05.04.1946
Neðri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

216. mál, iðnlánasjóður

Flm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Við höfum fjórir þm. leyft okkur að bera fram þetta frv. um breyt. á l. um iðnlánasjóð. Í fyrsta lagi leggjum við til, að árlegt framlag úr sjóðnum verði hækkað úr 65000 kr. í 300000 kr.

Þau verkefni, sem sjóðnum eru ætluð, eru ekki í samræmi við það fjármagn, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða. Vaxtakjör þau, sem sjóðurinn getur boðið, eru bundin við eign hans, og skiptir því miklu máli, að eignir hans aukist. Sjóðurinn hefur sem stendur heimild til þess að gefa út vaxtabréf, sem nemi um tvöföldum höfuðstól. Þessa heimild hefur ekki þurft að nota, því að lán sjóðsins eru svo lág, að þau koma fáum að gagni. Með þeirri breytingu, sem gert er ráð fyrir í 5. gr. þessa frv., breytist þetta verulega, og má búast við aukinni eftirspurn eftir lánum. Er því lagt til, að vaxtabréfaútgáfan megi nema allt að þreföldum höfuðstól sjóðsins, í samræmi við aukið starf sjóðsins.

Auk þess er hér um að ræða breytingar á fáum ákvæðum í lögunum.

Í 3. gr. frumv. er breyt. á 4. gr. laganna. Þar sem rýmkazt hefur um að útvega mönnum lán, þá eru þessar breyt. gerðar til þess að greiða fyrir því, að iðnaðurinn fái lán með betri kjörum en áður var. Breytingin á 4. gr. er smávægileg og felst aðeins í því að breyta um form hvað snertir nokkur atriði, koma því í einfaldara form en nú er.

Um 5. gr. er það að segja, að þau ákvæði, sem þar er lagt til að breyta, eru þannig nú, að lánsupphæð sú, er sjóðurinn getur lánað, er svo smávægileg, að að litlu eða engu gagni getur orðið, eins og verðlagi er nú háttað. Upphæð hvers láns, er sjóðurinn getur veitt, er bundin við tekjur hans, og getur það ekki náð því markmiði, sem sjóðnum var ætlað, eða hæsta lán, sem hann getur veitt, er 15 þús. krónur. Þetta er aldeilis óviðunandi. Sá maður, sem hefur framkvæmdastjórn fyrir sjóðinn, hefur látið í ljós, að með þessari rýmkun geti sjóðurinn lagt út hámarkslán um 150 þús. króna, og er þetta í meira samræmi við lágmarkskröfu til slíks sjóðs en nú.

6. gr. frv. er breyt. á 8. gr. laganna, og er lagt til, að það sé á valdi ráðherra að ákveða útlánsvexti sjóðsins. Vextirnir verða miðaðir við, hve mikið fé sjóðurinn verður að lána samkv. 2. gr. þessa frv. Framkvæmdastjóri sjóðsins hefur sagt mér, að hægt væri að ákveða vextina 3¼% bil 4½%, en venjulegir útlánsvextir eru 5%.

Þá eru meginatriði þess, að sjóðurinn hefur ekki náð tilgangi sínum. Lánin eru bundin þeim fyrirmælum, að fyrirtækið sé á fót komið. Þetta þykir nú óeðlilegt ákvæði í lögum og lýsir vantrausti á þeim mönnum, sem hafa á hendi sjóðsstjórnina. Þetta er í ósamræmi við aðrar lánsstofnanir, og er eðlilegast, að sjóðsstjórnin meti þetta sjálf.

Frumv. er seint á ferðinni, en við flm. væntum þess, að Alþ. stuðli að því, að það geti orðið afgr. sem l. frá Alþingi nú, og er þetta í samræmi við þá fyrirgreiðslu, sem aðrir atvinnuvegir landsmanna hafa hlotið, svo sem sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Þá er eðlilegt, að þriðji atvinnuvegurinn fái úrbót sinna mála þótt ekki komist til jafns við hina.

Samkv. eðlilegum gangi ætti frv. að ganga til iðnn., en gæti einnig komið til mála að vísa því til fjhn. Ég legg til, að því verði vísað til iðnn.