18.03.1946
Neðri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Hér hefur verið talað um milda lausn á málinu. Ég vil spyrja: Handa hverjum? Það er ekki deilt um það, að Selfossbúar þurfa hreinlætisaðgerðir og skólamál í gott stand. En allir þeir 82 menn, sem búa í Hraungerðishreppi, hafa óskað eftir því að vera með Selfosshreppi. Er þetta því ekki mild aðferð gagnvart þeim. Þeir greiða 17 þús. kr. útsvar, og það vill ekki Hraungerðishreppur missa. Þeir hafa undanfarna vetur sett börn sín í skóla á Selfossi, en ekki til Skeggjastaða. Hér er því um að ræða, hvort menn vilja meta meira eindregnar óskir þessara 82 manna, sem óska að sameinast Selfosshreppi, eða óskir hinna íbúa Hraungerðishrepps, sem ekki vilja missa 17000 kr. útsvör frá íbúunum í Hraungerðishreppshluta Selfossbyggðarinnar. Hvað snertir sneiðina af Ölfushreppi, þá er það að segja, að þar eru 12 hús og 71 maður. Allir þessir menn vinna í Selfossbyggð, og þótt Ölfushreppur hafi lagt á þá útsvar, þá hafa þeir haldið eftir 1/3 sem hluta heimilisútsvars. Það liggur opið fyrir, hvað Ölfushreppur og Hraungerðishreppur tapa miklu, ef þessir menn sameinast Selfossi. Ég held, að þótt núna væri skotizt undan að gera upp á milli Hraungerðishrepps og Selfoss, þá verði enn erfiðara að gera það seinna. Því sjái Hraungerðishreppur eftir 17 þús. kr. nú, mun hann sjá enn meira eftir þeim seinna, enda yrðu þau þá fleiri, eftir því sem byggðin ykist. Ég tel tvímælalaust, að það ætti að láta þetta fólk úr 3 hreppum fara saman í einn hrepp.

Ég lít svo á, að greinilegt sé, að þar sem fámennir hreppar eru, þá eru þeir getulausir. Það hefur líka þegar komið á daginn, er Sandvíkurhreppsbúar senda börn sín í skóla í Selfossi og vilja fá að gera það áfram, þótt hreppnum verði skipt.

Hæstv. ráðh. bar hér fram fyrirspurnir til form. nefndarinnar. Hann er ekki hér í deildinni, og skal ég því svara honum, ef hann vill. Mjólkurbúið í Flóanum er samvinnufélag, það vita allir, það á eignir og borgar því útsvar af þeim. Hvar það er borgað, skiptir ekki svo miklu máli. Samvinnufélög borga skatta eins og aðrir af eignum sínum og tekjum. Ég sé ekki annað en bráðnauðsynlegt sé, að þetta frv. verði samþ., ég sé ekki heldur, að það sé nauðsynlegt að taka tillit til þeirra manna í hreppunum, sem hafa mælt gegn frv. Það má geta þess, að þorp, sem á að byggjast upp á landbúnaði, þarf að hafa allmikið landrými innan sinna takmarka. Ég er ekki viss um, að ég hafi gert rétt í því að láta Árbæ vera í Ölfushreppi, ég var að milda frv. En Árbær er eign manna, sem búa á Selfossi. Ef sú eignarnámsheimild á þskj. 455 verður samþ., þá á Árbærinn allur að verða í Selfosshreppi. Verði hún ekki samþ., skiptir það minna máli. Ég álít, að ekki eigi að skipta Sandvíkurhreppi.

Það segir sig sjálft um svona stórt þorp, sem lætur sig dreyma um að bora eftir heftu vatni og koma á hitavatnsleiðslu um þorpið, ætlar að leggja vatnsleiðslur, skolpræsi og rafmagn, að þar þarf heildin að taka. lán og standa saman, vera eitt hreppsfélag.