27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég get fallið frá orðinu, ef aðrir vilja gera hið sama. Hv. 11. landsk. vildi halda því fram, að brtt. væri til batnaðar. Mér virðist sem svo sé ekki, og rök eins og þau, að fólkið í hverfinu geti ekki fengið vatnsleiðslur, skolpleiðslur og rafmagn, hvort sem það tilheyrir þorpinu eða ekki, eru engin rök frá mínum sjónarhóli. Fjárhagslega aðstaðan er aðalatriðið, og ef hún er trygg, þá er málið allt annað. Ég veit að 11. landsk. þm. vill eins og ég, að lagastafurinn um þetta atriði verði sem skýrastur.