvíkurhreppi og Hellir upp að þjóðveginum með Ingólfsfjalli ásamt Fossnesi. Hins vegar hafa hinir nefndarmennirnir, eða a. m. k. tveir þeirra, lagt til, eins og er í frv., að lagt verði land undir hinn nýja hrepp alla leið upp úr, upp í Ingólfsfjall. Og með því móti yrði Ölfushreppur klipptur í sundur. Ég fyrir mitt leyti finn ekki nein rök fyrir því, að hinn nýi hreppur geti ekki látið sér lynda að fá land þannig, að að nafninu til sé þó Ölfushreppur samfelldur, eftir að hin nýju hreppaskipti hafa farið fram. En þetta síðar talda verður sjálfsagt minna ágreiningsatriði en skiptingin úr Hraungerðishreppi. Þau rök, sem hv. meiri hl. n. færir fram fyrir því, að hluti úr Hraungerðishreppi sé lagður undir þennan nýja hrepp, er það, að Mjólkurbú Flóamanna er þar og nokkur byggð í kringum það, sem þeir hv. þm. vilja láta fylgja þessum nýja hreppi, en þessi byggð stendur á nokkrum hluta jarðarinnar Laugardæla. Þeir segja sem svo, að þarna sé orðin allfjölmenn byggð, sem tilheyri raunverulega Selfossþorpi, og þessi byggð þurfi að hafa sameiginlegan barnaskóla með aðal-Selfossbyggðinni, sameiginlegt rafmagn, vatnsleiðslu o. s. frv. Ég sé ekki, að af þessum sökum sé ástæða til að leggja þennan hluta Hraungerðishrepps undir hinn nýja Selfosshrepp, því að vitanlega ráða ekki hreppatakmörk um það, hvernig hagað verður rafleiðslum, vatnsleiðslu og skolpleiðslu í þessu hverfi. Því að ef það nær fram að ganga, sem fyrirhugað er, að raflýst verði sveitaþorp, þá ráða ekki um þær framkvæmdir hreppatakmörk út af fyrir sig. Það er hins vegar framkvæmdaratriði milli þessa nýja hrepps og Hraungerðishrepps, hvernig fjárgreiðslum eigi að vera varið í sambandi við slíkar framkvæmdir, ef þær eru sameiginlegar fyrir báða hreppana. — Og það, sem sérstaklega gerir það að verkum, að ég get ekki fellt mig við, að þessari landspildu sé skipt úr Hraungerðishreppi, er það m. a., að það er upplýst, að tekjur Hraungerðishrepps hafa numið undanfarið að jafnaði 51 þús. kr., en með þessari skiptingu úr Hraungerðishreppi, sem í frv. er gert ráð fyrir, mundu þessar útsvarsgreiðslur rýrna um 17 þús. kr., þannig að hreppurinn mundi þá með einni lítilli löggjöf vera sviptur 1/3 hluta af útsvarstekjum sínum. Og þó að segja megi, að hann eigi að fá þetta á einhvern hátt bætt og koma greiðslur á móti, þá er það víst, að það kemur allt öðruvísi við fyrir hreppinn að mega vaxa bæði að íbúatölu og fjárhagslegri aðstöðu svo sem eðlilegt er á þann veg, að byggðin færist austur á við og hreppurinn þess vegna geti hagað sínum fjárhagsáætlunum í samræmi við það. Þetta og hins vegar það, að hreppurinn er sviptur 1/3 hluta tekna sinna, gerir það að verkum, að mér finnst óeðlilegt, að þessi skipting úr Hraungerðishreppi eigi sér stað.

Ég vil líka benda á það, að þetta mál er ákaflega illa undirbúið. Sýslunefndin hefur ekki haft þá forgöngu í þessu máli, sem henni ber að eðlilegum hætti. Nú er vitað, að samkv. sveitarstjórnarl. frá 1927 er gert ráð fyrir því, að stofnaðir séu sérstakir hreppar, ekki með löggjöf, heldur þannig, að „atvinnumálaráðherra hefur heimild til að skipta hreppi, sameina hreppa og breyta hreppamörkum. . .“ Þar er og gert ráð fyrir, að það sé sýslunefnd og sýslunefndaroddviti, sem fyrst og fremst hafi forgöngu slíkra mála, og hreppsnefndir og oddvitar hreppa komi sér saman um slíkar skiptingar. Þetta liggur alls ekki fyrir hér. Að vísu hefur þetta mál verið tekið fyrir í sýslunefnd, en hún vísaði því frá sér til viðkomandi hreppsnefnda og hreppa. Og það verður ekki séð af því, sem hér liggur fyrir í málinu, að sýslunefndin sem slík eða oddviti hennar hafi gert neinar tilraunir til þess að leysa þetta mál með samkomulagi. Hitt kann svo að vera, að hann telji fyrirfram útilokað, að hægt sé að ná þessu samkomulagi. Um það skal ég ekki segja. En ég hefði talið eðlilegt, að sýslunefnd sem slík hefði þá í annað sinn tekið málið fyrir og kallað til sín fyrirsvarsmenn hreppanna, til þess að vita, hvort ekki væri hægt að brúa þetta bil sem er á milli vilja hreppsbúa í viðkomandi hreppum nú um þetta mál.

Ég tel, að ég með þessu hafi gert nokkra grein fyrir þeirri sérstöðu, sem ég hef í þessu máli. Ég tel ekki, sem sagt, að fyrir félmn. hafi í fyrsta lagi legið þau sjálfsögðu skilríki, sem eiga að liggja fyrir skv. sveitarstjórnarl. um það, að reynt hafi verið að ná samkomulagi innbyrðis af þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli, og að í öðru lagi, þó það væri, og yrði þess vegna að leysa þetta með löggjöf, þá fæ ég ekki séð, hvers vegna löggjafarvaldið grípur inn í eðlilegan vöxt og þróun ákveðins hreppsfélags með því allt í einu að kippa frá því langverðmætasta hluta þess og ætla þannig að svipta það hreppsfélag með einu pennastriki einum þriðja hluta útsvarstekna þess og þar með um ófyrirsjáanlegan tíma hinum sýnilega möguleika á vexti. Því að eins og þeir vita, sem þarna hafa farið um, er þessi vöxtur þorpsins orðinn austur á við og kringum fyrirtæki, sem heitir Mjólkurbú Flóamanna og liggur innan Hraungerðishrepps. Og það er það, sem þessi nýi hreppur er að reyna að leggja undir sig, þetta fyrirtæki, sem að vissu leyti er lyftistöng Hraungerðishrepps. Það er þetta, sem mér finnst annar hreppur vera að reyna að draga ranglega til sín.