11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

16. mál, fjárlög 1946

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það er vitað, að ekki er hægt að svara öllum þeim fjarstæðum, sem hér hafa verið sagðar af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, á svo stuttum tíma sem ég hef til umráða. Og því síður er hægt að lægja þann ódæma belging, sem er í talsmönnum þessa vesæla flokks hér. Ég ætla þess vegna ekki að fara vítt eða breitt yfir þetta, sem hv. 2. þm. S.-M. þuldi hér upp nú síðast. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á þann þátt í máli hans, sem snýr að sjávarútveginum. Ég hef oft undrazt dirfsku þessa manns. Og það er rétt, að hann er einhver mesti kjarkmaður, sem ég hef kynnzt á ævinni, a. m. k. á ræðusviði. Ég hef ekki reynt hann í mannraunum, en vona, að hann reyndist sæmilegur maður þar. En ég undrast dirfsku hans á ræðusviði, því að aðalþátttaka þessa manns í pólitík í mörg ár var að berjast fyrst og fremst gegn sjávarútveginum. Nú vitnar hann í frv., sem hann flutti til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. Hann segist flytja frv. um fiskimálasjóð. Þetta er rétt. Hann hefur komið með mjög margt af frv. og till. til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, þegar svo er komið, að hann ræður engu í landinu og á Alþ. En meðan hann gat komið fram vilja sínum, barðist hann gegn sjávarútveginum með hnúum og hnefum og því miður með miklum árangri, því að enginn maður hefur níðzt eins herfilega á sjávarútveginum eins og þessi hv. þm. Í þessu frv., sem hann nú var að tala um, um fiskimálasjóð, er m. a. lagt til, að ríkissjóður leggi sjóðnum 25 millj. kr. á næstu 10 árum. Ég flutti hér á hæstv. Alþ. ásamt fleiri hv. þm. sjö sinnum frv. um eflingu fiskimálasjóðs, og þessi hv. 2. þm. S.-M. og hans fylgifiskar og bandalagsmenn stóðu að því í öll skiptin að drepa þetta frv. Fiskimálasjóður var þá sjóður, sem stóð einn undir öllum sjávarútvegsmálum. Honum var haldið í þeirri kreppu, að hann átti lengst af ekki yfir 2 millj. kr., og ríkissjóður var skyldugur til þess að greiða honum eina millj. kr. á ári. Um það sveikst hv. þm. S.-M. alla sína ráðherratíð, og sjóðurinn fékk ekki þessa einu millj. kr., fyrr en völd þessa hv. þm. voru þorrin á hæstv. Alþ. Nú kemur þessi hv. þm., þegar sjóðurinn er kominn úr hans greipum og á nú skuldlausar 25 millj. kr. og hefur í árstekjur ekki langt frá 4 millj. kr., og þegar nú er áformað að leggja sjóðnum 100 millj. kr. í starfsfé með mjög ódýrum lánakjörum, þá kemur þessi hv. þm. og segir: Nei, nú ætla ég að efla annan sjóð fyrir fiskveiðarnar, og það á að leggja honum 25 millj. kr. á næstu 10 árum. Ég veit, að þessi maður er ákaflega brjóstheill, en ég held, að flestir hefðu kastað upp af sínum eigin till. nema hann í slíkum kringumstæðum. — Þessi hv. þm. er alltaf að barma sér yfir því, eins og komið sé við hjartað í honum, að fiskibátaflotinn sé að stöðvast. Hann segir, að fjöldi báta sé mannlaus, og það er auðheyrt, að hann er að bresta í grát yfir þessu. En ég bendi honum á, að á þessu ári verður flutt út úr landinu verðmæti fyrir 300 millj. kr., mest sjávarafurðir, og það er 30 millj. kr. meira en flutt var út á síðasta ári þrátt fyrir síldarleysið í sumar. Ég held, að hv. 2. þm. S.-M. sé óhætt að stöðva grátinn þess vegna, að útflutningur sjávarafurða fari ekki rýrnandi á næstu mánuðum.

Það er næstum því að segja maklegt að segja frá nokkrum atvikum úr stjórnmálasögu þessa manns í garð sjávarútvegsins. Einu sinni bundust framsóknarmenn samtökum við samstarfsflokk sinn um að gera togaraflotann gjaldþrota, leggja togaraútgerðina að velli. Þá var því stungið í eyra þessa manns, að þetta væri ekki á valdi þeirra, heldur bankastjóra Landsbankans, og framkvæmdastjóri Landsbankans mundi ekki gera slíkt. Þá bauðst þessi hv. þm. til þess að setja bankastjórann frá, til þess að geta komið fram þessu bolabragði. En áður en hann legði í það stórræði, sagði einhver, sem var nokkru fróðari og skynsamari í Framsfl., að þetta væri alls ekki á valdi bankastjóranna fremur en ráðh. Og þá kom það leiðinlega í ljós, að þó að framsóknarmenn hefðu haft meiri hl. þm., þá voru nú tveir þeirra Bændaflokksmenn. Og frá þessu öllu var horfið. En það var ekki frá þessu horfið fyrr en þessi hv. þm. fjargviðraðist yfir þeim ógurlega ásetningi, sem Alþfl. hefði haft um það að stöðva togaraflotann.

Það er ýmislegt viðvíkjandi sjávarútveginum, sem rétt hefði verið að rifja upp fyrir þessum hv. þm. Það er t. d. um sjávarútveginn að segja, að einu sinni ætlaði Framsókn að leggja undir sig öll frystihús landsins og fá þau síðan Sambandinu. Og þegar fiskimálanefnd og fiskimálasjóður var stofnaður; var byrjað að lána til frystihúsa. En meðan áhrifa Framsfl. gætti, mátti ekki lána til frystihúsa nema samvinnufélögum og alls ekki til sjálfstæðismanna. Var allt pólitískt í þá daga. Það þýðir því ekki fyrir hann að berja sér á brjóst og tala um umhyggju fyrir sjávarútveginum. Hann veit, hvað honum býr í brjósti til sjávarútvegsins.

Það er, eins og ég sagði í upphafi, þýðingarlaust að ætla sér að elta ólarnar við allar þær missagnir, sem fram komu frá andstæðingum hæstv. stj. Til þess er tími minn allt of stuttur. En ég held, að maður verði í þessu efni eins og venjulega að treysta dómgreind fólksins, að það kunni að greina rök frá rakaleysum, greina kjarnann frá hisminu. En ég get ekki annað en minnzt á það, að þetta mál, athafnir og fyrirætlanir hæstv. stj. og svo vilji Framsóknar, það er ákaflega einfalt mál. Orsökin til þess, að þjóðin er þar orðin skipt í tvo hluta, mjög misjafna þó, þar sem annars vegar er það fólk, sem styður áform hæstv. stj., og hins vegar eftirlegukindur, sem teljast til Framsfl., er sú, að þjóðin hefur átt í langri sjálfstæðisbaráttu um margra alda skeið. Meðan hún var að slíta af sér hin útlendu bönd, var þetta gert í áföngum. Og hvenær sem Íslendingum miðaði eitthvað áfram í sjálfstæðisbaráttunni, þá hófst hér framfaraöld. Þá andaði vorhug yfir landið og bjartsýni greip fólkið og það vildi nota mátt sinn og þrótt. En í öll skipti dagaði einhverja uppi, sem voru trúlausir, sem ekki trúðu á mátt sinn og þjóðarinnar. Þeir urðu að nátttröllum. Nú hefur verið stigið síðasta skrefið á þessari braut. Við höfum heimt að fullu sjálfstæði okkar og frelsi, og þá eins og alltaf reis bylgja bjartsýnis og stórra áforma í brjóstum landsmanna. Nú stóð svo vel á, að máttur þeirra var miklu meiri en áður. Ég skal ekkert fara út í hér, hvað mikið átak það hefur kostað að láta alla þá ósamstæðu flokka verða samferða í þessum stóru áformum að gerast sjálfstæð þjóð. Ég skal ekki koma að því, hvert erfiði það hefur kostað að drasla Framsfl. þar með. En það fór svo eins og jafnan, að þegar þetta mikla skref var stigið, greip um sig mikill vorhugur. Þá skiptist þjóðin í tvo misjafna parta. Annar vildi taka stór skref til baráttu við örðugleikana og efla möguleikana í þjóðfélaginu til þess, að hún gæti lifað menningarlífi, til þess að efnahagur hennar gæti blómgazt og eins frelsi hennar og sjálfstæði. En það gátu ekki allir orðið samferða. Einar Jónsson hefur gert mynd af sólaruppkomunni. Þar sést nátttröll, sem hefur rænt konu úr byggð, en er að daga uppi. Handleggur tröllsins er að réttast upp og maðurinn að verða frjáls. Þetta gæti verið mynd af Framsfl., þessari óvætt, sem hefur rænt mörgu góðu fólki í byggðum þessa lands, en er nú að daga uppi í sólaruppkomu frelsisins, og armleggur hennar er að réttast upp, og fólkið, sem hún hefur rænt á þeli þeirrar nætur, sem hún sjálf hefur magnað, er að endurheimta frelsi sitt.