27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. landsk. þm., að ekkert hefur komið fram um það atriði hér, sem hann spyr um, og er það bara yfirsjón, að það hefur ekki komið fram. En umtal hefur verið um þetta milli sveitarstjórna þessara hreppa beggja. Eyrarbakkahreppur hefur átt þessar jarðir, ég held svo áratugum skiptir, og notað jarðirnar. Og Eyrbekkingar hafa sagt mér, að samkomulag hefði verið um það, að þeir fengju þessa torfu, sem þó aldrei hefur komizt í framkvæmd. Og nú, úr því verið er að breyta hreppatakmörkum m. a. Sandvíkurhrepps, óskuðu þeir eftir, að þessi breyt. á hreppatakmörkunum yrði tekin með í þá lagasetningu. Og mér sýnist, þar sem málið liggur þannig fyrir og ekki er um meira að ræða, þá sé gott að skipa þessu nú í l. Og ég tek trúanleg ummæli Eyrbekkinga um það, að Sandvíkurhreppsbúar geri ekki ágreining um þetta nú, þó að þetta hafi ekki komizt í framkvæmd fyrr.