26.04.1946
Neðri deild: 122. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

235. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Frv. þetta er um það að innheimta á árinu 1946–1947 5 aura innflutningsgjald af hverjum lítra af benzíni auk þess innflutningsgjalds, sem innheimt er samkv. fyrirmælum l. nr. 84 frá 1932. Þetta aukagjald hefur verið tekið undanfarin ár, en fyrirmæli um það gengu úr gildi um síðustu áramót.

Síðan farið var að innheimta þetta aukagjald, hefur því verið þannig ráðstafað, að 2/5 hlutar hafa verið látnir renna til að leggja akvegi og malbika vegi, en 2/5 hlutar í brúasjóð, og sá hlut inn, sem lagður hefur verið í brúasjóðinn, mun að líkindum á þessu ári verða notaður til að byggja eina stórbrú, þ. e. brú á Jökulsá á Fjöllum, sem er mikið mannvirki og kostar mikið fé.

Ég hef leyft mér að leggja hér fram brtt. við frv. á þskj. 983, um að 2/5 hlutunum verði varið á sama hátt og verið hefur, þ. e. a. s. í brúasjóð og fé úr honum verði varið til brúagerða eftir ákvörðun Alþingis síðar. Ég vil benda á það, að þessi brtt. er flutt vegna þess, að ef frv. verður samþ. óbreytt eins og það liggur nú fyrir, þá er úr gildi fellt það ákvæði, að nokkur hluti gjaldsins skuli fara í brúasjóð, en ég tel það hyggilega tilhögun að leggja nokkurn hluta þessa gjalds í sérstakan sjóð og vil í því sambandi benda á, að það verður að telja vafasamt, að það hefði verið unnt svo fljótt að byggja þá brú á Jökulsá, sem nú á að byggja mjög bráðlega, ef ekki hefði verið safnað fé að undanförnu með þeim hætti sem gert hefur verið. En þó að þessi brú verði gerð, þá liggur á að gera margar stórbrýr, og getur því verið hentugt að leggja fé áfram í brúasjóð, eins og gert hefur verið.