07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hygg, að hv. 2. þm. Eyf. sé eins kunnugt um það eins og öðrum hv. þm. hér og sérstaklega hv. félmn., hvers vegna þetta mál er komið hér inn á hæstv. Alþ. Selfossbyggð hefur vaxið upp í þremur hreppum, og sýslunefnd Árnessýslu hefur, eins og allir hv. þm. vita, gert ítrekaðar tilraunir til þess að reyna að koma á samkomulagi um þetta mál heima í héraði. Og ástæðan fyrir því, að þetta mál er flutt hér á Alþ., er sú, að það er sýnt og sannað, að heima í héraði fæst ekki samkomulag um þetta mál með neinum samningum. Til þess að kveða upp úrskurði um skiptingu hreppa eftir sveitarstjórnarl. þurfa að liggja fyrir till. um það frá viðkomandi hreppsnefndum og sýslunefnd, en ella er ekki hægt að kveða upp úrskurð um skiptinguna. Og þetta veit ég, að hv. 2. þm. Eyf. er alveg ljóst. Ekkert slíkt álit hefur getað fengizt frá viðkomandi hreppum, sem hefði náð samþ. sýslun: Og þess vegna er annaðhvort að gera fyrir Alþ. að láta þetta sveitarþorp vaxa upp þarna, án þess að það, hafi möguleika til þess að koma sér upp þeim þægindum, sem þorpum er nauðsynlegt, eða þá, að kveða upp lagaúrskurð í málinu. Úrskurður frá félmrh. um þetta getur ekki verið kveðinn upp, vegna þess að til þess mundi vanta forsendur, sem sé samkomulag eða tillögur frá viðkomandi hreppsnefndum og sýslunefnd: Nú hefur félmn. fengið dálítið sýnishorn af því, hversu létt er að komast að samkomulagi í, þessu máli. Og ég hygg, að hún hafi fengið sömu reynslu og sýslunefnd Árnessýslu, að það er ekki hægt að fá samkomulag um málið heima í héraði. Og þess vegna verður Alþ. að taka í taumana, ef það er ekki ætlunin að láta Selfossbyggðina halda áfram að vaxa upp í þremur hreppum. Og ég hygg, að það verði þeim mun erfiðara sem lengra líður að fá samkomulag um þetta heima í héraði. Vitanlega hefði það verið mjög æskilegt og það væri ákaflega gott, ef hv. þm. sýslunnar hefðu bent á einhverjar leiðir til þess að ná fullkomnu samkomulagi í þessu máli. Og ég treysti þeim til þess að þeir geri það, ef þeir hafa trú á að slíkar leiðir séu til. En ef ekki, þá virðist ekki vera annað fyrir hendi en að Alþ. setji löggjöf um.: Selfossbyggðina. Það er síður en svo æskilegt að þurfa að kveða á um þetta með l. En — hitt er vitanlega algerlega óviðunandi ástand, að þorpið vaxi þarna upp í þremur hreppum og geti ekki haft sína eigin stjórn á þeim málum, sem þorpinu eru sameiginleg.

Af þeim till., sem fyrir liggja til breyt. á þessu frv. hefði ég þó talið, að til samkomulags væri hægt að samþ. brtt. frá hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. Eyf. á þskj. 465, um að láta bæinn Árbæ falla undan ákvæðum frv. En að öðru leyti tel ég ekki rétt að gera á frv. verulegar breyt. Það hefur komið í ljós viðkomandi sjávarþorpum, sem annars er ekki ástæða til að ætla, að lifi neitt verulega á landbúnaði, að þau hafa komizt í vandræði. vegna þess, að þeim hefur verið skammtað of lítið land frá byrjun. Og þetta hefur komið í ljós við svo að segja hvert einasta kauptún á landinu. En hvað mundi þá verða., ef ætti að fara að ákveða sveitaþorpum, sem hljóta að einhverju leyti að byggjast á landbúnaði, ekkert land til afnota fyrir þá, sem það byggja, annað en það, sem húsin standa á í þorpinu? Það er að vísu ekki sennilegt, a. m. k. eins og sakir standa nú, að menn mundu almennt stunda landbúnað þarna í þessu þorpi sér til lífsatvinnuvegar. En allur fjöldi þeirra manna, sem þarna, eiga heima, er aðfluttur úr sveit, og slíkir menn kunna ekki við sig, margir hverjir, nema þeir geti haft a. m. k. einhverja örlitla aðstöðu til landbúnaðar. Enn fremur er vitað, að þeir mundu stunda þann litla landbúnað, sem þeir hefðu í hjáverkum, sér til búdrýginda öllu frekar en að þeir væru með því í nokkurri samkeppni við bændur umhverfis þorpið.

Það hefur verið réttilega bent á það, að með því að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, þá yrði Sandvíkurhreppur skilinn eftir, þannig að þar yrðu ekki eftir nema um 16 bæir. Og ég tel réttmæta þá athugasemd, sem fram hefur komið, að þetta sé í raun og veru of lítið hreppsfélag. Mér hefur dottið í hug í því sambandi og fært það í tal við sýslumann Árnessýslu, og hann hefur lofað að athuga það, hvort ekki væri rétt að sameina Hraungerðishrepp og Sandvíkurhrepp, ef frv. þetta næði fram að ganga. Og ég held, að það væri að öllu leyti hyggilegri úrlausn þessa máls að sameina þessa tvo sveitarhreppa en að fara þá leið, sem hv. 2. þm. Eyf. hefur stungið upp á, að láta part af Selfossbyggðinni halda áfram að vera í Hraungerðishreppi. Það eru uppi ákveðnar óskir þorpsbúa á Selfossi um það að fá þessa skiptingu gerða á landi úr Hraungerðishreppi og það sem allra fyrst. Það liggur fyrir að ráðast í ýmsar framkvæmdir í þorpinu. Og þeim framkvæmdum vilja sveitahrepparnir, sem Selfossbyggð er í, vitanlega hvorki taka ábyrgð á né þátt í kostnaði við þær. Þegar af þessum ástæðum er nauðsynlegt, að þessi skipting fari fram. Öll sveitarstjórn og allar framkvæmdir í Selfossbyggðinni verða örðugri, eins og þegar hefur verið bent á, ef Selfossbyggð er látin vaxa upp í þremur hreppsfélögum. Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að hreppatakmörk mundu ekki verða látin ráða framkvæmdum á rafmagnsleiðslum, vatnsleiðslum og skolpleiðslum, og tók það fram sem sönnun þess, að ekki væri ástæða til að láta þann hluta Selfossbyggðarinnar, sem er í Hraungerðishreppi, fylgja Selfosskauptúni. Nú er það vitanlegt, að litlar líkur eru til, að þessi hluti af Selfossbyggðinni, ef eftir yrði skilinn, fengi þessi þægindi, þannig að ef á að líta svo á, að í þéttbýlinu sé meiri nauðsyn á ýmsum heilbrigðisráðstöfunum en í strjálbýlinu, svo sem bæði vatnsveitum og skolpleiðslum og öðru slíku, þá verður ekki hjá því komizt að láta þennan hluta af Selfossbyggðinni, sem er í Hraungerðishreppi, fylgja með í hinum nýja hreppi.

Nú væri gott að heyra um þetta álit frá þeim hv. þm. kjördæmisins, sem á hér sæti í þessari hv. d., þar sem hann er þessum málum efalaust kunnugastur. En ég geri ráð fyrir því, að þær tilraunir, sem þegar hafa farið fram til þess að ná samkomulagi í þessu máli heima í héraði, sýni, að ekki verði unnt að ráða fram úr þessu máli öðruvísi en með afskiptum Alþ., þó vitanlega hefði verið æskilegast, að um þessi mál hefði getað verið samkomulag innan sveitanna.