26.04.1946
Efri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Eiríkur Einarsson:

Ég vildi spyrja hæstv. forseta, vegna þess að þessi skrifl. brtt. er komin fram við 3. umr. og flm. hennar er hér ekki við, hvort gerlegt er annað en fresta umr., svo að flm. eigi kost á að mæla fyrir henni. Ég veit ekki, hvort flm., hv. 6. þm. Reykv., er í húsinu eða ekki. (ÞÞ: Hann er ekki í húsinu. Það var ekki ætlun mín, að nein brtt. yrði flutt við þetta frv. nú við 3. umr., ekki vegna þess, að ekki sé eitthvað í því, sem betur mætti fara; ég hefði gjarnan viljað flytja brtt. við það, en hins vegar sá ég mér ekki fært að gera það, þar sem svo mjög er áliðið þingtímans, ef það gæti frekar orðið til þess, að það dagaði uppi í þinginu.

Hins vegar vil ég taka það fram, að ef útlit verður fyrir, að brtt., sem koma fram nú, tefji ekki frv., þannig að það nái fram að ganga, þá hefði ég óskað þess að bera fram brtt., en er þá líka fús til þess að taka hana aftur, ef sýnt verður, að hún hindrar það, að frv. nái fram að ganga.

Það, sem fyrir mér vakir, að betur færi, að breytt yrði í frv., er það, eða réttara sagt skeytt við það, að Sandvíkurhreppur, bændasveitin, eins og hún nú er afmörkuð í frvgr., yrði fyrst um sinn í órofnum tengslum við Selfossbyggð, en ætti kost á því síðar, ef hún vildi, að fá því breytt og gerast sjálfstætt sveitarfélag eins og frvgr. gerir ráð fyrir.

Ég ber þetta fram ekki alveg út í bláinn, heldur vegna þess, að við athugun á málinu heima fyrir í Sandvíkurhreppi og á Selfossi, og þó sérstaklega meðal bændanna í Sandvíkurhreppi, hef ég orðið þess var, að þeir hafa við þá athugun komizt að þeirri niðurstöðu, að það muni vera í bili ekki eftirsóknarvert að skiljast við Selfossbyggðina. Mér þykir sennilegt, að það sé meiri hl. búenda í Sandvíkurhreppi, sem vildu þetta.

Þetta mál hefur alveg nýverið skýrzt fyrir mér og þeim, sem þarna eiga hlut að máli. Ég vil því láta brtt. mína, sem að þessu lýtur koma fram. Brtt. er á þessa leið, að aftan við frv. bætist: „Sandvíkurhreppur, að undanskilinni Flóagaflstorfunni, sbr. 2. gr., skal fyrst um sinn vera í órofnu hreppsfélagi við hinn nýja Selfosshrepp um öll réttindi og skyldur eins og sama hreppsfélags. Æski meiri hluti búenda á því svæði, er telst til Sandvíkurhrepps samkv. ákvæðum laga þessara, síðar að gerast sjálfstætt hreppsfélag og slíta tengsli við Selfossbyggð, skal heimilt að gera svo með 6 mánaða fyrirvara, áður en skipting hreppsfélaganna kemst til framkvæmda. Þegar til þessara hreppaskipta kemur, skulu ákvæði 1. þessara gilda um bætur og annað; er varðar skiptinguna, ef þar yrði um ágreining að ræða.“

Þessi brtt. er í samræmi við ósk forráðamanna og búenda í Sandvíkurhreppi. En þó að ég leggi þessa brtt. fram nú, mun ég, ef brtt. hv. 6. þm. Reykv. verður felld, ekki láta þessa brtt. eina fara til breyt. á frv., ef hætta gæti verið á því, að það dagaði þess vegna uppi í þinginu vegna þess, að það þyrfti að endursenda það til hv. Nd.