18.03.1946
Neðri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Í þessu máli liggja fyrir margar og margvíslegar brtt. Ég tel það mjög óheppilegt, ef afgreiðsla þessa máls verður meir undir tilviljun komin en undir nákvæmri athugun og yfirvegun. Mér þykir ekki ólíklegt, að þeim hv. þm., sem ekki þekkja til, þyki nokkrum vanda bundið, hvernig bezt sé að afgr. málið eftir því sem það liggur nú fyrir hv. deild. Þessu valda m. a. hinar margvíslegu brtt., sem stefna svo að segja sín í hverja áttina. Ég verð að játa, að málið heiman úr héraði er ekki svo undirbúið sem skyldi, hvorki af hreppsnefndum né sýslunefnd. Skv. lögum er til þess ætlazt, að viðkomandi sýslunefnd gefi upplýsingar og tillögur um hreppaskiptingu, en ekki er til þess ætlazt, að hv. Alþ. láti slík mál til sín taka, fyrr en málið hafi verið athugað vel og gaumgæfilega. Ég hygg, að þetta mál sé óljóst, enda sýnir það bezt, hversu margar brtt. eru fram komnar. Brtt. eru gleggsti vottur þess, hversu undirbúningi málsins er áfátt.

Verði Sandvíkurhreppi skipt í tvennt, eins og óskir standa til, en er þó engan veginn ágreiningslaust, er það svo, að sá hluti, sem heyrir til Sandvíkurhreppi, er orðinn svo lítill, að erfitt verður fyrir hreppsfélagið að hafa á hendi fjármál og stjórn sveitarinnar. Og ekki bætir það úr skák, er allmikill hluti bænda vill ekki skiptinguna. Samt sem áður ber að taka tillit til meiri hluta bænda og framkvæma skiptinguna. Að þessu leyti get ég ekki verið sammála hv. 2. þm. N.-M., sem vill ekki skiptinguna. Ég held það verði æskilegast að verða við óskum hreppsbúa.

Þá kem ég að öðrum óskum, hvað bezt sé að taka frá öðrum sveitarfélögum og leggja undir Selfosshreppinn nýja. Hvað snertir Ölfushrepp, hygg ég, að sanngjörn sé brtt. hv. 2. þm. Eyf., þar sem lagt er til, að í Selfosshreppi verði Hellisland upp að þjóðveginum ásamt Fossnesi. Virðist sanngjarnt, að þessi breyt. verði gerð. Það er skiljanlegt, að Ölfushreppi sé lítið um skiptin, sérstaklega þar sem honum hefur áður verið skipt. Var það, þegar Hveragerði varð sérstakt hreppsfélag. En öll aðstaða virðist mæla með þessari skiptingu, og yrði það ekki gert nú, mundi það þó framkvæmt, áður en langt um líður. Viðvíkjandi næstu jörð held ég, að það hafi lítið að segja og ekki ástæða til að auka neitt á gremju eða óvild, og sé því heppilegt að skerða hreppinn ekki meira. Er það ekki brýn nauðsyn. Það er alltaf nokkurs virði að gera ekki meiri ágreining en nauðsyn ber til. — Þá er líka skv. frv. gert ráð fyrir að skerða Hraungerðishrepp, þ. e. a. s. að taka af honum landspilduna við Mjólkurbú Flóamanna með þeim húsum, sem þar eru. Það fólk, sem býr í grennd við Mjólkurbúið, þarf í rauninni ekki að hafa mikið við Selfoss að sælda. Þar skilst mér, að málið sé einna verst undirbúið. Er þar ekkert samkomulag milli hreppsfélaganna. Sýslunefnd hefur ekki fullnægt skyldu sinni. Oddvitar hreppanna hafa talazt við tvisvar um málið árangurslaust. Það er meira en landspildan, sem tekin er af hreppsfélaginu, því að hann missir einnig 1/3 af tekjum sínum með þessari breytingu. Ekki hefur verið athugað, hvernig hægt er að bæta hreppnum þetta upp og hvort hann má blátt áfram við því. Nú er í ráði að leggja rafmagn í kauptúnið. Auðvitað þarf það ekki að standa neitt í vegi, að þetta fólk geti fengið raforku til afnota. Ég veit, að hv. þm. dettur ekki í hug að breyta hreppamörkum, þótt rafleiðsla sé lögð. Hvert sveitarfélag tekur þátt í þeim kostnaði. Engin vandkvæði ættu að verða á því, þótt Hraungerðishreppur yrði í félagi með öðrum sveitarfélögum um kostnað, sem hlýzt af raflögninni. Það er því engin ástæða í þessu máli. Viðvíkjandi öðrum framkvæmdum í byggðarlaginu segir það sig sjálft, að þær verða unnar ásamt nauðsynlegum framkvæmdum, — þótt Hraungerðishreppur sé einn eða aðrir eigi þar í hlut einnig.

Ég hef heyrt því fleygt, að þar sem byggðin hefur færzt austur, væri eðlilegt að breyta hreppamörkunum. Þetta eru vægast sagt léleg rök. Er það þá meiningin að breyta hreppamörkunum eftir því, sem byggðin þéttist? Ég tel varhugavert að ganga inn á þessa braut. Við trúum því, að byggðin eigi eftir að þéttast, og er það þá meiningin að búta gömlu hreppana í sundur? Mér finnst það fjarri lagi, og að því leyti er löggjöfin um þetta orðin úrelt, þar sem heimilt er að skipta hreppnum, þegar byggðin þéttist, ef tiltekin tala fólks óskar þess. Þess vegna tel ég þetta óréttmætt og í alla staði óheppilegt. Hér er einmitt þannig ástatt, og um það er ágreiningur, sem ekki er að undra. Því finnst mér fjarri öllu lagi að gera þessa breyt. nú, betra að bíða seinni tíma, þar til málið hefur verið betur athugað. Með þessum fyrirhuguðu breyt. yrði Sandvíkurhreppur ærið smár, og gæti því vel komið til mála að sameina Hraungerðishrepp og Sandvíkurhrepp í eitt hreppsfélag. En áður en slíkt yrði gert, er betra að rasa ekki um ráð fram og athuga og sjá, hvað bezt er að gera. Alþingi hefur þá skyldu, þegar um slík mál sem þessi er að ræða, að ákveða, hvað skuli vera, en Alþingi á ekki að úrskurða um atriði, sem hreppsfélög greinir á um, ef málið er ekki vel undirbúið, og ég fullyrði, að þetta mál er ekki undirbúið sem skyldi, og sýslunefndin hefur skorazt undan sinni skyldu. Þetta atriði, sem ég hef nú minnzt á, sýnist mér veigamikið.

Hv. 11. landsk. flytur brtt. þess efnis, að allt Laugardælaland verði lagt undir Selfosshrepp. Ég hygg, að hv. þm. hafi ekki gert sér nægilega góða grein fyrir þessu máli, því að það stendur mikill ágreiningur um nokkurn hluta Laugardælalands, sem leggja á undir Selfosshrepp, hvað þá heldur, ef farið væri fram á allt Laugardælaland. Ég held, ef honum væru mál þessi kunnug, að hann hefði ekki gert sér leik að því að henda þessari sprengikúlu inn í málið. Ég geri ráð fyrir, að í rauninni óski hann ekki eftir, að blásið sé á meiri eld í þessu máli, en brtt. hans stefnir einmitt í þá áttina. Þess vegna vil ég vinsamlega skora á flm. að taka brtt. sína aftur.

Þá hefur hv. 2. þm. Rang. borið fram brtt., er mælir svo, að Mjólkurbú Flóamanna skuli undanþegið útsvarsskyldu. Mér skilst, að hv. þm. óttist, að Mjólkurbúinu kunni að vera íþyngt um of, ef útsvar verður leyft. Þetta hefur tilheyrt Hraungerðishreppi, og engin kvörtun hefur komið, að fólkinu hafi verið íþyngt með ósanngjörnum og háum sköttum. Ég vil taka þessa brtt. þannig, að ef breytingin kemst á, megi búast við, að Mjólkurbúinu verði íþyngt um of. Ég vil ekki spá neinu um það, sem framtíðin kann að geyma í skauti sínu. Hvað sem því líður, hygg ég, að bezt sé að gera ekki þessa breytingu og hafa Mjólkurbúið innan þess hrepps. sem það er nú. og eiga ekki neitt á hættu, hvað þessa breyt. snertir. Ég vil því mega vænta þess, að hv. 2. þm. Rang. (IngJ) haldi brtt. sinni ekki fram, bæði vegna þess að sveitarfélagið er ekki við því búið, að svona mikið rót verði á því allt í einu, og í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á það, að það kann að vera nokkuð varasamt að ákvarða fyrir þessa stofnun slíka breyt. sem hér um ræðir, því að hætt er við, að slíkt dragi þann dilk á eftir sér, að komið yrði fram með slíkar til fyrir sams konar eða svipaðar stofnanir, og efast ég um, að það væri svo æskilegt að hleypa slíkri skriðu af stað. Nú vitum við, að þessi félagsskapur og annar sambærilegur honum nýtur sérstakra ívilnana í skattalöggjöfinni, og ef ætti að fara að framkvæma þetta þannig, að undanþiggja þessar stofnanir þeim gjöldum, sem sveitarfélögin þurfa venjulega á að halda, þá tel ég, að slíkt gæti orðið til þess, að heildarlöggjöfin um þessi efni yrði upp tekin og henni breytt í það horf sem okkur væri hvorki hagfellt né æskilegt, því að við getum ekkert vitað um það, ef slík mál eru tekin upp og farið að vinna að þeim, hverjar afleiðingar slíkt kunni að hafa hér á Alþ., en meðan ekkert sérstakt ýtir undir að gera breytingar á þeim, þá býst ég við, að sanngjarnir menn kæri sig ekki um að stuðla að slíkum breyt. á þessari lagasetningu. Þess vegna er það einmitt von mín, að hv. þm. vilji stuðla að því að gera ekki breyt. hvað áhrærir hreppamörkin að austanverðu og haldi brtt. sinni ekki fram að þessu sinni. Við frekari athugun á þessu máli og öðrum gæti komið til greina heppilegri lausn á þessu atriði en með þeirri lagasetningu, sem hann flytur nú till. um. Ég vænti að hv. þm. stuðli að því, að sú ein breyt. verði gerð þarna, að ekki þurfi að óttast neinar breyt. hvað áhrærir skattalöggjöfina fyrir þessar stofnanir nú á næstunni, a. m. k. ekki í þetta sinn.

Þá flytur hv. 11. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. brtt. um það, að eftir gildistöku l. hafi hin nýja hreppsn. heimild til eignartöku. Ég held, að það sé mjög varhugavert að hafa þarna eða annars staðar svo skýlausa eignarnámsheimild, að þar séu engin takmörk sett, þannig að enginn geti verið óhultur um eignir sínar. Álít ég mjög óheppilegt að innleiða slíkt.

Niðurstaða mín gagnvart þessu máli er þó sú, að ég tel — eins og allir málavextir eru og málið liggur fyrir —, að langsamlega æskilegasta lausnin og sú mildasta gagnvart því fólki, sem hér á hlut að máli sé að fallast á brtt. hv. 2. þm. Eyf. Ég sé af þeim, að hann hefur ætlað að reyna að koma fram höfuðatriðunum samkv. óskum þeirra, sem búa við Selfoss, en jafnframt farið svo vægilega í sakirnar gagnvart grannahreppunum, að menn geta nokkurn veginn látið sér lynda. Ef mönnum þykir nauðsyn til síðar meir að gera frekari umbætur á þessu máli, má svo taka það upp að nýju og leysa á þann sanngjarnasta hátt sem unnt er. Ég sé að hv. 2. þm. Eyf. hefur borið fram brtt. við brtt. sínar á þskj. 562, sem er eiginlega leiðrétting, en þó eigi að síður nauðsynleg. Með slíkri afgreiðslu á málinu eins og hv. 2. þm. Eyf. leggur til, er séð fyrir þörfum kauptúnsins góða stund og nágrannahreppunum sýnd sanngirni, eftir því sem unnt er. Það atriði sem hann skágengur og miklu varðar fyrir Hraungerðishrepp, er látið óútkljáð í bili, og fer betur á, að það verði látið bíða eftir því, að athugað verði nánar um skiptingu Sandvíkurhrepps hins forna og Hraungerðishrepps, og tel ég gerræði, ef breyt. á Hraungerðishreppi verður gerð svona skyndilega, að málinu ekki betur undirbúnu af hálfu Alþ. en það nú liggur fyrir.

Ég vil því vænta þess, að hv. d. samþ. brtt. 2. þm. Eyf. og málið verði frá henni afgr. í þeim búningi.