19.03.1946
Neðri deild: 90. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Mér hefur virzt lítið á því að græða, sem komið hefur fram í ræðum í þessu máli síðan ég talaði hér seinast. Ég ætla þá að byrja á öfugum enda varðandi það, sem fram hefur komið, af því að það liggur næst mér, sem hv. 2. þm. Rang. segir. Og ég þarf ekki heldur að eyða svo mörgum orðum að því.

Skoðanir eru skiptar í málinu, og allt er í mesta glundroða með það í þinginu. Undirbúningur málsins er miklu lakari heima en hann hefði getað verið og skylt er samkv. því, sem lagastafurinn gefur tilefni til og venjur, sem ríkja í þessu máli. Fyrir fram er engin leið að sjá, hvaða afgreiðslu málið fær. Innan n. eru skoðanir ákaflega skiptar um, hvaða stefnu skuli hafa í málinu, eins og till., sem nm. hafa komið með, bera vitni um, því að þær ganga í ýmsar áttir, hver á móti annarri.

Hv. 2. þm. Rang. þarf ég ekki að svara mörgu. Hann talaði um, að ef farið yrði eftir till. hv. 2. þm. Eyf., séu þorpin skorin í sundur með slíku. Þetta er skrýtið tal. Þorp er byggt upp í tveim hreppum, hreppamörkin liggja milli þessara hverfa, sem myndazt hafa kringum Flóabúið. Það fólk, sem þar býr, vinnur allt við þá stofnun, og í öðrum hreppum eru kauptún, miklu stærri og fjölmennari. Það er því ekki verið að skera í sundur þorpið, þó að þau hreppamörk séu látin standa, sem nú eru. Það er verið að skera í sundur byggðina í sveitunum með því að taka Flóabúið með þeirri byggð, sem þar er, ef þetta frv. nær fram að ganga. Þetta er því rangmæli hjá hv. þm. Þessu á að snúa við. Hitt er svo annað mál, hvort þetta er sjálfsagður hlutur, vegna þess, hvernig háttar um byggð þá, sem hér um ræðir: En eftir þessum rökum ætti að leiða að því, ef byggð kæmi upp þar í öllum hreppsfélögunum, sem nærri eru kauptúnum, að þá mætti hún ekki standa í sínum gamla hreppi, heldur yrði að leggja hana undir þá byggð, sem fyrir er og getur talizt þorp. Eftir því ætti svo að dansa með hreppamörk í landinu. Ég get í þessu sambandi svarað hv. 11. landsk., því að hann veik að mér, að ég gæti fallizt á, að Sandvíkurhreppi yrði skipt, en ég vildi ekki fallast á, að byggingarhverfin kringum Flóabúið væru tekin, og stæði þó eins á. Ég þarf víst ekki að benda honum á, að þarna stendur gersamlega ólíkt á, og það hefði hann átt að athuga. Það stendur ekki á sama, hvað mannmargt er eða hvern rétt menn eiga á því. Selfossbúar hafa lög að mæla, því að þeir óska að fara í eitt hreppsfélag. Eftir þessari löggjöf eru þeir nógu margir til þess að óska eftir því að bera þá kröfu fram og fylgja henni eftir. Sama gildir ekki um hina. Það er ekki nema brot, sem er í byggingarhverfunum kringum Flóabúið, svo að þeir geta ekki borið fram slíkar kröfur um að fara í slíkt félag. Þar í liggur munurinn. Þá vænti ég, að þessi hv. þm. sjái, hvað hann hefur skakkt fyrir sér í þessu, að þarna standi eins á. Hitt er annað mál, ef fólkið, sem býr í þessu hverfi, óskar eftir að mega sameinast þessum nýja hreppi, sem er í ráði að stofna, Selfosshreppi. Það er annað mál. Þeir eiga heimild til þess, og við því er ekkert að segja. Og það er skiljanlegt, að fólk kunni að óska eftir því. Ég legg ekki mikið upp úr því, þó að nokkrar undirskriftir hafi komið, það er ekki alltaf erfitt að fá þær, og sennilega ætti að athuga það mál meira en frá einni hlið. Ég veit annars ekki, hvernig menn fara að því að komast að þeirri niðurstöðu, að endilega þurfi að vera kauptún til þess að hreinlætis sé gætt, skolpleiðslur, vatnsleiðslur o. s. frv. Það er ekki álitið annað en sjálfsagt, að menn nái í gott vatn, hafi rafmagn o. s. frv. En jafnan er eins og gert sé ráð fyrir því, þegar um sveitirnar er að ræða, þótt þéttbýlar séu, að þessir hlutir séu ekki með. Eftir öllum rökunum hjá þessum ræðumönnum er ekki hægt að fá annað en í hvert skipti sem einhver byggð sé komin, verði að leggja hana undir kauptún, því að sveitabæir megi þeir ekki vera. Ég veit ekki til, að íbúar Hraungerðishrepps hafi neitað fólkinu um þau hlunnindi, sem því eru nauðsynleg, að hlynna að því, útvega því rafmagn og hafa skóla fyrir börn sín, og það er heimska að halda því fram, að þó að börn manna úr Hraungerðishr., sem vinna við mjólkurbúið, gangi í skóla á Selfossi, sé fyrir þær sakir nauðsynlegt að breyta hreppamörkum. Ég gæti trúað að þar, sem hagfellt er, yrði því þannig fyrir komið í framtíðinni með ýmsar skólabyggingar, að tvær eða jafnvel fleiri sveitir standi að skólunum. Svo að þessi mál er hægt að leysa og láta fólkinu í té, þó að ekki séu gerð hreppamörk.

Ég skal nú fara fljótt yfir sögu. Hv. 2. þm. Rang. minntist á það, að ekki væri ástæða til að innlima bændur í Sandvíkurhreppi, og gerði hann það að umtalsefni, þegar hann minntist á till. hv. 2. þm. N.-M. Það er ekki verið að tala um að innlima þá, sem eru í Sandvíkurhreppi. Það er verið að tala um að skipta á þessum hreppum og láta að óskum þeirra að verða sérstakur hreppur, þannig að þeir þurfi ekki að vera áfram með kauptúninu. En ég verð að segja, að þar sem byggð virðis,t þarna lítil, er þetta hæpin ráðstöfun, að 15 eða 16 bæir eigi að mynda eitt hreppsfélag. Það yrði dýrt og ekki ráðlegt. Og ef Alþ. fellst á þessa hugmynd án þess að fá málið betur undirbúið, þá sýnir hæstv. Alþ. enga forsjálni í þessu máli. Það verður að leita annars, finnst manni, ef þetta á að ganga svona fram eins og einna mest er talað fyrir því nú, til þess að það sýni nokkuð meiri forsjálni. Ég hafði haldið, að einmitt vegna þess, hve málið er illa undirbúið að heiman, hve lítil samtöl hafa átt sér stað milli þessara manna, sem málið snertir, hefði Alþ., ef það vill afgr. málið nú í einhverri mynd, átt að gera það á þann vægilegasta hátt og taka ekki málið til fullnaðarúrslita fyrr en betur hefði verið leitað eftir samkomulagi í byggðarlaginu heima fyrir, og síðan taka til sinna ráða. Þá liggur þetta mál miklu ljósara fyrir þm. til þess að taka sínar ákvarðanir en nú. Raunar má vera, að einhverjir þm. hafi svo litla ábyrgðartilfinningu, að þeir telji einskis vert, þó að með nokkrum peningastyrk sé eitt hreppsfélag svipt, 1/2 tekna sinna. Að því er stefnt með þessu frv., eins og talað er fyrir því. Og ég efast um, að kauptúnabúum, sem við þessu eiga að taka, þessari stofnun og þeirri tekjulind, sem hún er, sé greiði gerður með þessu, í fullri óþökk þeirra, sem að því standa, og í miklum ágreiningi og lítið gert til þess að jafna hann. Ég a. m. k. vil enga ábyrgð bera á því. Það er síður en svo, að ég vilji vera á móti þeim, sem í kaupstöðum búa. En þetta gæti bara orðið til þess að gera þeim, sem þeir þykjast vilja gera gagn, hið mesta ógagn, en það er þeirra, en ekki mitt.

Ég get farið fljótt yfir ýmislegt það, sem hér hefur komið fram hjá öðrum hv. ræðumönnum, því að ég hef enga hvöt til að tefja, að þetta mál komi hér til atkvæða. Slíkt hefur mér aldrei komið til hugar. En ég vildi bara gera mitt til, að í hóf væri stillt um afgreiðslu og ekki með offorsi rekin afgreiðsla málsins.

Hv. 2. þm. N.-M. taldi fjárskiptin mjög einfalt atriði. Yrði það bara eftir mati og lægi þá alveg ljóst, fyrir. En ef þetta er svo einfalt mál og liggur svo opið fyrir og ekkert frekar, sem kemur til greina um slík skipti, hvers vegna ætli hinn aðilinn sækist þá svona fast eftir þessu byggðarhverfi, ef ekki væri annað í því fólgið ? Þetta er vitanlega mesta fjarstæða. Þetta er fyrir framtíðina, og það, sem menn hafa í huga, það getur orðið nokkuð annað atriði en á því augnabliki, sem skiptin fara fram. Það sjá menn, og það er því ekki lítilsvert, hvernig þetta er gert. — Svo lýsti hann yfir því, að hann gæti verið með eignarnámi, og er það mál út af fyrir sig. Hann talaði um að hafa Sandvíkurhrepp allan í einu hreppsfélagi, og þetta eignarnámsákvæði nær þá auðvitað til allra mannvirkja í hreppnum, vitaskuld. Og honum hrýs ekki hugur við því, að allir geti átt von á því á morgun, að eignaumráðin. séu af þeim tekin, því að hreppsnefndin getur tekið það, sem henni sýnist, þar sem Alþ. var svo hugulsamt að veita þetta vald, og þarf hreppsnefndin ekki að gera neina grein fyrir því. Þetta er einfalt, og honum fannst það ekki vera mjög óaðgengilegt. Náttúrlega er honum frjálst að hafa sína skoðun, og skal ég ekki eyða löngum tíma í að ,tala um það.

Það er eitt atriði, sem ég átti ósvarað hv. 11. landsk., annars hef ég svarað því, sem hann talaði um, með því, sem ég hef nú sagt. Þetta atriði var skipulagning byggðarinnar. Ég hef áður vikið að því í þessum umr., að mér finnst meir en tími til þess kominn, að löggjöfin, sem fjallar um þessi mál, sé tekin til endurskoðunar og það sem fyrst. Það atriði er vissulega þess virði, að það sé tekið til athugunar, og skal ná jafnt til sveita eins og kauptúna, og það er of seint að gera það, þegar byggðin er orðin svo og svo mikil. Svo að þátt Flóabúið sé tekið og sameinað kauptúninu, þá, leysir það ekki þetta mál. Þetta vona ég, að hv. þm. skilji. Löggjöfinni um þessi efni þarf að breyta og koma inn nýjum ákvæðum, sem eiga ,jafnt við í þorpum sem til sveita. Skal ég sv~ ekki fjölyrða um það.

Hæstv. dómsmrh. fannst, eftir því sem hann sagði, ég tala nokkuð loðið í þessu máli. Ég hélt þó, að ég hefði talað svo skýrt, að enginn gæti um það villzt, hvað ég átti við, ef menn á annað borð vildu skilja það. Ég vil ekki ásaka hæstv. ráðherra, þó að frv. þessu sé mjög áfátt. Það eina, sem mætti að því finna frá hans hálfu, er, að hann skyldi ekki koma auga á það, að mál þetta mundi þurfa meiri undirbúning, áður en frv. væri lagt fram. En bezt vitni um þann undirbúning, sem frv. þetta hefur fengið, ber sú n., sem hefur það til meðferðar. Þessi n. hefur gefið út tillögur, hún veit víst ekki sjálf hvað margar, sem ganga hver í sína átt og eru hreinustu andstæður. Hvers vegna er þetta? Vegna þess að málið er ekki undirbúið og frágangurinn á frv. þannig, að n. finnst ekki gerlegt, að ganga frá því í því formi, sem það er í.