26.04.1946
Efri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (3340)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Eiríkur Einarsson:

Ég vildi aðeins taka það fram í sambandi við þessa skrifl. brtt. frá hv. 7. landsk., að hún er svona tiltölulega nokkuð stórbrotin, þar sem hún lýtur að því að skeyta við Selfosshreppsfélag tveimur stórum jörðum. Ég get nú vel trúað því, að þegar fram í sækir og Selfosskauptún magnast enn meir en orðið er, því að það er í örum vexti, þá eigi þetta við og verði nauðsynlegt að afla sér langtum meira landrýrnis en orðið er. En á hitt ber að líta, að þeir Selfossbyggjar heima fyrir hafa ekki sjálfir að svo stöddu óskað eftir svona miklu, ekki verið svona stórbrotnir um landvinningastefnu. Þó að þeir óskuðu eftir Árbæ í Ölfusi, hygg ég, að þeir hafi nokkurn veginn sætt sig við það eins og það var í frv. Um Laugardæli er það að segja, að aldrei var farið fram á þetta af hálfu Selfossbyggja. En því ber ekki að neita, að sú jörð liggur þarna fast að, og í framtíðinni mundi vera hentugt og jafnvel nauðsynlegt að hafa slíkt land til jarðræktar í sambandi við stórt kauptún, sem vill færa út kvíarnar, með því að efla atvinnuskilyrðin og hefja landrækt að miklu leyti, að því frátöldu, að þar er jarðhiti. En eins og ég gat um áðan, hefur aldrei verið svona stórhugur heima fyrir, og því kemur þessi till. nokkuð óvænt. Þó að ég gæti skilið hana, treysti ég mér ekki á þessu stigi málsins til að greiða henni atkv. mitt. Það kemur seinna til þess, að Alþ. greiði atkv. um þetta mál, sem varla er fyrir hendi nú, og því mun ég greiða atkv. gegn henni að svo stöddu.