26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

248. mál, kosningar til Alþingis

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Þar sem hæstv. dómsmrh. er hér ekki staddur, vildi ég leyfa mér að segja hér nokkur orð. — Mér virðist, að hér sé blandað saman 2 málum, öðru, sem allir eru sammála um, en hinu, sem orkað getur tvímælis. Ég tek undir það með hv. 2. þm. S.-M., að mörgum hefur sviðið það sárt, að sjúklingar, kannske andlega fullfrískir, hafa ekki getað vegna sjúkdóms greitt atkv. Og það gildir jafnt um þá, sem eru utan sjúkrahúsa, og þá, sem eru í sjúkrahúsum. Ég tel, að um þetta verði að fara mjög varlega, því að hér geta komið fyrir ýmis tilvik, sem vandfarið er með. Ég vildi með þessum orðum leyfa mér að styðja þá uppástungu sem fram hefur komið, að málinu verði frestað og það athugað í n. til morguns og reynt að finna form, sem menn gætu komið sér saman um, og hef ég sízt á móti því, að það tækist, en að öðrum kosti verði aðeins það af málinu afgreitt, sem sjálfsagt er að afgreiða, að Íslendingar erlendis, sem notið geta aðstoðar sendiherra, fái að greiða sitt atkv. En ég vildi mjög fara þess á leit, að hin vafasömu atriði yrðu ekki látin verða til þess, að aðalatriði málsins yrðu kannske tafin eða þeim slegið á frest. Það er óþarft. En ef heimakosningar eða kosningar sjúkra manna verða teknar hér upp til afgreiðslu, er það raunverulega erfiðara mál og margbrotnara en að hægt sé að afgr. það svona í þinglokin á einum til tveimur klukkutímum.