19.03.1946
Neðri deild: 90. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál, sem hefur verið lengi á dagskrá í hv. d. og ekki komið lengra áleiðis en orðið er. Ég á hér litla brtt. á þskj 497. Hæstv. félmrh. varpaði þeirri spurningu fram, hvort Mjólkurbú Flóamanna væri ekki samvinnufélag. Og ef það væri samvinnufélag, taldi hæstv. ráðh. till, mína óþarfa. Ég veit ekki, hvaða hugmyndir hæstv. ráðh. hefur um samvinnufélög. En það lítur út fyrir, að hann álíti, — að öll samvinnufélög séu útsvarsfrjáls eftir þeim l., sem þau nú starfa eftir. Ef þetta er skoðun hæstv. ráðh., þá er þetta misskilningur. Mjólkurbú Flóamanna hefur greitt útsvar síðustu árin, og svo mun vera um önnur samvinnufélög. Mjólkurbú Flóamanna, sem er byggt 1929, gerði samning við hreppsnefnd Hraungerðishrepps um það, að mjólkurbúið skyldi vera útsvarsfrjálst í næstu 10 ár, ef það yrði byggt í Laugardælalandi. Mjólkurbúið var útsvarsfrjálst fyrstu 10 árin, sem það starfaði, eða til 1939, en síðan hefur verið lagt á það útsvar af Hraungerðishreppi. Nú er ekki nema sanngjarnt, að mjólkurbúið, sem skiptir öllu upp á milli félagsmanna sinna, verði útsvarsfrjálst. Og ég tel enga hættu felast í því, þótt önnur hliðstæð fyrirtæki, t. d. mjólkurbú, kæmu á eftir og yrðu útsvarsfrjáls. Mér virtist hv. 1. þm. Árn. telja það gæti stafað af því hætta, ef önnur hliðstæð fyrirtæki, sem ekki eru mörg hér á landi, kæmu á eftir og fengju undanþágu frá útsvarsgreiðslu. Ég tel, að ekki stafaði af því hætta, þótt svo færi. Það er öðru máli að gegna með mjólkurbúin en kaupfélögin. Þau borga útsvar á tvennan hátt. Í fyrsta lagi af eignum sínum og í öðru lagi af veltu utanfélagsmanna, sem verzla við þau. Um hreinan tekjuafgang er ekki að ræða frá mjólkurbúi eins og hjá kaupfélögunum. Ég held það sé nokkuð hliðstætt mjólkurbúið og t. d. bankinn á Selfossi, sem starfar við hliðina á því. Ekki þarf hann að greiða útsvar. Það er stofnun, sem starfar fyrir almenning eins og mjólkurbúið, sem undir þessum kringumstæðum starfar fyrir 3 sýslur. Ég held líka, að það yrði sársaukaminna fyrir Hraungerðishrepp, ef það er víst, að hið nýja hreppsfélag, Selfosshreppur, hafi ekki tekjur af því. Það væri þá ekki við neinn að öfundast um útsvar mjólkurbúsins. Annars er þessi till. mín náttúrlega ekki neitt stórmál, en ég tel, að Alþ. beri að samþ. hana af þeim ástæðum, sem ég nú hef nefnt.

Ég hlustaði á ræðu hv. 1. þm. Árn., þegar hann var að tala um skiptin á arðinum. Hv. þm. mælti fátt um brtt., sem hv. 2. þm. Eyf. hefur borið fram á þskj. 524. Ef þessi till. hv. 2. þm. Eyf. yrði samþ., þá yrði Selfossþorp skorið í sundur og mjólkurbúið yrði áfram í Hraungerðishreppi. Og það er það, sem stefnt er að með till. Nú vill svo til, að það er orðin samfelld byggð frá hinni gömlu Selfossbyggð og austur að mjólkurbúi, og ég held, að betra sé að láta ógert að gera nokkuð í þessu máli en draga hreppamörkin milli mjólkurbúsins og hinnar gömlu Selfossbyggðar. Það er mjög óþægilegt fyrir þorpið, ef það er skorið svona í sundur. Slíkt þorp mun eiga svo margt sameiginlegt, að það hlýtur að skapa mikil óþægindi. Mér er kunnugt um, að það hefur verið lagt sameiginlega í kostnað við vatnsveitu, varðandi rafveitu, barnaskóla o. s. frv., það sem þeir hljóta að eiga sameiginlega og nota í sameiningu, hvort sem þarna er um að ræða eitt hreppsfélag eða ekki. Ég lít svo á, að það sé mjög handhægt að verða við óskum Selfossbúa og skipta hreppnum og draga línuna þannig, að Selfossþorpið verði eitt hreppsfélag, en þá er það óhjákvæmileg nauðsyn að taka sneið af Laugardælalandi.

Mér finnst till. hv. 2. þm. N.-M. að mörgu leyti sanngjörn, og hef ég tilhneigingu til að fylgja henni í aðalatriðum. Ég tel þó, að það sé eitt í þeirri till., sem ekki sé hægt að fallast á, og það er það að innlima bændur í Sandvíkurhreppi inn í Selfosshrepp, hvort sem þeir vilja eða ekki. Ég vil, að bændurnir í hinum gamla Sandvíkurhreppi eigi að geta ráðið því sjálfir, hvort þeir hafi sérhrepp eða verði í hinum nýja Selfosshreppi. Ef till. er samþ. óbreytt, þá eru Sandvíkurhreppsbúar innlimaðir í Selfossþorp, hvort sem þeir vilja eða vilja ekki,

Um það, hvað mikið land skuli tekið af Ölfushreppi undir hinn nýja Selfosshrepp, má deila. Það er eðlilegt, að Ölfushreppur vilji sem minnst land missa. Ég held, að sanngjarnt sé að ganga ekki meira á Ölfushrepp en nauðsynlegt er fyrir hinn nýja Selfosshrepp og reyna að gera þetta sem sársaukaminnst fyrir bændur fyrir vestan ána.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira. Vil ég þó aðeins taka það fram vegna ummæla hv. 1. þm. Árn. út af till. minni um, að mjólkurbúið yrði útsvarsfrjálst, að ég flyt þá till. ekki vegna þess að ég óttist, að hinn nýi Selfosshreppur þrengi svo mjög að því í útsvarsálagningu, því að vitanlega verður lagt útsvar á það eftir föstum „skala“, sem samvinnul. heimila hverju sinni. Það ætti að vera óþarfi að taka það fram, að till. nær aðeins til mjólkurbúsins sjálfs, en ekki til starfsfólksins. Ég held ég hafi skilið hv. 1. þm. Árn. þannig, að það væri vafi á því nema þessi till. næði jafnt til starfsfólks fyrirtækisins, en eins og till. er orðuð, getur enginn vafi leikið á því, að hún snertir aðeins fyrirtækið, en ekki starfsfólkið.

Ég óska svo, að þessi till. mín verði samþ. Ég tel eðlilegt, að þetta mál verði leyst þannig, að Selfossþorp verði hreppur út af fyrir sig og allt þorpið verði í einu hreppsfélagi, en sú afgreiðsla verði ekki viðhöfð að hluta þorpið sundur í tvo hreppa.