11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

16. mál, fjárlög 1946

Hermann Jónasson:

Góðir tilheyrendur. Hæstv. samgmrh. sagði, að flokkur hans hefði ekki undan neinu að kvarta enn þá í samstarfinu í ríkisstj. Hann sagðist raunar ekki hafa leyfi til þess að lýsa þessu yfir, og ég hygg, að hann hafi sagt það alveg satt, og víst er um það, að enginn vafi leikur á um skoðanir kjósenda flokksins í þessum efnum. Hæstv. atvmrh. sagði, að ég hefði farið með staðleysu stafi, það, sem menntmrh. hefði sagt hér um stefnu kommúnistaflokksins, og sagðist vísa því heim til föðurhúsanna. Menntmrh. bað mig að segja sér, hvar þessi — ummæli stæðu, og það gerði ég og kom í veg fyrir, að hann kæmi með þessa firru. Þessi ummæli eru í Verkalýðsblaðinu, 25 tölubl. 21. júní 1932, í grein með fyrirsögninni: „Hvað er kommúnismi?“ — Þá sagði hann, að það væri tilefnislaust, sem ég hefði sagt um bátana. Ég ætla nú ekki að minna á það frekar. Það er vitað, að fyrir liggja tilboð í næstu kaupstöðum um sams konar báta frá Danmörku, sem eru 300 þús. kr. ódýrari, svo að tapið nemur 6–8 millj. kr., enda hefur enginn reynt að svara þessu nema með svona útúrsnúningum, eins og hæstv. atvmrh. reyndi. Það er vitað mál, að þessar bátasmíðar innanlands þykja hið mesta óhappaverk.

Þá er það hv. 7. þm. Reykv. Hann talaði mikið um tímabilið frá 1934–1939 og talaði um, hvað við hefðum verið fjandsamlegir sjávarútveginum. Hagskýrslur sýna, að aldrei hefur verið flutt eins mikið inn til nýbygginga og Framsfl. gerði á þeim árum, og ekki sízt til sjávarútvegsins. Og þá dró stj. saman af fátækt sinni til að borga 25% af bátaverðinu, eins og kunnugt er. –Annars er nú ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þessa ræðu. Allir vita, að hv. 7. þm. Reykv. hefur eins konar einkarétt á því að tala í þeim dúr, sem hann talaði hér. Hann er dálítið skemmtilegur og menn brosa að því. Hann líkti Framsfl. við nátttröll. En það er fleira til í okkar þjóðsögum en nátttröll. Það eru líka til sögur um álfa, og eitt af okkar beztu skáldum hefur lýst því, hvernig þeir dansa yfir feigðarhylnum og ginna menn í vökina. Ég held, að hið sama sé einmitt að gerast í þjóðlífi okkar nú. Ég held, að það séu álfar, sem séu að ginna jafnaðarmenn og Sjálfstfl. í vökina.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um húsnæðisleysið fyrir stríð. Liggja fyrir upplýsingar frá borgarstjóranum í Reykjavík um það, að hér var nægilegt húsnæði fyrir stríð. — Þá talaði þessi hv. þm. um það, að ég vildi lækka kaupið. Við höfum aldrei talað um annað en að lækka dýrtíðina. Aðfarirnar, sem hér eru hafðar í frammi við verkamenn, eru svipaðar því og minna mig á það, að það var maður nokkur á Norðurlandi, sem aldrei gerði mikið og aldrei vildi borða minna en minnst 2–3 potta af graut. Það var haft þannig við þennan mann, að bætt var vatni í grautinn, þar til magnið var alls orðið jafnmikið og hann var vanur að borða, og var hann þá ánægður. Hér er farið alveg eins að. Það er sífellt verið að bæta vatni í grautinn, því að gildi krónunnar hefur stöðugt farið þverrandi. Við höfum alltaf haldið því fram, að það beri að lækka þetta allt, ekki sízt með því að nota stríðsgróðann til þess að koma í veg fyrir, að þetta komi niður sem byrði á verkamenn og bændur, en með þessu er fjármálunum sköpuð þau skilyrði, að blómlegt atvinnulíf geti þrifizt.

Ég vil segja það við hæstv. fjmrh., að raunverulega er hann allra manna sízt öfundsverður af því hlutskipti, sem hann leikur í ríkisstj. Hann flytur hér við öll tækifæri þá ræðu, að það sé stefnt út í stöðvun. En hann heldur áfram að framkvæma þessa stöðvun. Hæstv. fjmrh. stiklaði yfir, eins og þegar varfærinn bóndi skríður yfir á á ís eða eins og þegar málafærslumaður forðast að koma nærri því, sem hann getur ekki hrakið. Ég endurtek aðeins örfáar staðreyndir, sem ég sagði. Í fyrsta lagi talaði ég um vinnufrið, sýndi fram á það með staðreyndum, að það hefur aldrei verið meiri ófriður og verkföll en síðan ríkisstj. tók við völdum. Einu stærsta verkfallinu, verkfallinu í siglingaflotanum, er tæplega aflétt enn þá. Ég sýndi fram á, að í stað skipulegra framkvæmda hefur aldrei ríkt annar eins glundroði og nú. Þetta hefur þær afleiðingar, sem allir sjá í okkar þjóðfélagi, ofþenslu, svo að stj. fær ekki við neitt ráðið. Í húsbyggingarmálunum er ekkert gert, og er það broslegt, þegar stjórnarsinnar tala um húsnæðismálin, eftir að þeir hafa ekkert gert í þessum málum. Framsfl. flutti frv. um byggingarsjóði. Því var ekki sinnt. En eftir nokkra daga kom fram frv. frá dómsmrh. Þegar svo farið var að lesa þetta saman, sást, að frv. var svo að segja grein fyrir grein eins og það frv., sem ég hef lagt fram, og prentvillur og skekkjur með. Ég talaði um dýrtíðina. Er það ekki staðreynd, að því var lofað, að hún skyldi stöðvuð? Er það ekki staðreynd, að ástandið í landinu líkist ástandinu í Þýzkalandi þegar markið var að falla? Það er ein afleiðing þessarar verðbólgu, að fjöldi fólks eyðir nú kaupi sínu fyrirhyggjulaust, vegna ótta við verðfall. Sparifjáreigendur lifa í stöðugum ótta, sökum hræðslu við gengisfall. Og nú er svo komið, að áður en ég kom hér að hljóðnemanum, fékk ég upplýsingar um það, að peningaflóðið er farið að velta úr verzlununum til útlanda. Einn góður borgari hefur látið flytja til dóttur sinnar, sem er gift fyrir vestan haf, 400 þús. kr., skv. fyrirskipun frá utanrrn., og munu ekki finnast dæmi slíks nema í löndum, sem eru auðugri en Ísland. — Ég sýndi fram á, hvernig stj. hefur staðið við loforð sitt um verklegar framkvæmdir, loforðið um, að eftirlit með skattaframtölum skyldi skerpt o. s. frv. Allt þetta sýndi ég fram á í fyrstu ræðu minni með rökum, sem ekki verða hrakin, sýndi fram á, að nú þegar hefur stj. raunverulega gengið frá öllum þeim loforðum, sem hún gaf þjóðinni.

Þegar búið er að víkja þessari klíku til hliðar, sem vitanlega verður gert áður en langt um líður, er hægt að mynda stj. umbótamanna. En ef þetta dregst, þá er víst, að það getur farið svo, að þessi stj., áður en hún hrökklast frá völdum, frysti fé landsmanna þannig, að ný stj. hafi því nær af engu að taka, þegar allt er stöðvað og komið í kaldakol. Ef núv. stj. situr svo lengi, að hún skapi þetta ástand, er hætt við ægilegum deilum milli atvinnulausra öreiga annars vegar og auðmanna hins vegar, þar sem báðir berjast til fullra yfirráða. Hver dagurinn, sem líður og stj. situr, færir þjóðina nær þessu ástandi. Þess vegna er aðkallandi og eina lausnin að mynda samfylkingu umbótamanna, nægilega sterka til að taka völdin og stjórna í samræmi við það, sem þjóðin raunverulega þráir og vill.

Góðir framsóknarmenn. Við ykkur vil ég segja þetta: í þessu stjórnarsamstarfi gátum við auðvitað ekki tekið þátt, við höfum gert grein fyrir því. En það er skylda okkar, hvar í stétt sem við stöndum, að efla og treysta starf okkar og samstarf við sanna framfaramenn annarra flokka, því að það eitt er víst, að þess verður ekki langt að bíða, að stj. hrökklist frá völdum, og þá þarf samstillt fylking umbótamanna að vera þess albúin að hefja samstarf um ríkisstj., trausta til viðreisnar í þessu landi, því að það er áreiðanlegt, að þessi stj. verður búin að koma því þannig fyrir, að það verður full þörf samstilltra átaka til þess að vinna að þeirri viðreisn.

Vil ég svo bjóða öllum tilheyrendum mínum góða nótt og þakka þeim, sem hafa hlustað á mál mitt.